Skólavarðan - 01.11.2004, Page 22
22
MÁLÞING OG RÁÐSTEFNUR
SKÓLAVARÐAN 9.TBL. 4. ÁRG. 2004
Vildarvogin er aðferð til að auðvelda
fólki að verða sammála um það sem
skiptir mestu máli í starfsemi stofnana
eins og t.d. skóla. Vildarvogin byggir á
hugmyndafræði siðfræðinnar um sam-
ræðu og lýðræðisleg vinnubrögð og
kemur til móts við kröfu samtímans um
mat á árangri og aukna þjónustu stofn-
ana. Hugmyndin er upphaflega dönsk
og nafnið kemur til af því að vogin er
matstæki til að vega og meta hvort sam-
eiginleg gildi séu í heiðri höfð.
Sameinast um hvaða
gildi séu mikilvægust
Vildarvogin er lærdómsferli þar sem unnið
er í nokkrum þrepum: Hagsmunaðilar
skólans, foreldrar, nemendur og starfs-
fólk, sameinast um hvað skiptir mestu
máli í starfi hans og hvaða gildi séu mikil-
vægust. Metið er hvort skólinn starfi eftir
gildunum, þá eru niðurstöðurnar greindar
og kynntar. Skólinn tekur mið af niður-
stöðunum í starfsáætlun sínum og metur
hvað má bæta og hvað gangi vel. Gildin
verða kennd í samræðum og samskiptum
milli foreldra, starfsfólks og nemenda og
verði mikilvægur þáttur í skólabragnum.
Gildin eiga að vera leiðarljós í öllum þýð-
ingarmiklum ákvörðun sem teknar eru í
skólastarfinu, milli kennara, foreldra og
nemenda. Stefnt er að því að hugmynda-
fræði Vildarvogar verði eðlilegur þáttur í
skólastarfi Vesturbæjarskóla.
Hvað er gott í skólanum
og hvað má gera betur?
Hugmyndin um Vildarvogina kom fram í
foreldrafélagi skólans haustið 2001. Skóla-
stjóri tók vel í hana og skipaði vinnuhóp
foreldra og starfsmanna til að undirbúa
verkefnið. Undirbúningur fólst m.a. í því
að halda námskeið fyrir kennara þar sem
sjónarmið þeirra og reynsla voru nýtt og
leitað var til fyrirtækja í hverfinu til að
styrkja vinnuna fjárhagslega. Nemendur
unnu í kjölfarið með þrjár spurningar:
Hvað er gott í skólanum? Hvað má gera
betur? Hvernig er draumaskólinn? Sam-
ráðsfundur foreldra og starfsfólks fór fram
um vorið. Unnið var í hópum og valdi fólk
þau gildi sem því þótti mikilvægust í skóla-
starfinu. Niðurstöðurnar voru kynntar á
opnum fundi í skólanum nokkrum dögum
síðar og gildi Vesturbæjarskóla eru:
Virðing, traust, jákvæðni, metnaður, sam-
kennd, gleði, ábyrgð.
Dósasöfnun, metnaðarbækur,
traustnámskeið og óvænt matarkarfa
Til að fylgja verkefninu eftir vann vinnu-
hópur, 4 foreldrar og 2 starfsmenn, áfram
við að þróa leiðir og festa gildin í sessi.
Gildunum sjö hefur verið raðað niður á
mánuði vetrarins, sem þýðir að við ein-
beitum okkur að því að vinna með skil-
greiningar á því gildi sem gildir í hverjum
mánuði með nemendum og öðrum
hagsmunahópum eftir því sem við á. Sem
dæmi má nefna dósasöfnun sem efnt var
til þegar unnið var með gildið samkennd.
Nemendur söfnuðu
dósum í eina viku
og komu með í
skólann. Síðan
fóru þeir með kenn-
urum sínum í Sorpu og fengu endurgjaldið
greitt. Fulltrúa frá Mæðrastyrksnefnd var
boðið í skólann og honum afhent féð við
hátíðlega athöfn.
Þegar unnið var með metnað var keypt
stílabók á hvern bekk, bókin gekk á milli
nemenda bekkjarins, þeir áttu að svara
því heima með foreldrum sínum hvað væri
metnaður. Koma svo með bókina í skólann
og afhenda næsta nemenda. Þannig urðu
til bækur stútfullar af metnaði!
Þegar við unnum með traust var boðið
upp á traustnámskeið fyrir starfsfólk,
nemendur og foreldra sem áhuga höfðu,
þar sem farið var í gegnum margvíslegar
traustsæfingar. Kennarar hafa einnig
unnið minni verkefni hver með sínum
nemendahópi t.d. þegar unnið hefur verið
með gleðina að hlæja saman í heimakrók
á hverjum morgni.
Foreldrar og allt starfsfólk tekur þátt
Foreldrar hafa markvisst ýtt undir jákvæð
samskipti við starfsfólk og færðu því t.d.
matarkörfu óvænt einn daginn og tóku að
sér að leysa kennara af 1/2 dag svo þeir
kæmust allir á ráðstefnu sem var í boði.
Áhersla er lögð á að talað sé um nemendur
og fjölskyldur þeirra af virðingu innan
skólans. Lagt er uppúr því að foreldrar geti
treyst því að börn þeirra séu örugg í skól-
anum og að lagður sé metnaður í þá vinnu
sem þar fer fram svo nám nemenda verði
árangursríkt. Starfsfólk setur sér að vera
jákvætt gagnvart hugmyndum foreldra
um hvað börnum þeirra er fyrir bestu. Það
gerir sér grein fyrir því að foreldrar bera
höfuðábyrgð á uppeldi og menntun barna
sinna og að því ber skylda til að sýna for-
eldrum skilning
og setja sig í
þeirra spor.
Við í Vest-
urbæjar skó la
erum í miðju kafi að innleiða Vildarvogina
en finnum strax fyrir árangri sem felst
í því að gjár milli hagsmunahópa hafa
minnkað.
Höfundur er Edda Kjartansdóttir deildarstjóri
almennrar kennslu og tölvu-og upplýsinga-
mála Vesturbæjarskóla
Á heimasíðu verkefnisins má finna fleiri upp-
lýsingar www.vesturbaejarskoli.is/vildarvog
Þróunarverkefnið
Vildarvog í Vesturbæjarskóla
Gildi Vesturbæjarskóla eru: Virðing,
traust, jákvæðni, metnaður, sam-
kennd, gleði og ábyrgð.
Góð gildi leiðar-
ljós í skólastarfi
Edda Kjartansdóttir