Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 83
TMM 2008 · 1 83
Í f r á s ö g u r fæ r a n d i
Skáldsaga Auðar Ólafsdóttur, Afleggjarinn, er ein þeirra sagna sem
furðu lítið fór fyrir í síðasta jólabókaflóði. Þetta er þriðja skáldsaga
Auðar og um margt sú best heppnaða. Þar segir sögu sína ungur karl-
maður með nokkuð óvenjuleg áhugamál. Rósarækt á hug hans allan og
þetta áhugamál hans dregur hann í ferð suður til Evrópu þar sem hann
ræður sig í vinnu við að endurreisa fornan rósagarð í munkaklaustri.
Eftir á Íslandi verða faðir hans og þroskaheftur tvíburabróðir ásamt
barnsmóður og ungri dóttur sem kom undir í einnar nætur standi í
gróðurhúsi móður hans.
Meginhluti sögunnar gerist í litlu evrópsku þorpi á óræðum stað í
Evrópu. Þar fær söguhetjan næði til að sinna rósaræktinni en um leið
kynnist hann sjálfum sér upp á nýtt. Í þorpinu er líka áhugaverð auka-
persóna, munkurinn og kvikmyndarýnirinn séra Tómas. Þessi saga
snýr upp á kynjahlutverk á nokkuð lúmskan og hófstilltan hátt. Það er
ekki nóg með að aðalpersónan lifi og hrærist í jafn kvenlegu áhugamáli
og rósarækt, þegar líður á söguna kemur í ljós að honum lætur bæði
föðurhlutverkið og húsverkin betur en konunni í lífi hans.
Afleggjarinn er þroskasaga og þegar aðalpersónan þroskast og finnur
sjálfan sig verða meginþættirnir í lífi hans hlutir sem alla jafna eru tengdir
hinu kvenlega fremur en karlmönnum: frjósemi, ræktun og umhyggja.
Það er eitthvað heillandi við þessa sögu Auðar og fínlega aðferð henn-
ar. Fjölmargar skáldsögur, íslenskar og erlendar, hafa á undanförnum
áratugum tekist á við hefðbundin kynhlutverk, oftast á fremur grodda-
legan hátt með því að umsnúa kynhlutverkum, oft með áherslu á hið
líkamlega og kynferðið. Kynusli Afleggjarans er allur hófstilltari og
ísmeygilegri.
Hefðbundnar glæpasögur
Glæpasagnabylgjan íslenska er nú orðin svo ráðsett að hægt er að aug-
lýsa nýja höfunda með þeim orðum að þeir slái „nýjan tón“ í íslenskri
glæpasagnahefð, og sannast þá einu sinni enn að það þarf ekki langan
tíma til að búa til hefðir – eftir örfá ár verður sjálfsagt farið að tala um
gamla og gróna hefð íslenskra glæpasagna. Auðvitað eru íslenskar
glæpasögur hluti af gamalli hefð sem ekki varð íslensk fyrr en nú alveg
nýlega og flestar íslenskar glæpasögur ganga inn í hefðina að meira eða
minna leyti. Aðalpersónur þeirra eiga sér nákomna ættingja erlendis og
svo sem ekkert að því. Glæpasögur fjalla um þekktar týpur, drykkfellda
blaðamenn, töff kvenspæjara eða lögfræðinga að ógleymdum óham-
ingjusömum yfirlögregluþjónum, lögregluforingjum og þeirra liði.