Náttúrufræðingurinn - 2013, Síða 54
Náttúrufræðingurinn
162
frá einu pari vorið 2005 í 15 pör vorið
2010. Er ekki ósennilegt að fuglar úr
Hrísey hafi flutt sig í þessi nálægu
vörp. Á sama tíma vekur athygli að
lítil breyting varð á fjölda verpandi
stormmáfa í Svarfaðardal sem er enn
nær Hrísey. Þar kemur fyrir að vor-
flóð spilli varpi og kann það að vera
ástæða þess að stormmáfar hafi ekki
leitað þangað í meira mæli.
Í Krossanesborgum í norður-
jaðri Akureyrar ríflega þrefaldaðist
fjöldinn, úr 14 pörum vorið 2000 í 45
vorið 2010. Krossanesborgir á Akur-
eyri voru gerðar að fólkvangi með
reglugerð árið 2005.2 Þar eiga allir
fuglar griðland. Veiðar og eggjataka
eru óheimil og einnig truflun s.s.
af völdum lausra hunda. Má telja
sennilegt að friðunin hafi stuðlað að
mikilli fjölgun stormmáfa á svæðinu.
Á hinn bóginn fækkaði storm-
máfum við Akureyrarflugvöll um 50
varppör úr 85 pörum árið 2000, í 37
árið 2005 og í 35 árið 2010. Þar hefur
verið unnið að því að bægja fuglum
frá vegna flugöryggis Þær aðgerðir
hafa verið látnar viðgangast án til-
skilinna leyfa og hafa greinilega
borið árangur.3
Á sama tíma fjölgaði um 46 varp-
pör í óshólmunum austan flugvallar
norðan og sunnan gamla þjóðvegar.
Heildarfjöldi verpandi stormmáfa
við ósa Eyjafjarðarár stóð því nánast
í stað á árunum 2000–2010 þótt
dreifingin væri önnur.
Á áreyrum Þverár fjölgaði storm-
máfspörum úr 23 vorið 2000 í 51 par
2005 en fækkaði á ný í 29 pör vorið
2010. Umtalsverð breyting varð
við Munkaþverá nokkru sunnar
þar sem varppörum fækkaði úr 63
vorið 2000 í aðeins átta vorið 2005.
Fækkunin gekk þó til baka að miklu
leyti vorið 2010 þegar 41 varppar
var þarna á eyrunum. Malarnám er
starfrækt við báðar Þverárnar í Eyja-
fjarðarsveit og hafa umsvif á báðum
stöðum aukist verulega síðustu tíu
ár (eigin ath.). Þarna er mikil truflun
af umferð manna og tækja meira eða
minna allt sumarið sem gæti skýrt
breytingar á fjölda stormmáfa á
þessum varpstöðum.
Varpið við Stokkahlaðir í Eyja-
fjarðarsveit stækkaði úr tveimur
pörum árið 2000 í níu 2005 og síðan
í 30 pör 2010. Austan Eyjafjarðarár
er gróin sandeyri þar sem storm-
máfar hafa orpið öðru hverju a.m.k.
frá 1980. Fjöldi para hefur sveiflast
enda flæðir iðulega yfir eyrina í vor-
flóðum (eigin ath.). Annað hvort
bíða fuglarnir þar til að sjatnar
til að verpa aftur á sama stað eða
þeir flytja sig til annarra varpstaða.
Full ástæða er til að fylgjast með
breytingum á fjölda fugla eftir flóð
ef slíkt gerist aftur. Aukningin frá
2005 til 2010 getur verið til komin
vegna tilfærslu frá Munkaþverá sem
er handan Eyjafjarðarár og skammt
suðaustan Stokkahlaða.
Að lokum skal nefna tvö vörp.
Vorið 2010 var varpið gegnt Kroppi
í Eyjafjarðarsveit óvenju stórt, eða
45 pör samanborið við 14 pör vorið
2005 en 4.–5. júní 2010 fór hluti varp-
svæðisins undir vatn í flóði í Eyja-
fjarðará (eigin ath.). Varpið á eyrinni
við austanverða Staðarey í óshólm-
unum flæddi einnig á sama tíma.
