Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 115
TMM 2008 · 1 115
B ó k m e n n t i r
hlutverkinu, ber hún alla tíð miklar tilfinningar til hans. Samband þeirra er
haltu mér slepptu mér samband ævina á enda.
Í lokahluta bókarinnar er Karitas alkomin heim í faðm íslenskrar náttúru
eftir áratuga fjarvistir í París og New York þar sem hún hefur skapað sér nafn
sem mikill listamaður. Þau Sigmar eiga saman skamman en góðan tíma áður
en hann deyr en Karitas lifir fram undir aldarlok og verður tæplega hundrað
ára gömul. Endalokum hennar er fallega lýst og kallast á við þekktar lýsingar á
dauða aðalkvenpersóna kvennabókmennta (nefna mætti The Awakening eftir
Kate Chopin). Það er reyndar eitt einkenni á þessu verki Kristínar Marju að í
því má finna ótal vísanir til þekktra kvenhetja íslenskra og erlendra bók-
mennta sem skiljanlegt er að höfundur vilji tengja verk sitt við.
Saga Karitasar er tvímælalaust með bestu „stórrómönum“ sem komið hafa
út á Íslandi í háa herrans tíð því höfundi er lagið að draga upp margþætta og
breiða samfélagslýsingu sem myndar sannfærandi bakgrunn fyrir eina athygl-
isverðustu persónusögu íslenskra samtímabókmennta. Saga Karitasar veitir
okkur góða innsýn í líf og kjör listakvenna á síðustu öld, og þótt Karitas nái að
öðlast frægð og frama í list sinni þá er það henni oftast dýrkeypt. Í þessu verki
hefur Kristínu Marju tekist ætlunarverk sitt með sóma; að gera sögu íslenskra
kvenna skil á svo eftirminnilegan hátt að aðdáun vekur.
Kári Páll Óskarsson
Hryllileg bók
Guðbergur Bergsson: 1 ½ bók – Hryllileg saga. JPV-útgáfa 2006.
Sautjánda skáldsaga Guðbergs Bergssonar (sú nítjánda ef skáldævisögurnar
tvær eru taldar með) er saga um leit að glötuðum tíma en þó ekki. Á einhverju
sviði er hún söguleg skáldsaga, en hún er matreidd að hætti Guðbergs í upphafi
21. aldar. Hún er eins langt frá hinni hefðbundnu sögulegu skáldsögu og hugs-
ast getur, ef hugtökin ‘hefðbundið’ og ‘óhefðbundið’ þýða þá nokkuð lengur.
Hinn augljósi munur á þessari bók og t.d. sögulegum skáldsögum 19. aldar er
sá að saga Guðbergs er algjörlega grímulaus fabúlering. Viðfangsefnið er
íslensk menning og áhrifavaldar hennar.
Það er erfitt að rekja söguþráð Hryllilegrar sögu vegna þess að það er ekki
mikill söguþráður fyrir hendi. Texti bókarinnar er lýsing á uppdiktaðri sam-
félagsfresku Reykjavíkur á fyrri hluta 20. aldar, aðallega millistríðsárunum, og
mjög samanþjöppuð þjóðlífsmynd. Bókin hefst á því að nafnlaus sögumaður
kynnir sig til leiks í nútíma okkar, eða einhverju sem líkist honum, með skír-
skotunum til kunnuglegra fyrirbæra eins og Spaugstofunnar. Sögumaður