Tímarit Máls og menningar - 01.11.2007, Side 113
TMM 2007 · 4 113
B ó k m e n n t i r
brigðanna, próf veruleikans, vasa eilífðarinnar, púls dapurleikans, malardregil
hugans, flóðljós mánans o.s.frv. o.s.frv. Eignarfallsendingar með greini þurfa
hvíld. Því skal ekki mótmælt að svona samanspyrðingar óskyldra orða geta verið
máttugt stílbragð. Ekki vissi ég að dapurleikinn kynni að hafa púls. Engu að
síður er mælst til þess að þetta stef sé notað í meira hófi.
Að þessum aðfinnslum frátöldum er þetta ljóðabók sem geymir margar
perlur. „Ef ríkisstjórnin væri bolti/myndi ég sparka henni út af“ segir í hinni
endurskoðuðu útgáfu af Dada-pönki handa Lenín (bls. 69), frábæru ljóði sem
blandar sér í toppslaginn um hvert sé mitt uppáhalds í þessum hópi. Víða má
hér finna hreint lyrískt gull:
Þegar myrkrið rennur fram af hamrinum
er biturleikinn hluti af landinu
og eilífðin sek
eins og vindurinn
(Í kvöldroða daganna, bls. 135)
Í erindum sem þessum finnst mér ekki vanta mikið upp á til að lesandinn geti
ölvað sig á skáldskap, komist í leiðslukennda estetíska vímu sem bara hin besta
list getur framkallað: fengið heilann í manni til að leysa upp endorfínið og
breyta því í morfín. Gert mann ölvaðan af fegurð. Það er líka mun uppbyggi-
legri víma en sú sem vínið veitir manni.
Sigríður Albertsdóttir
Saga systra, ást og minningar
Fríða Á. Sigurðardóttir: Í húsi Júlíu. JPV útgáfa 2006.
Í húsi Júlíu eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur minnir um margt á skáldsöguna Á
meðan nóttin líður (1990) sem færði Fríðu alla þrenninguna: Íslensku bók-
menntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Bókmennta-
verðlaun Norðurlandaráðs. Eins og þar er hér fjallað um samskipti kvenna sem
og tengsl á milli kynslóða sem ekkert fær rofið, þó svo að ein persóna geri allt
til að loka á fortíðina. Og líkt og í Á meðan nóttin líður er frásögnin rofin með
reglulegu millibili, farið fram og til baka í tíma og á milli ólíkra persóna og
atburða. Sögukonan í nýjustu bók Fríðu á þó lítið skylt við sögukonuna í þeirri
eldri því hún blandast óvænt inn í málefni fjölskyldu sem er henni allsendis
óviðkomandi, a.m.k. í fljótu bragði.
Sagan hefst á inngangi þar sem sögukonan Hulda lýsir fyrirætlunum sínum.