Dagblaðið Vísir - DV - 02.12.2014, Blaðsíða 26

Dagblaðið Vísir - DV - 02.12.2014, Blaðsíða 26
Vikublað 2.–4. desember 201426 Sport Verstu framherjarnir í sögu úrvalsdeildarinnar n Framherjarnir sem slógu aldrei í gegn n Manstu eftir Marco Boogers og Ade Akinbiyi? B reska blaðið Daily Mail stóð á dögunum fyrir vali á verstu framherjunum í rúmlega tuttugu ára sögu ensku úr- valsdeildarinnar. Á listan- um kennir ýmissa grasa og er óhætt að segja að margir eftir minnilegir – og óeftirminnilegir – leikmenn séu á honum. Meðal þeirra sem voru svo heppnir að komast ekki á topp 10, en eru á topp 50, eru leikmenn eins og Helder Postiga, Rolando Bi- anchi, Andriy Voronin, Erik Meijer, Jozy Altidore, Ricky van Wolfswin- kel og David Bellion, svo fáir séu nefndir. Hér að neðan gefur að líta yfirlit yfir þá tíu verstu að mati Daily Mail. n 10 Jo Félög: Manchester City og Everton Miklar vonir voru bundnar við Brasilíu- manninn Jo sem átti að verða næsta stórstjarna Brassa. Manchester City festi kaup á leikmanninum í júlí 2008 og greiddi CSKA Moskvu 19 milljónir punda, tæpa fjóra milljarða króna. Þarna var Jo aðeins 21 árs, tiltölulega ungur og óreyndur. Það varð fljótlega ljóst að Jo myndi aldrei slá í gegn hjá City og er ótrúlegt til þess að hugsa að það eru fleiri stafir í nafninu hans en mörkin sem hann skoraði í úrvalsdeildinni fyrir City. Eftir 21 leik var 1 mark niðurstaðan. Eftir hálft tímabil í herbúðum City var hann lánaður til Everton þar sem honum gekk ör- lítið betur að fóta sig. Hann skoraði 5 mörk í 12 leikjum það sem eftir lifði tímabils en mistókst að skora í 15 leikjum fyrir Everton tímabilið þar á eftir, en þá var hann hann aftur lánaður til Bítlaborgarinnar. 9 Ade Akinbiyi Félög: Norwich, Leicester og Sheffield United Hver man ekki eftir Ade Akinbiyi sem var í raun meira þekktur fyrir vöðva sína en hæfileika á fótboltavellinum? Tímabilið 1993 til 1994 var hann á mála hjá Norwich í úrvalsdeildinni þar sem honum gekk afleitlega. Honum mistókst að skora í 15 úrvalsdeildarleikjum og yfirgaf Norwich árið 1997. Eftir að hafa raðað inn mörkum í neðri deildum Englands var hann keyptur til Leicester árið 2000 sem greiddi 5,5 milljónir punda fyrir kappann. Hann varð aðhlátursefni stuðningsmanna annarra liða í úrvalsdeildinni, honum gekk bölvanlega að nýta frábær marktækifæri en skoraði í það heila 11 mörk í 58 úrvalsdeildarleikjum með Leicester. Árið 2002 var hann seldur til Crys- tal Palace en sneri svo aftur í úrvalsdeildina með Sheffield United tímabilið 2006/2007. 8 Stephane Guivarc'h Félag: Newcastle Guivarc'h var keyptur til Newcastle árið 1998 frá Auxerre í Frakklandi. Hann hafði hampað heimsmeistaratitlinum fyrr um sumarið og voru miklar vonir bundnar við sóknarmanninn. Hann hafði jú skorað 21 mark í 32 leikjum í frönsku deildinni tímabil- ið á undan. Guivarc'h byrjaði ágætlega en þó að hann hafi skorað í sínum fyrsta leik, gegn Liverpool, gekk honum bölvanlega að finna sig á Englandi, eins og kollegar hans á þessum svarta lista. Í nóvember, nokkrum mánuðum eftir komuna til Newcastle, var hann seldur til Rangers í Skotlandi fyrir sömu upphæð og Newcastle hafði greitt, 3,5 milljónir punda. Ef til vill er leikmanninum vorkunn. Í það heila fékk Guivarc'h aðeins fjórum sinnum tækifæri í byrjunarliðinu. En lífið í úrvalsdeildinni er enginn dans á rósum, eins og hann fékk að kynnast. 