Orð og tunga - 01.06.2015, Blaðsíða 164
152
Orð og tunga
málinu virðist ekki eiga neitt erindi í bókina nema hugsanlega til að
staðfesta að ekki sé til í málinu annað orð sömu merkingar. Fullorðið
fólk notar nú orðið gríðarlega mikið af enskum orðum í daglegu tali
í stað íslenskra orða, ekki aðeins um sérstök hugtök eða í sérstöku
samhengi, heldur einnig í stað orða sem hingað til hafa verið mjög
algeng og hversdagsleg. Börn og unglingar alast upp við að þessi
ensku orð séu jafn gjaldgeng í íslensku og þau orð sem eiga sér lengri
hefð í málinu og þegar þau fullorðnast og þurfa sjálf að beita málinu
í ræðu og riti hafa þau ekki forsendur til að greina á milli ensku og
íslensku. Þetta vandamál var Freysteini Gunnarssyni ljóst þegar hann
tók saman Danska orðabók sína, sérstaklega til að geta sýnt löndum
sínum úrval íslenskra orða sem gætu komið í stað þeirra dönsku sem
margir þekktu ekki frá íslenskum orðum. I formála bókarinnar ræðir
hann þann vanda að finna íslensk orð í stað erlendra. Um erlend orð í
íslensku segir hann (Freysteinn Gunnarsson 1926:VII):
Ég tel það lítil málspjöll að taka upp slík orð, sem misþyrma
ekki íslenzkum beygingarreglum og bola ekki burt öðrum
góðum og gömlum íslenzkum orðum. Slík orð má hiklaust
taka fram yfir miðlungi vel samin nýyrði. — Hitt er aftur á
móti óhæfa, að taka upp eða halda við útlendum orðum, sem
misþyrma reglum íslenzkunnar um endingar og beygingu.
Sömuleiðis tel ég það málspjöll, að taka upp eitt útlent orð í
stað margra íslenzkra; t. d. Politik, Stemning o. fl. þess háttar
orð, sem geta þýtt svo margt, alt eftir því, í hvaða sambandi
þau eru notuð. Slík orð reynast mjög áleitin, vegna þess, hve
handhæg þau eru. [...]; þessi margræðu útlendu orð eru fljót-
gripnari og reyna minna á hugsun, ekki sízt ef menn hafa tam-
ið sér að hugsa á útlendu máli. Fáar „slettur" setja slíkan blett
á tunguna sem þessi útlendu einyrði í stað margra íslenzkra
orða. Auk þess eru þau með öllu óþörf. Ekkert er algengara en
það, að við höfum mörg heiti á þeim hlut, sem aðrar tungur
nefna aðeins einu nafni.
Það er engin tilviljun að orðabók Freysteins var orðtekin þegar grunn-
ur var lagður að Islenskri samheitaorðábók. Spurning er hvort samheita-
orðabók getur tekið á sama vanda; hvar eru mörk samheitaorðabók-
ar og orðabókar erlends máls með þýðingum? Nú á dögum hefur
enska komið í stað dönskunnar sem hið útlenda mál sem íslenska
þarf að halda í við. Kvikmyndir, sjónvarp, tölvuleikir og yfirgnæfandi