Jökull - 01.12.1988, Qupperneq 92
Umsögn um bókina
KLIMA, VEJR og MENNESKE
eftir
Willi Dansgaard
Kaupmannahafnarháskóla
Geografforlaget í Danmörku gaf á síðasta ári út
bókina Klima, Vejr og Menneske eftir Willi Dans-
gaard prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Bók-
in er alþýðlegt fræðirit um veðurfræði með sérstakri
áherslu á loftslag og loftslagsbreytingar. Hún er ætl-
uð skólum jafnt sem almenningi og gerir ekki sér-
stakar kröfur um stærðfræði- eða eðlisfræðiþekkingu
lesanda. Bókin er 128 blaðsíður að stærð og prýdd
fjölda teikninga og mynda, sem margar eru í lit.
Fyrri hluti bókarinnar fjallar um almenna veður-
fræði, samsetningu andrúmsloftsins, inn- og útgeisl-
un í lofthjúpnum, vindakerfi jarðar, hafstrauma,
þrýsting, hita og raka svo eitthvað sé nefnt. Ýmis
atriði eru rædd í sjálfstæðum boxum, sem aðgreind
eru frá meginmálinu með skyggingu og gerir þetta
bókina mjög læsilega. Fjallað er um notkun tölvu-
líkana við veðurspár, kjamorkuvetur, gróðurhúsáhrif
í lofthjúpnum, hlýnun vegna aukins koltvísýrings í
andrúmsloftinu og bráðnun jökla af þeim sökum.
Einnig er fjallað um E1 Nino óregluna á hafstraum-
um við Perú, sem veldur hruni í ansjósuveiðum Per-
úmanna á nokkurra ára fresti, og margt fleira sem
stundum heyrist nefnt í fréttum en ekki er fjallað um
í hefðbundnum kennslubókum í veðurfræði. Þessi
hluti bókarinnar kemur þó ekki í stað hefðbundinna
kennslubóka í veðurfræði. Tiltölulega lítið er fjallað
um loftmassa, skil og lægðir. Hins vegar fá vind-
strengir og meginskil nokkuð ítarlega umfjöllun og
góð lýsing er á vindakerfi jarðar, bæði í máli og
myndum.
Síðari hluti bókarinnar fjallar um loftslag og lofts-
lagsbreytingar og nýtur góðs af mikilli þekkingu
höfundarins á viðfangsefninu. Willi Dansgaard er
einn þekktasti veðurfars- og jöklafræðingur nú á
tímum. Hann og samstarfsmenn hans á Geofysisk
Isotoplaboratorium við Kaupmannahafnarháskóla
hafa staðið að kjamaborunum á Grænlandsjökli og
hafa niðurstöður þeirra varpað ljósi á loftslag á jörð-
inni síðustu 100.000 árin.
I þessum hluta bókarinnar er ítarlega fjallað um
ísaldir, hlýskeið og kuldaskeið, hitasveiflur á síðustu
ísöld og á nútíma og kenningu Milankovich um or-
sakir ísalda. Það kemur skýrt fram hve breytilegt
loftslag á jörðinni er og hve viðkvæmt veðrakerfið
virðist vera fyrir tiltölulega smávægilegum sveiflum
t.d. í inngeislun sólar eða dreifingu hennar á jörðina
eftir breiddargráðum. I bókinni em loftslagsbreyt-
ingar settar í samhengi við mannlegt samfélag og
mannkynssöguna eftir því sem hægt er og meðal
annars minnst á landnám norrænna manna á Islandi
og Grænlandi í því sambandi.
Bók Dansgaards hentar vel sem ítarefni í veður-
og jarðfræðinámi. Umfjöllunin um loftslag í síðari
hluta bókarinnar er góð viðbót við hefðbundið nám í
veðurfræði í menntaskólum og í upphafsnámskeið-
um háskóla. Slíkt nám snýst alla jafna um veðra-
kerfi jarðar eins og það er nú en fjallar ekki mikið
um loftslagsbreytingar og orsakir þeirra. Bókin er
vel skrifuð og höfundur notar markvisst teikningar
og myndir í stað langra útskýringa. Hún er því feng-
ur fyrir áhugafólk um veður- og jöklafræði.
Tómas Jóhannesson
90 JÖKULL, No. 38, 1988