Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Side 13
TMM 2008 · 1 13
Vo n l e n s k a n s e m f r a m ú r s t e f n a
skilgreina og rífa niður hvers kyns merkingu sem var lögð í orðið. Annar
af forsprökkum hreyfingarinnar, Tristan Tzara (1896–1963), líkti orðinu
við barnahjal, eitt af því fyrsta sem börn mæla af vörum. Hann hafði
einnig flett orðinu „dada“ upp í franskri orðabók þar sem það þýðir
meðal annars rugguhestur eða svipað leikfang.16 Áhugavert er að bæði
hljómsveitarnafn Sigur Rósar og nafn Dada eiga rætur í bernskunni.
Meðlimir Dada litu svo á að nafn hreyfingarinnar væri hafið yfir
muninn á milli ólíkra tungumála, sem var einnig hugsjón þeirra með
hljóðaljóðunum; að skapa tungumál sem slítur sig frá hefðbundinni
notkun og merkingu hins sýkta tungumáls þjóðfélagsins. Það er ekki
hægt og það þarf ekki að þýða það. Allir alls staðar í heiminum geta lagt
sameiginlegan og/eða persónubundinn skilning í nafnið. Benedikt
Hjartarson kemst svo að orði í inngangi að íslenskri þýðingu á yfirlýs-
ingum Dada: „[…] hugtakið virðist í þeirra augum í senn vera unaðslega
merkingarlaust og búa yfir fjölskrúðugri merkingu á ólíkum tungumál-
um.“17 Hjá Sigur Rós kemur fram svipuð hugsjón. Viðtakendur erlendis
skildu ekki íslensku textana á Ágætis byrjun, en dæmi voru um að við-
takendur hefðu skapað sinn eigin texta út frá upplifun sinni á íslenska
textanum. Vonlenskan á „svigaplötunni“ var viðbragð við þessu. Með-
limir Sigur Rósar vildu skapa nýjan texta, þar sem hver og einn gæti
tekið þátt í merkingarsköpuninni.
Þó Dada hafi gefið listinni langt nef og vildi engu við hana bæta hratt
hreyfingin af stað byltingu í formi og inntaki lista og skáldskapar. Nið-
urrifið var í raun uppbygging. Aðrar hugmyndir voru líka farnar að
gerjast innan hreyfingarinnar með drauma og dulvitund í fararbroddi.
Súrrealisminn hreiðraði um sig með öðrum áherslum í viðbrögðum við
samtímanum. Niðurrifið varð að víkja fyrir hinu nýja samhengi.
Súrrealisminn varð til sem hreyfing á millistríðsárunum. André Breton
(1896–1966) og fleiri súrrealistar voru byltingarsinnaðir, og tengdist súrr-
ealisminn þannig að mörgu leyti hinu pólitíska ástandi þess tíma. Súrreal-
istar vildu ekki einungis gera byltingu í listum og skáldskap. Þeir vildu um
leið bylta þjóðfélaginu, veruleikanum og mannlegu eðli. Súrrealistar
byggðu hugmyndafræði sína að nokkru leyti á sálgreiningu Freuds, aðal-
lega á þeim hluta kenninganna sem tengdust hugmyndum um dulvitund
og frumhvatir.18 Aðferðir súrrealista við textaskrif byggðust á frjálsu hug-
renningaflæði, ósjálfráðri skrift og tengingu við drauma og aðrar birting-
armyndir dulvitundarinnar. Aðferðunum er meðal annars lýst í yfirlýs-
ingum súrrealista, en sú fyrsta var gefin út árið 1924 og var André Breton
skrifaður fyrir henni. Í kaflanum „Leyndardómar hinnar súrrealísku
galdralistar“ er því meðal annars lýst hvernig ósjálfráð skrif fara fram: