Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2009, Síða 7
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 85. árg. 2009 3
Það er hverri stétt nauðsynlegt að hafa
sterkt félag á bak við sig, félag sem
gætir víðtækra hagsmuna félagsmanna.
Félagsmennirnir sjálfir og þátttaka þeirra
í störfum félagsins ráða styrk þess. Greið
aðkoma félagsmanna að æðstu stjórn
félags er grundvallaratriði. Þann 12.
maí var fyrsti opni aðalfundur Félags
íslenskra hjúkrunarfræðinga haldinn
undir kjörorðinu „Félag til framtíðar“. Allir
félagsmenn gátu setið fundinn með fullum
atkvæðisrétti. Fleiri sátu þennan aðalfund
og neyttu atkvæðisréttar síns en var
á fulltrúaþingum áður. Á aðalfundinum
tóku ný lög félagsins að fullu gildi. Ný 18
manna stjórn félagsins hefur þegar tekið
til starfa og framkvæmdaráð haldið sinn
fyrsta fund. Með þeirri skipan stjórnar,
sem kveðið er á um í lögum FÍH, er
ætlunin að efla grunnstoðir félagsins,
fagsviðið og kjara- og réttindasviðið.
Framundan eru óvissutímar fyrir
hjúkrunarfræðinga eins og aðra lands-
menn. Í ljósi þess hve heilbrigðiskerfið
er stór liður í fjárlögum hvers árs er
útilokað annað en skera þurfi niður í
heilbrigðiskerfinu líkt og annars
staðar í ríkisrekstrinum. Breytingar í
heilbrigðiskerfinu undanfarin ár og áratugi
hafa ekki orðið í kjölfar markvissrar
stefnu stjórnvalda heldur miklu fremur
vegna þess að heilbrigðisstarfsmenn
hafa innleitt nýjungar og stjórnendur
heilbrigðisstofnana hafa haft frumkvæði
að breytingum í rekstri. Heilbrigðisáætlun
til ársins 2010, sem samþykkt var á Alþingi
í maí 2001, setti heilbrigðisþjónustunni
í reynd takmarkaðan starfsramma.
Vegna þess mikla niðurskurðar, sem
framundan er, er óhjákvæmilegt
annað en að heilbrigðisráðherra og
heilbrigðisráðuneytið hafi forystu um
heildarendurskoðun á heilbrigðiskerfinu,
hvað skuli gert og hvar og hvað greitt
skuli fyrir úr sameiginlegum sjóðum
landsmanna. Skilgreina þarf fyrir hvaða
þjónustu sjúkratryggingar samkvæmt
almannatryggingalögum skuli greiða og
þá einnig hvaða þjónusta verður utan
sjúkratrygginga. Því fylgir þá einnig að
ákveða hvort heilbrigðisstarfsmönnum
verði heimilt að veita þjónustu sem ekki
er greidd af sjúkratryggingum því fyrir
slíka þjónustu myndu skjólstæðingar
greiða fullu verði. Þá vaknar jafnframt
til lífsins umræðan um tvöfalt heil-
brigðis kerfi. Heilbrigðisyfirvöld þurfa
einnig að skilgreina, með aðstoð
heilbrigðisstarfsmanna, hversu langt eigi
að ganga í því að veita meðferð við
ákveðnar skilgreindar aðstæður. Það er
í öllu falli ljóst að við getum ekki haldið
áfram með þá stefnu að gera allt fyrir
alla alltaf. Sjúklingum, aðstandendum
og öllum almenningi verður að vera ljóst
að takmörkun meðferðar gildir fyrir alla
í sambærilegri stöðu, þ.e. að ákvörðun
um slíkt verður ekki tekin vegna skorts
á mannafla eða fjármagni þá og þegar
þær aðstæður eru uppi. Það hvaða
þjónusta skuli greidd úr sameiginlegum
sjóðum og hversu langt eigi að ganga í
takmörkun meðferða eru erfið siðfræðileg
viðfangsefni sem nauðsynlegt er að ræða
opinskátt og á þann hátt að von sé til
að ná samfélagslegri sátt um málið.
Yfirvöld heilbrigðismála verða að leiða þá
umræðu, þeirra er að marka stefnuna.
Ljóst er að áfram þarf að halda á þeirri
braut að sameina heilbrigðisstofnanir.
Nú eru um 20 sjúkrahús á landinu en
spyrja má hvort það sé nauðsynlegt og
skynsamlegt fyrir svo fámenna þjóð. Við
undirbúning á sameiningu stofnana þarf
ekki hvað síst að taka mið af samgöngum,
af ferðatíma á milli staða. Skilgreina þarf
hvað felst í hugtakinu grunnþjónusta
sem veita skal sem næst heimabyggð
og síðan hversu mörg og hvar skuli
reka sæmilega burðug sjúkrahús. Í þeirri
umræðu verður að leitast við að tryggja
raunverulegt öryggi íbúanna.
Stjórn FÍH mun á næstu vikum setja
fram sínar hugmyndir um áherslur í
heil brigðisþjónustunni á þessum niður-
skurðartímum.
Kjarasamningar félagsins eru í
uppnámi enda alls óvíst þegar þetta
er ritað hvort samkomulag náist um
svokallaðan stöðugleikasáttmála sem
unnið hefur verið að síðustu mánuði.
Flestir kjarasamningar félagsins runnu
út 31. mars og því aðkallandi að ganga
sem fyrst frá samningum þannig að
hjúkrunarfræðingar, stjórnendur stofnana
og stjórnvöld geti unnið þau erfiðu
verkefni sem framundan eru í sæmilega
tryggu kjaraumhverfi.
Miklar breytingar hafa orðið á skipulagi
Háskóla Íslands á síðasta ári og fleiri gætu
verið í farvatninu ef marka má umræðu
um sameiningu háskólanna. Allt getur
þetta haft áhrif á skipulag menntunar
hjúkrunarfræðinga. Mikilvægt er að hjúkr-
unarfræðingar standi vörð um gæði
náms í hjúkrunarfræði en verði jafnframt
opnir fyrir hugmyndum um breytingar
á skipulagi námsins, ef það svarar
kalli tímans og eykur samkeppnisfærni
hjúkrunarfræðideildanna um nemendur.
Við þurfum að fjölga hjúkrunarfræðingum
því þó að manneklan hafi minnkað
umtalsvert síðustu mánuði getur hætta
skapast á næstu árum þegar stórir
árgangar hjúkrunarfræðinga fara á
eftirlaun. Félagið mun á næstunni setja
á fót menntanefnd sem ætlað verður að
vinna stefnu félagsins í menntunarmálum
hjúkrunarfræðinga. Með sterkara fagsviði
og setu sjö fulltrúa fagdeilda í stjórn er
félagið vel í stakk búið til að vinna slíka
stefnu.
Næstu mánuðir verða annasamir og
mikilvægir í störfum Félags íslenskra
hjúkrunarfræðinga. Ég hvet félagsmenn til
að vera virkir í umræðu um heilbrigðismál
og ákvarðanatöku um skipulag þjón-
ustunnar hver á sínum vinnustað og
í samfélaginu. Hjúkrunarfræðingar hafa
þekkingu og reynslu sem getur skipt
sköpum í þeim aðstæðum sem nú eru
uppi.
Elsa B. Friðfinnsdóttir.
FÉLAG TIL FRAMTÍÐAR
Formannspistill