Félagsbréf - 01.08.1959, Page 17
FÉLAGSBRÉF
15
höfðu jafn ungir íslenzkir höfundar orðið jafn þekktir erlendis og
þeir Gunnar og Jóhann (23 og 32 ára 1912). Og með Borgar-
ættinni og Fjalla-Eyvindi ryðja þeir íslenzkum bókmenntum síðari
alda í fyrsta sinn til rúms meðal lifandi bókmennta umheimsins.
Að vísu höfðu verk eftir íslenzka höfunda síðari tíma áður verið
þýdd á erlend mál og orðið kunn og nokkurs metin, meðan þau
stóðu í fersku gildi, svo sem eftir Jón Thoroddsen, Gest Pálsson,
Indriða Einarsson, Einar Hjörleifsson (síðar Kvaran) og Jón
Trausta, auk einstakra ljóða helztu skálda okkar. En aldrei fyrr
höfðu verk íslenzkra höfunda á síðari öldum orðið jafn fljótt og
jafn víða fræg né orðið lifandi þáttur í bókmenntum umheimsins.
Þessari merkilegu staðreynd hefur ekki verið gefinn sá gaumur,
er skyldi. Auk þessa voru Fjalla-Eyvindur og Saga Borgarættar-
innar fyrstu íslenzk skáldverk, sem voru kvikmynduð (1917 og
1919), og Borgarættin var fyrsta kvikmynd, sem tekin var hér-
lendis og að nokkru með íslenzkum leikurum.
Frá aldamótum og fram til loka fyrri heimsstyrjaldar voru bók-
menntirnar hér heima að mestu bornar uppi af skáldum, sem komið
höfðu fram þegar á 19. öld, allt frá séra Matthíasi til Jóns Trausta.
Þeir nýir íslenzkir höfundar, sem kváðu sér hljóðs á þessu tíma-
bili og mest kvað að, voru búsettir erlendis og sömdu þorra verka
sinna á dönsku, eins og Jóhann Sigurjónsson, Gunnar Gunnarsson
og Guðmundur Kamban. Sumir íslendingar hafa legið þeim á hálsi
fyrir þetta, talið, að með þessu hafi þeir brugðizt þjóð sinni, svik-
izt undan merkjum. Nú orðið heyrist þetta raunar varla nefnt, enda
niikill misskilningur. Ótrúlegur munur var þeirra kosta, sem upp-
ronnandi höfundar áttu hér á landi þá og nú, auk þeirrar menntun-
ar, sem jafnan hlýzt af utanlandsdvölum. Enginn þessara manna
hefði þá náð slíkum skáldþroska hérlendis, flestir líklega koðnað
niður. En í þess stað var nú augum umheims lokið upp fyrir því,
að við ættum gildar bókmenntir, yngri en frá 13. öld, merkar sam-
timabókmenntir voru skapaðar. Og ólíkt örðugra var að ryðja sér
braut í framandi landi á erlendri tungu en á móðurmálinu.