Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Blaðsíða 96
94
MÚLAÞING
færi síður inn í olíuleiðsluna um röropið. Við áttum hálftunnu af smur-
olíu á dekkinu, sem við vorum svo heppnir að missa ekki fyrir borð,
þegar við fengum á okkur sjóhnútinn kvöldið áður. Við létum nú
smurolíuna úr tunnum á steinolíutank vélarinnar, og flaut þá steinolían
upp, en smurolían settist á botninn. Þannig fengum við vélina í gang.
Þegar þetta var, vorum við djúpt út af Selskeri, og var nú haldið til
lands. Á þennan hátt komumst við inn fyrir Papey, og langleiðina að
Skorbeini, en þá stoppaði vélin. Þarna vorum við illa staddir, því að
nú var kominn norðvestan kaldi, vindurinn stóð út Berufjörðinn og á
skerjagarðinn sunnan við Djúpavog. Nú var um líf og dauða að tefla.
Við settum upp stórseglið, og sigldum í suður. Ekki tókst okkur þó
að komast í Skorbeinsálinn, heldur lentum við í grynnri álinn, Lýðólfs-
álinn, og þar braut á hverju skeri. Þegar þangað var komið var ekki
lengur um siglingu að ræða, þarna vorum við með öllu stjórnlausir og
bjuggumst við því á hverri stundu að Ægi ræki upp á eitthvert skerið,
en það var eins og eitthvert frákast frá skerjunum bjargaði okkur úr
þeim háska. Þessi dagur mun okkur öllum hafa orðið ógleymanlegur.
Þarna biðum við dauðans, þessir 6 menn, á þessum drungalega eftir-
miðdegi og gátum enga björg okkur veitt, aðeins treyst á forsjón al-
mættisins. Þannig velktist báturinn fyrir stormi og straumi í gegnum
skerjaklasann, þar sem braut á hverju skeri, en alltaf þokuðumst við
þó í vesturátt. Þegar við komum vestur undir Ketilsboðaflös, komst
vélin enn í gang, þá var komið myrkur. Sáum við þá ljós uppi á
Búlandinu. Við héldum þá að þar væru einhverjir sem héldu á ljóstæki,
þá trúlega til þess að svipast um eftir Ægi.
Á laugardagskvöldið í myrkrinu og norðvestanstorminum lentum
við þarna uppundir einhvern vog, og inn á hann komumst við. Á
leiðinni inn á voginn fengum við sjóhnút aftan á bátinn.
Sluppum við þó við stórskaða, þótt illa horfði, en sjór komst þó
talsverður niður í lúkarinn og olli það okkur óþægindum. Raunar var
þetta í annað sinn í ferðinni sem við fengum á okkur sjóhnút, þess
fyrra er áður getið, og í bæði skiptin komst sjórinn í lúkarinn, skemmdi
brauðmatinn okkar og bleytti allan fatnað sem þar var. Inni á vogi
þessum var mjög ókyrrt, svo að okkur leist ekki á að halda þar kyrru
fyrir. Enn sáum við af og til ljósið uppi á Búlandinu. Allir vorum við
þarna ókunnugir landsháttum, en þó vissum við hvar Búlandsnesið er
eða a. m. k. álitum við það. Þegar við minntumst á vog þennan síðar
við kunnuga menn á þessum slóðum, sem heima áttu á Djúpavogi,
álitu þeir að vogurinn, sem Ægir lenti inn á, mundi hafa verið Jak-