Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Page 73
TMM 2007 · 4 73
Óskar Árni Óskarsson
Skeggið á Guði
Þegar Guð bjó til vatnið sá hann að veita þurfti því um alla jörðina
og hann fylgdi fyrstu ánum eftir og fann fyrir þær rétta farvegi.
Brátt kvísluðust ár og fljót eins og silfurþræðir um jörðina.
Guð sá að ein áin var að því komin að hrapa niður hátt kletta-
belti, en hann varð of seinn að beina henni annað svo áin bara féll
og féll niður fjallsbrúnina – og þannig varð fyrsti fossinn til.
Þegar Guð skoðaði þetta nýja sköpunarverk sitt betur sá hann
að þetta var líka gott og hann laugaði fætur sína í hylnum undir
fossinum. Þegar hann var búinn í fótabaðinu (alfyrsta fótabaðinu!)
ákvað hann að hvíla sig smástund í sóleyjabrekkunni við fossinn.
Framundan var glíman við lífverurnar. Hvert skyldi það leiða?
hugsaði hann með sér um leið og agnarsmár ormur skreið yfir
stórutána á honum.
En hvað var nú þetta? Glitrandi litadýrð stafaði frá fossinum,
gult, rautt, já, líka grænt og blátt. Aldrei hafði hann séð aðra eins
dýrð. Hann hafði ekki búist við þessu en þannig var nú með svo
margt í sköpunarverkinu, stundum tóku náttúruöflin sjálf við
stjórninni. Samt, hugsaði hann og kímdi í skeggið, allt gert af
meistarans höndum.
Eitt leiðir af öðru og þannig á það að vera, sagði hann stund-
arhátt við fossinn, og andartak fannst honum sem hann sæi hlæj-
andi andlit í úðanum sem kinkaði til hans kolli. Já, kannski býr
einhver í fossinum, hver veit? Fossbúa, skulum við kalla hann, það
er fallegt nafn, hugsaði Guð og fór að blása í strá.
Nú dottaði Guð smástund. Hann fór að dreyma, en í draumn-
um birtist honum vera með sítt hár sem klappaði stóru dýri (sem
mennirnir kölluðu síðar hest). Allt í einu vaknaði Guð við einhver
undarleg hljóð og sá hann þá hvar hesturinn úr draumnum þeysti