Náttúrufræðingurinn - 2013, Page 19
127
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Skyggnst í örverulífríki
Undirheima
Örverulífríki hraunhella er sérstakt og lítt kannað, einkum hér á landi.
Vatnshellir í Purkhólahrauni hefur að geyma áberandi örverugróður, sýni-
legan berum augum í lofti og veggjum, svonefnt hellaslím eða vegghrúður.
Vorið 2011 voru tekin sýni á nokkrum stöðum í hellinum og upp úr þeim
ræktaðar bakteríur á næringarefnasnauðum örveruætum. Af stofnunum
hafa 49 verið greindir til ættkvíslar með hlutaraðgreiningu á 16S rRNA
geni og reyndust þeir tilheyra 19 ættkvíslum í sex flokkum baktería. Flestar
bakteríurnar stunda ófrumbjarga efnaskipti, en nær helmingur þeirra stofna
sem kannaðir voru er fær um að nýta sér ólífrænt fosfat og margir stofn-
arnir geta bundið köfnunarefni andrúmsloftsins, en það bendir til þess að
örverugróður Vatnshellis sé aðlagaður að fágæfu (ólígótrófísku) umhverfi
og geti að einhverju leyti nýtt sér ólífræn efni úr lofti og steindum til nær-
ingar, sem gefur til kynna hugsanlegan þátt bakteríanna í veðrun hellisins.
Einungis einn stofn var þó fær um að nýta sér járn(II) sem orkugjafa á
því æti sem prófað var. Margir stofnanna einkennast af kuldaþolni og
eru skyldir bakteríum sem einangrast hafa úr jökulís eða jökulaur og
eru ólíkir þeim bakteríum sem áður hafa einangrast úr hraunhellum eða
öðru hellaumhverfi. Nokkrar bakteríanna eru þekktar af því að vera við-
kvæmar fyrir átroðningi eða röskun á umhverfi sakir kuldakærleiks og/
eða aðlögunar að lágum styrk næringarefna. Hellaslímið er því mikilvægur
hluti af einkennum Vatnshellis og ætti að taka með í verndargildi hans.
Náttúrufræðingurinn 83 (3–4), bls. 127–142, 2013
Guðný Vala Þorsteinsdóttir og Oddur Vilhelmsson
Ritrýnd grein
Inngangur
Í hraunhellum víða um heim má
finna sérstæðar og lítt rannsakaðar
örverubreiður, gjarnan kallaðar
hellaslím (e. cave slime) þó svo ekki
hafi þær alltaf slímuga áferð og minni
í sumum tilvikum fremur á hrúður.
Við notum því heitin hellaslím og
vegghrúður sem samheiti yfir þetta
fyrirbæri. Breiðurnar samanstanda
að miklu leyti af geislagerlum
(Actinobacteria), en einnig hefur
nýlega verið sýnt fram á að fjöldi
annarra baktería þrífst í hellaslími.1,2
Í sumum hellum er álitið að slímið
leggi sitt af mörkum til mótunar
hellisins, til dæmis hvað varðar
kerólít- og aðra útfellingamyndun.3–5
Staða þekkingar á örverulífríki hella,
hvort sem um ræðir hraunhella eða
aðrar hellagerðir, er þó enn heldur
frumstæð, svo óvarlegt þykir enn
sem komið er að draga víðtækar
ályktanir um hlutverk hellagerla
eða um þá vistfræðilegu ferla sem
þar ríkja.6 Ljóst er þó að hellagerlar
eru ekki einvörðungu aðkomnar
(allókþónískar) gistilífverur sem
berast í hellinn úr jarðveginum
fyrir ofan með seytlandi regnvatni
eða eftir öðrum leiðum, heldur
er að verulegu leyti um að ræða
staðbundið lífríki sem þroskast og
dafnar í hellinum. Þannig eru þekkt
dæmi um hellavistkerfi sem haldið
er uppi af efnatillífandi frumfram-
leiðslu hellagerla.7 Hinu náttúrlega
örverulífríki hraunhella er nokkur
hætta búin af umferð ferðamanna8
og því mikilvægt að staða þess sé
metin þegar hellar eru opnaðir al-
menningi og/eða aðgengi að þeim
bætt.
Eins og áður segir eru geislagerlar
algengir í hellahrúðri. Í kalksteins-
hellum, sem mest hafa verið rann-
sakaðir í þessu tilliti, eru Streptomyces
og Nocardia meðal algengustu ætt-
kvísla í hrúðrinu.9,10,11 Geislagerlar
eru um margt forvitnilegir, ekki
síst sakir fjölhæfni þeirra í efna-
skiptum. Þeir leika mikilvægt
hlutverk í jarðvegsmyndun úr líf-
rænum leifum12 og hafa líftæknilegt
notagildi, svo sem við niðurbrot
mengunar- og spilliefna13 og líf-
efnaleit eftir áður óþekktum sýkla-
lyfjum14. Það, að örverulífríki hella
er enn tiltölulega lítt kannað, ásamt
þeirri staðreynd að þar eru geisla-
gerlar gjarnan ráðandi, gerir hella
einkar aðlaðandi með tilliti til
lífefnaleitar.9,15
1. mynd. Vatnshellir er í Purkhólahrauni
undir Snæfellsjökli. Gengið er inn í hell-
inn um inngang sem gerður var árið 2010.
– Vatnshellir cave is located in Purkhólar
lava field. The entrance can only be accessed
with a guide since 2010.