Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 68
68 TMM 2007 · 4
J ó n K a r l H e l g a s o n
Inn á milli bætti Ólafur Haukur vissulega ýmsu við frá eigin brjósti,
til að mynda þeirri meinlegu athugasemd kvikmyndamógúlsins að
útgerðarkonan Salka Valka væri „[s]elfmade capitalist, gæti ekki verið
betra“.35 Á einum stað lagði hann líka mógúlnum í munn orð („Efni í
mjög viðkvæmnislegt atriði, varla þurrt auga í bíósalnum.“) sem virðast
byggð á svigagrein úr upprunalega kvikmyndahandritinu sem Hallberg
vitnaði til á ensku („This is material for refined display of effects.“).36
Eftirtektarverðasta dæmið af þessu tagi snertir þó væntanlega unnustu
Halldórs, sem Unnur Ösp Stefánsdóttir lék, og einn af ævisagnariturum
hans. Í eftirmála sínum að annarri útgáfu skáldsögunnar Sölku Völku
sem út kom árið 1951 rammaði Halldór Laxness texta sögunnar inn
með upplýsingum um eigin ævi:
Söguna um Sölku Völku bjó ég fyrst til á ensku í Kaliforníu 1928, sem kjarna
í filmu handa kvikmyndamönnum nokkrum í Hollywood. Paul Bern, kunnur
kvikmyndaforstjóri, hafði mikinn hug á að gera þessa íslensku mynd, og nokkr-
ar undirbúníngsráðstafanir voru byrjaðar í því skyni; þó varð minna úr með því
Paul Bern skaut sig einn góðan veðurdag.37
Í lokin á umfjöllun sinni um kvikmyndahandritið í Húsi skáldsins vís-
aði Peter Hallberg til þessara orða, reyndar með vissum fyrirvara:
Allt rann þetta þó út í sandinn. Eftir því sem síðar upplýstist, mun það fyrst og
fremst hafa stafað af því, að hinn þekkti kvikmyndastjóri, Paul Bern, sem hafði
verið lífið og sálin í þessari fyrirætlun, framdi sjálfsmorð. Hvernig sem þessu
var varið, skildu kynni Halldórs af kvikmyndaheiminum í Hollywood eftir hjá
honum allmikla gremju og beiskju.38
Halldór ítekaði þessa sögu síðan í viðtali sem Ólafur Ragnarsson birti í
bókinni Halldór Laxness. Líf í skáldskap árið 2002, en þar sagði skáldið
um Paul Bern: „Og það er ekki að orðlengja það að hann gerir svo vel sá
ágæti maður og fyrirfer sér einn góðan veðurdag. Ég vissi aldrei með
vissu hvað leiddi hann til þess óheillaverks, kannski persónuleg sorg-
armál en líklega fremur kauphallarkrakkið sjálft sem olli því að botninn
datt úr öllu.“39 Í bók sinni Halldór frá árinu 2003 dró Hannes Hólm-
steinn Gissurarson aftur á móti skýringu skáldsins í efa:
Það er hins vegar rangt, sem síðar var haldið fram, að Halldór hefði ekki náð
þeim árangri í Hollywood, sem hann stefndi að, vegna sjálfsvígs Pauls Berns.
Það liggur ljóst fyrir, að skilið hafði á milli Halldórs og kvikmyndaheims-
ins haustið 1928, ef til vill vegna gagnkvæms áhugaleysis. Ævilok Berns urðu
hins vegar söguleg. Hann kvæntist 1932 frægri, ljóshærðri kvikmyndadís, Jean