Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 82
82 TMM 2008 · 1
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
Með fíngerðum pensli
Sandárbókin er sterkasta bók Gyrðis Elíassonar í langan tíma. Að sumu
leyti minnir sagan á Hótelsumar frá árinu 2003. Rétt eins og í þeirri bók
er meginviðfangsefni sögunnar einmanaleikinn. Í Sandárbókinni segir
fullorðinn listmálari frá nokkrum mánuðum í lífi sínu. Hann hefur sest
að í tveimur aflóga hjólhýsum, annað þjónar sem vinnustofa, en í hinu býr
hann sér heimili. Hjólhýsin standa í hjólhýsahverfi innan um ný og glæsi-
leg hjólhýsi annarra gesta. Málarinn er þannig ekki einn en hann er engu
að síður meira en lítið einmana og í litlum tengslum við aðra dvalargesti.
Sagt er frá ferðum hans um skóg í nágrenninu til að mála þar myndir,
ýmist með olíu eða vatnslitum, hann reynir líka fyrir sér við veiðar í ánni
með litlum árangri og rekst öðru hvoru á ferðum sínum á dularfulla konu
sem hugleiðir í skógarrjóðrum og syndir nakin í hyljum.
Undirtitill sögunnar er „pastoralsónata“. Því miður brestur mig
þekkingu á pastoralsónötu Beethovens til að sjá tengsl verksins við hana,
en pastoral þekkist líka í bókmenntasögunni og vísar þar, eins og í
tónlistarsögunni, til sveitasælu og fullkomins samræmis manns og nátt-
úru. Vissulega eru kaflar í bókinni sem uppfylla þessa mynd sveitasæl-
unnar, en hér er ekki allt sem sýnist. Aðalpersóna sögunnar nær aldrei
þeim samhljómi við náttúruna sem einkennir hjarðljóð eða pastoral
skáldskap, þrá hans eftir samneyti við annað fólk kemur í veg fyrir
þetta, enda færir dvölin úti í náttúrunni honum ekki frelsi eða hugarró
heldur í mesta lagi gálgafrest. Undirtitillinn lýsir því fremur þrá aðal-
persónunnar en veruleika hennar.
Myndir málarans eru hefðbundnar og hlutbundnar, ólíkt þeim
myndum sem hann segist hafa málað áður. Hann málar alltaf með fín-
gerðustu penslunum og einbeitir sér að því að ná hárfínum blæbrigðum
í lit og blæ laufanna á trjánum sem hann málar. Stíll Gyrðis í þessari bók
er af sama tagi, lýsingin á málaranum er fíngerð og blæbrigðarík. Undir
niðri býr mikil spenna en hún losnar aldrei úr læðingi. Samband mál-
arans við börnin sín er erfitt, en hann forðast að fara nánar út í þá sálma
eða kafa djúpt í vandamálin, jafnvel þegar hann mætir syni sínum aug-
liti til auglitis og skilyrði skapast til uppgjörs rennur það út í sandinn
Í þessari bók fæst Gyrðir við minni og tilfinningar sem hafa birst
áður í bókum hans, en vefurinn hér er fíngerðari en nokkru sinni fyrr.
Þótt þessi saga geti virkað yfirlætislaus og einföld á yfirborðinu er það
fjarri lagi, undir kraumar mikil harmsaga af einsemd og fórn lista-
manns – og engin trygging fyrir því að sú fórn skili honum þeim ávöxt-
um sem hann sóttist eftir.