Félagsbréf - 01.10.1962, Page 32
28
FÉLAGSBRÉF
\
l
'!
í fylgiríkjum Sovétríkjanna, ekki sízt í Póllandi, eru skoðanir áþekkar skoð-
unum Tertz ekki ótíðar, og sósíalrealisminn sætir umræðu og gagnrýni. Slíkt
frjálsræði virðist a.m.k. enn sem komið er óhugsandi í Sovétríkjunum sjálfum,
og þetta veitir bókum Abrams Tertz enn aukið gildi á sinn hátt: þær eru heim-
ild um duldar andlegar hræringar þar eystra, um viðhorf ungra manna sem
ekki fá að komast upp í dagsljósið að sinni. Það er kunnugt að neðanjarðarlíf
bókmenntanna er furðu fjölskrúðugt og fjölbreytilegt í Sovétríkjunum og bygg-
ist á ríkum og sívakandi bókmenntaáhuga almennings: handrit og fjölrit
verka ganga milli manna, ljóð berast mann frá manni, sú umræða um listir
og menningarmál sem ekki fær aðgang að opinberum málgögnum vakir undir
niðri. Trúlegt er að Tertz sé einn þeirra höfunda sem kvöddu sér hljóðs í
„hlákunni“ 1956 þegar slakað var á skipulagningu bókmennta um sinn; full-
víst er að viðhorf hans eru ekkert einsdæmi. Sérstaða hans er sú að hann ákveð-
ur að koma handritum sínum úr landi, lætur sér ekki nægja þann þrönga
lesendahóp sem hann á völ á heima fyrir (þótt athæfi hans heiti föðurlands-
svik að sovézkum lögum og honum megi ljós vera örlög sín ef upp kemst hver
hann er). Það vottar þroska hans, að viðleitni hans er hugsuð og uppreisnin
gegn skipulaginu honum bráð nauðsyn. Hann getur ekki vænzt fjár né, frama
fyrir ritverk sín; hitt er honum nauðsyn að rödd hans berist út úr myrkviði bók-
menntaeinræðisins, að menn nemi og skilji mál hans.
Af öllum þessum sökum eru verk Abrams Tertz verð athygli og gaumgæfni á
Vesturlöndum; hann er enn einn vottur þess margbreytilega og óþekkta lífs sem
leynist bak við sunnudagsandlit sovétveldisins. Hitt skiptir þó mestu máli að
verk hans eru góðar bókmenntir af sjálfum sér; þótt heimildargildi þeirra
sé mikilsvert er það honum sjálfum ekkert aðalatriði: erindi hans er fyrst og
fremst listræns eðlis.
Réttur er settur, skáldsaga Abrams Tertz, kemur út í íslenzkri þýðingu nú i
haust. Þýðandi er Jökull Jakobsson, en Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar
gefur bókina út. Ó. J.