Orð og tunga - 01.06.2015, Blaðsíða 42
30
Orð og tunga
í Perú og Bólivíu og kallast þar rocambor (Depaulis 1987/1988a:101).
Bretar og Frakkar hafa endurlífgað lomberinn en til þess leituðu þeir
meðal annars í smiðju Dana og tóku danska lomberinn sem fyrir-
mynd (McLeod 1996, 2003).
3 Lomber og spilaorð
Mörg útlensk spilaorð, sem eru notuð í lomber, hafa haldið sér í ís-
lensku og öðrum málum eins og hér verður vikið að. Orðin hafa
borist með spilinu frá manni til manns, frá einu landi til annars, úr
einu tungumáli í annað, sum hver allt sunnan frá Spáni og norður
til íslands með viðkomu í frönsku og dönsku. Hér á eftir verður
leitast við að gera grein fyrir orðunum lomber, basti, kaski, koðradilla,
manilía, matador, mort, pass, ponti, sóló, spaddilía eða spadda, spaði, tótus
og velta og ferðalagi þeirra að sunnan og norður. Orðin, sem hér eru
til umfjöllunar, eru alla jafna talin spænsk að uppruna.
3.1 Lomber
Það er við hæfi að hefja leikinn með því að skoða sjálft heiti spilsins.
El juego de hombre er meðal elstu spilaleikja á Spáni og mun hans
fyrst vera getið í heimildum frá 15. öld. Heitið hombre 'lomber'
kemur seinna til sögunnar. Hombre þýðir 'maður' en hér er vísað
til „mannsins" sem spilar einn á móti mótspilurum sínum sem eru
alla jafna tveir. Elsta ritdæmið um spilaheitið samkvæmt ritmálsskrá
spænsku akademíunnar er í kvæði eftir skáldið Luis de Góngora ortu
um aldamótin 1600 (CORDE).
Islensk orðabók skilgreinir lomber sem 'sérstakt þriggja manna spil'
(2002:927). Orðið er tekið úr dönsku, l'hombre, sem fékk það úr
frönsku, l'hombre, en það mun upprunalega vera úr spænsku hombre,
segir Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:576). Orðið lomber kemur fyrst
fyrir í íslenskum heimildum árið 1859 þegar það skýtur upp kollinum
í Nýrri sumargjöf sem Steingrímur Thorsteinsson ritstýrði og kom út
í Kaupmannahöfn. Ur tímaritinu er eftirfarandi setning: „Þrír menn
sátu einusinni og spiluðu lomber. Einn þeirra sagði: Sólo" (1859:69). í
texta frá árinu 1959 er orðið skrifað l'hombre sem minnir óneitanlega
á rómanskan uppruna þess (ROH). Samsett orð þar sem tökuorðið er
fyrri liðurinn eru lomberbróðir, lomberklúbbur, lomberkvöld, lomberspil og
lomberspilari (ROH).