Þar voru fimm pör árið 2005 en í
talningunni 2010 voru varppörin
orðin 26. Ekki er vitað hvort fuglar
sem misstu hreiður sín á þessum
tveimur stöðum vorið 2010 hafi
reynt að verpa aftur á sama stað eða
annars staðar.
Framvinda varpstofns í Eyjafirði
árin 1980–2010
Á árunum 1980 til 2000 fjölgaði
stormmáfum nær stöðugt í Eyjafirði,
úr 111 pörum í 488. Árleg fjölgun var
að meðaltali um 7,8%.1 Lítilsháttar
fækkun varð milli 2000 og 2005, úr
488 pörum í 462, eða innan við 1%
að meðaltali á ári. Síðan hélt storm-
máfsstofninn áfram að stækka milli
2005 og 2010, úr 462 pörum í 660 pör
sem samsvarar 7,4% fjölgun á ári. Í
ljósi þeirrar miklu aukningar sem
varð frá 2005 til 2010 er hugsanlegt
að fækkunin sem kom fram í
talningunni 2005 hafi í raun verið
minni. Ástæðan gæti verið sú að
sum varppör hafi ekki verið byrjuð
varp þegar talningin fór fram vorið
2005 eða að hreiður hafi misfarist
vegna vatnavaxta og fuglarnir því
farið af svæðinu. Á 30 árum frá 1980
til 2010 nærri sexfaldaðist varpstofn
stormmáfa í Eyjafirði og var árleg
meðaltalsfjölgun 6,1% (5. mynd).
Árið 2010 voru mun fleiri stór
vörp (>10 pör) á vöktunarsvæðinu
en árið 2005. Nýir varpstaðir eru
flestir milli eldri varpstaða fremur
en í útjöðrum talningarsvæðisins.
Haldi aukning áfram munu storm-
máfar eflaust nema ný landsvæði t.d.
í Ólafsfirði þar sem þeir höfðu enn
ekki fundist í varpi sumarið 2010. Þá
verpa stormmáfar bæði vestan og
austan Eyjafjarðar svo tilfærsla getur
átt sér stað út af vöktunarsvæðinu á
báðar áttir en einnig inn á það. Engar
beinar rannsóknir með merkingum
eða radíósendum hafa farið fram hér
á landi á tilfærslum stormmáfa milli
varpstaða og ástæðum þeirra.
Ýmsar ástæður geta verið fyrir
breytingum á stærð varpa. Þegar
fjölgar í stofninum ættu vörp að
stækka jafnmikið nema einhverjar
ytri aðstæður hafi þar áhrif á og þær
geta verið af margvíslegum toga.
Ætismöguleikar, bæði magn ætis og
hve langt varpfuglar þurfa að fara til
fæðuleitar, skipta eflaust miklu um
stærð og staðsetningu varpa. Afrán,
t.d. af völdum minks, refs, stærri
máfa og hrafns getur einnig haft
áhrif á hvar stormmáfar velja sér
varpstaði. Einnig má gera ráð fyrir
að ýmsar athafnir manna hafi bæði
bein og óbein áhrif. Þar má t.d. nefna
eggjatínslu, eyðileggingu hreiðra og
skotmennsku. Allar þessar athafnir
eru ólöglegar gagnvart stormmáfum
sem njóta friðunar hér á landi árið
um kring vegna þess hve stofninn
er lítill.4
Stormmáfar hafa ekki verið
vaktaðir annars staðar hér á landi
en í Eyjafirði. Þó hafa margir aðrir
varpstaðir í landinu verið heimsóttir
með óreglulegu millibili þannig að
framvinda sumra varpa er þekkt
(eigin ath.). Flest þessara varpa eru
lítil, oftast með stökum eða fáeinum
pörum. Utan Eyjafjarðar eru aðeins
örfá vörp með tugum para t.d. á
Austursandi í Öxarfirði5 og í Blöndu-
hlíð í Skagafirði (eigin ath.).
Vitað er að talsverðar breytingar
hafa orðið á sumum stormmáfs-
vörpum utan Eyjafjarðar. Nýir