7 Andriy Shevchenko Félag: Chelsea Úkraínumaðurinn er aðeins einn fjölmargra framherja Chelsea sem komast á listann. Enginn efast um að Shevchenko hafi verið einn besti framherji heims á sínum tíma. Hann skoraði 187 mörk í 325 leikjum fyrir Dynamo Kiev og hélt uppteknum hætti hjá AC Milan áður en hann samdi við Chelsea árið 2006. Kaupverðið var um 30 milljónir punda og varð Shevchenko einn dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Hjá Chelsea var þessi magnaði leikmaður aðeins skugginn af sjálfum sér og skoraði einungis 9 mörk í 48 úrvalsdeildarleikjum. Hjá liðinu féll orðspor hans samhliða slæmu gengi. Hann hafði verið einn heitasti framherjinn í Evrópuboltanum en náði sér aldrei aftur á strik. Hann sneri aftur til Dynamo Kiev árið 2009 en lagði skóna á hilluna árið 2012. 6 Afonso Alves Félag: Middlesbrough Miðað við hvað Afonso Alves gekk vel að skora hjá Hereenveen í Hollandi kom það fáum á óvart að stærra lið myndi loks sækjast eftir kröftum hans. Eftir að hafa skorað 48 mörk í 48 leikjum falaðist Middlesbrough eftir þjónustu þessa skæða sóknarmanns. Þetta var í janúar 2008 og var Middlesbrough í miklu basli við botn úrvalsdeildarinnar. Svo fór að Middles- brough greiddi 15 milljónir punda fyrir Alves. Hann afrekaði að skora tvö mörk í leik gegn Manchester United en það er um það bil það eina jákvæða sem Alves gerði á afleitum 18 mánuðum hjá Middlesbrough. Talið er að hann hafi verið með um 50 þúsund pund í vikulaun, 10 milljónir króna, en í það heila skoraði hann 10 mörk í 42 úrvalsdeildarleikj- um. Middlesbrough féll vorið 2009 og var Alves seldur til félags í Katar í kjölfarið. 5 Tomas Brolin Félög: Leeds og Crystal Palace Svíinn Tomas Brolin fór mikinn á fyrri hluta ferils síns, þá einna helst með sænska landsliðinu. Brolin var á hátindi ferils síns í kringum Evrópukeppnina 1992. Þá var hann hraður, teknískur og gat gert ótrúlegustu hluti upp úr engu. Árið 1995 keypti Leeds, sem þá var undir stjórn Howards Wilkinson, leikmanninn og greiddi 4,5 milljónir punda fyrir – stórfé á þeim tíma. Tími Brolins hjá Leeds var skelfilegur eins og 4 mörk í 20 leikjum bera vitni um. Hann virðist hafa verið hrifinn af breska matnum því hann þyngdist ótæpilega hjá Leeds og lenti upp á kant við stjórann. Hann var lánaður til FC Zürich og aftur til Parma áður en Leeds leysti hann undan samningi. Árið 1998 samdi hann við Crystal Palace en líkamlegt ástand hans var skelfilegt, allavega miðað við leikmann í ensku úrvalsdeildinni. Þar lék hann 13 leiki án þess að ná að koma knettinum í netið. 