Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 31
TMM 2008 · 1 31
Þ o r p i ð á b o t n i va t n s i n s
Þegar dagurinn rann loksins upp, vaknaði hún snemma, að-
gætti hvort allir hlutirnir sem hún þarfnaðist væru örugglega í
bakpokanum, gekk niður að bryggjunni, settist í bátinn og ýtti frá
landi. Alda tók hraustlega til áranna. Veðrið var yndislegt. Sólin
var skínandi gul á himninum, vatnið var lygnt og blátt og bráðlega
var hún komin aftur að þorpinu á botni vatnsins.
Frá því að Alda fór síðast ofan í dómkirkjuna var næstum liðinn
mánuður og núna, á þessum degi, sem hún hafði beðið með svo
mikilli eftirvæntingu, yrði meiri fjara en á nokkrum öðrum degi
mánaðarins – alveg eins og þegar hún fór í fyrsta sinn ofan í kirkj-
una. Hún fylgdist til skiptis með hreyfingu sólarinnar yfir him-
ininn og hæð vatnsins við turninn. Hún ætlaði að vera alveg
örugg. Í pokanum sínum var hún með tímaglasið, svo hún vissi
hvað tímanum liði, og eldspýtustokk og kerti til að lýsa sér niður
eftir þrepunum ofan í kirkjuna.
Yfirborð vatnsins lækkaði hægt en örugglega, og bráðlega tíndi
hún af sér spjarirnar, klifraði inn í turnhúsið og stakk sér á kaf.
Hún náði taki á gjörðinni, spyrnti við fótunum og togaðist á við
hlerann þar til vatnið snerist í hringiðu og hvarf niður um opið.
Hún klæddi sig aftur í fötin, spennti á sig bakpokann, fikraði sig
svo varlega niður sleipan járnstigann. Þegar hún var hálfnuð niður
stigann, leit hún upp fyrir sig á hvítt ferkantað ljósið sem barst
niður um opið. Hún yrði að loka hleranum. Hvað ef hún kæmist
ekki upp á réttum tíma? Hvað ef eitthvað gerðist og flóðið kæmi
og hlerinn stæði opinn og kirkjan fylltist af vatni? Hún mátti ekki
vera kærulaus. Ef eitthvað kæmi fyrir hana mátti kirkjan samt
ekki eyðileggjast.
Hún lokaði hleranum og myrkrið luktist um hana, klifraði svo
niður þar til hún stóð efst í turninum. Spenningurinn ólgaði í
henni, en hún var líka svolítið hrædd. Hún sótti kertið ofan í
bakpokann og kveikti á því. Fyrir framan hana sveigðust þrepin
niður í kirkjuna og með kertið í annarri hendi og tímaglasið í
hinni gekk hún af stað inn í myrkrið.
Loginn frá kertinu brann þráðbeint upp í loftið og í birtunni
moraði af fíngerðu ryki sem þyrlaðist upp þegar hún gekk niður
þrepin. Ekkert gæti stöðvað hana. Hún fann kalda og hrjúfa fingur
myrkursins þukla um sig alla og gæsahúðin hríslaðist um hana.