4 Andreas Cornelius Félag: Cardiff Talsverðar vonir voru bundnar við Andreas Cornelius þegar hann var keyptur til nýliða Cardiff í ensku úrvalsdeildinni fyrir síðasta tímabil. Cornelius, sem þá var 19 ára, hafði skorað 18 mörk í 34 leikjum með FC Kaupmannahöfn og fór svo að Cardiff keypti kauða á 8 milljónir punda í júní 2013. Cardiff hefði betur eytt þessum peningum í eitthvað annað. Cornelius til varnar þá meiddist hann á ökkla fljótlega eftir komuna til Cardiff en þau meiðsli eru engin afsökun fyrir afleitri frammistöðu hans á vellinum. Eftir 8 leiki í treyju Cardiff í úrvalsdeildinni var hann seldur aftur til Kaupmannahafnar í janúar síðastliðnum. Talið er að kaupverðið hafi verið á bilinu fjórar til sex milljónir punda sem þýðir að Cardiff tapaði nokkur hundruð milljónum króna á þessum afleitu viðskiptum. 3 Jason Lee Félag: Nottingham Forest Það eru ef til vill ekki margir aðdáendur enska boltans sem muna eftir Jason Lee. Hann er líklega betur þekktur fyrir hræðilega hárgreiðslu en frammistöðu sína á vellinum. Lee gekk í raðir Forest í febrúar 1994 frá Southend United. Hann lék 76 leiki fyrir Forest og skoraði 14 mörk. „Hann er með ananas – á höfðinu“, sungu stuðningsmenn annarra liða þegar Forest kom í heimsókn – og hæddust að leikmanninum. Jason Lee var aldrei í úrvalsdeildarklassa en kannski gengur Daily Mail of langt með því að setja hann í 3. sæti listans? Á ferli sínum lék Lee 621 leik, langflesta í neðri deildunum, og skoraði hann 125 mörk. Hann lék með ein- hverjum 20 félgsliðum á ferli sínum sem knattspyrnumaður. Í dag er Lee þjálfari Boston United í ensku utandeildinni. 2 Marco Boogers Félag: West Ham Boogers gekk í raðir West Ham í júlí 1995 eft- ir að hafa staðið sig ágætlega með Spörtu í Rotterdam í Hollandi. Lundúnaliðið greiddi eina milljón punda fyrir kappann sem þótti dágóð summa á sínum tíma. Í öðrum leik Boogers kom hann inn á sem varamaður í leik gegn Manchester United. Eftir að hafa verið stutta stund inni á vellinum fékk hann að líta rauða spjaldið fyrir hrottalega tæklingu á ungum bakverði United-liðsins, Gary Neville. Breska pressan gerði mikið úr málinu og velti upp þeirri spurningu hvort hann hefði fengið fyrirmæli um að meiða Neville – hann gerði allavega lítið annað á þeim fáu mínútum sem hann spilaði. Pressan virtist fara illa í Boogers sem lét sig hverfa um stund. Eftir aðeins fjóra leiki hjá West Ham í úrvalsdeildinni án þess að skora mark var hann lánaður til Groningen í Hollandi áður en hann gekk frá varanlegum samningi við félagið. 1 Bosko Balaban Félag: Aston Villa Margir ráku upp stór augu þegar Aston Villa festi kaup á króatíska sóknarmanninum Bosko Balaban árið 2001. Var það helst verðmiðinn, 6 milljónir punda, sem vakti furðu margra. Balaban var 23 ára á þessum tíma og hafði staðið sig ágætlega með Dinamo Zagreb í heimalandi sínu, skorað 14 mörk í 27 leikjum. Þessi ungi framherji skrifaði undir lygilega góðan samning hjá Villa en talið er að hann hafi fengið 20 þúsund pund í laun á viku, 4 milljónir króna, sem þótti býsna mikið fyrir tæpum 15 árum. Balaban tókst hins vegar aldrei að festa sig í sessi, hann átti erfitt með að venjast hrað- anum í úrvalsdeildinni og afrekaði aldrei að byrja leik í úrvalsdeildinni. Hann kom átta sinnum inn á sem varamaður en tókst ekki að skora eitt einasta mark. Árið 2003 var samningi hans rift og gekk hann í kjölfarið í raðir Club Brugge í Belgíu þar sem hann skoraði 25 mörk í fyrstu 24 leikjum sínum. Einar Þór Sigurðsson einar@dv.is

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.