Læknablaðið - 01.05.2016, Blaðsíða 9
LÆKNAblaðið 2016/102 217
R I T S T J Ó R N A R G R E I Nhttp://dx.doi.org/10.17992/lbl.2016.05.78
Lengi hafa mönnum verið hugleiknar þær
breytingar sem verða á hegðun margra er
öðlast áhrif og völd. Grikkjum til forna
var tamt orðið „hubris“ sem felur meðal
annars í sér hroka og spillingu. Í harm-
leikjum þeirra var „hubris“ oft undanfari
hörmunga og niðurlægingar – dramb er
falli næst segir máltækið. Oft er vitnað til
orða Actons lávarðar sem ritaði 1887: „Vald
spillir – algjört vald gjörspillir“.
Einræðisherrar sem sitja lengi á valda-
stóli eiga á hættu að verða valdafíkn og
spillingu að bráð. Það geta einnig orðið
örlög annarra leiðtoga, svo sem lýðræðis-
lega kjörinna stjórnmálaleiðtoga, fjármála-
manna og þeirra sem völd hreppa. Í þessu
samhengi hefur til dæmis mikið verið ritað
um Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra
Breta, og meintar breytingar sem urðu á
skapferli hans og framkomu í aðdraganda
Íraksstríðsins.
Sú spurning vaknar hvort finna megi
efnafræðilegt samhengi milli valda og
hroka. Í stuttu máli má segja að svo virðist
vera.1 Þær rannsóknir sem gerðar hafa ver-
ið hafa einkum tengst karlhormóninu testó-
steróni (spilltustu einræðisherrar heimsins
hafa flestir verið karlar) og vellíðunar- eða
vímuhormóninu dópamíni.
Testósterón er hormón sigurvegarans
og í keppni hækkar testósterón þegar sig-
ur vinnst.2 Rannsókn sem birtist árið 2010
sýndi einnig að testósterón eykst við arð-
söm viðskipti spákaupmanna og gerir þá
áhættusæknari og hugmyndaríkari í sín-
um viðskiptum.3 Þótt ekki hafi verið gerð-
ar rannsóknir á stjórnmálamönnum (þeir
gefa lítið færi á sér), má gera ráð fyrir að
kosningasigrar og klapp stuðningsmanna
hafi sambærileg áhrif. Testósterón eykur
einbeitingu, álagsþol, keppnisvilja og vilj-
ann til valda. Það minnkar kvíða og styrkir
því þá sem standa í stórræðum. Testósterón
eykur einnig virkni dópamíns í heilanum.
Dópamín er efni vellíðunar. Allar
tegundir verðlauna sem rannsakaðar hafa
verið auka virkni dópamíns í heilanum og
það stuðlar að þeirri vellíðan og sigurvímu
sem fylgir sætum sigri og sigursæll leið-
togi finnur í upphafi fyrir hinum jákvæðu
áhrifum og vellíðan. Dópamín miðlar þó
ekki eingöngu jákvæðum áhrifum því
það tengist mjög spennu og fíkn. Ýmsir
vímugjafar auka virkni dópamíns í heila,
svo sem áfengi, amfetamín og kókaín, og
segja má að dópamín sé miðill fíknarinn-
ar. Efnafræðileg breyting getur orðið hjá
vellukkuðum valdamanni og sigurvegara
og orsakað valdavímu sem hjálpar viðkom-
andi að takast á við áskoranir. En eins og
með aðra vímu getur myndast þol og sífellt
stærri skammta og fleiri sigra þarf þá til
að ná sömu áhrifum. Auk valdavímunnar
getur þróast valdafíkn. Hvort úr verður
hreinn valdhroki ræðst af fleiri þáttum,
meðal annars tímalengd valda og valda-
þörf einstaklingsins.
Öll höfum við valdaþörf, í þeim skiln-
ingi að vilja hafa áhrif á aðra. Valdaþörf
hefur áhrif á stjórnunarstíl4 og ráðherrar
sem hafa mikla valdaþörf stýra einatt með
lítilli hirð samstarfsfólks og sniðganga
samstarfsráðherra og ráðgefandi nefndir.
Ákvarðanataka slíkra ráðamanna er oft
hröð. Þeir sem hafa minni valdaþörf stýra
hins vegar fremur með valddreifingu og
leita sameiginlegrar niðurstöðu með sam-
starfsfólki. Hjá þeim tekur lengri tíma að
ná fram lokaniðurstöðu en meiri líkur eru
á að sátt náist.
Valdaþörf getur verið af tvennum toga.
Annars vegar það sem nefna má persónu-
tengda valdaþörf (p-valdaþörf) þar sem
leiðtoginn horfir ekki síst til þess sem get-
ur orðið honum sjálfum til hagsbóta. Hins
vegar samfélagstengd valdaþörf (s-valda-
þörf) þar sem fyrst og fremst er horft til
þess ávinnings sem samfélaginu getur
hlotnast fyrir tilstilli valdamannsins. Mikil
s-valdaþörf er af hinu góða fyrir samfélagið
og minnkar jafnframt hina persónutengdu
valdþörf. Að um raunverulegt fyrirbæri er
að ræða styðst við rannsóknir sem sýna að
karlar með hæstu p-valdaþörfina hækka
að jafnaði mest í testósteróni þegar sig-
ur vinnst.5 Einnig má nefna að s-valda-
þörf kvenna virðist að jafnaði meiri en
p-tegundin.
Valdavíman kann að vera mikilvæg,
jafnvel nauðsynleg leiðtoga undir miklu
álagi. Hún eykur sjálfsöryggi og ein-
beitingu, dregur úr streitu og léttir álagið
sem fylgir völdum og auðveldar ákvarð-
anatöku. Hins vegar getur valdavíman leitt
leiðtogann inn í vítahring. Til að viðhalda
vellíðaninni þarf síendurtekið flæði testó-
steróns og dópamíns og það kallar á sífellt
nýja sigra. Úr verður fíkn, valdafíkn. Hitti
valdafíknin á sjálfmiðaðan einstakling
með mikla þörf fyrir persónutengd völd
sprettur upp valdhroki. Valdhrokanum
fylgir spilling og fleiri lestir.
Góður leiðtogi þarf að vera fremstur
meðal jafningja. Hann verður að hafa vilja
til valda og njóta þess að hafa völd, því til
lítils er sá leiðtogi sem engin völd vill hafa
og enga sigra vinna. En sigurviljinn þarf að
vera fyrir „okkur“ en ekki fyrst og fremst
fyrir „mig“.
Valdamikill leiðtogi, fullur valdhroka
er heiminum hættulegur. Lýðræði var inn-
leitt í Grikklandi sem svar við valdhroka
og spillingu og til að takmarka valdatíma
leiðtoga. Stjórnarskrárbundin takmörkun á
valdatíma leiðtoga nútímans getur stutt við
sama markmið.
Heimildir
1. Wright ND, Bahrami B, Johnson E, Di Malta G, Rees G,
Frith CD, et al. Testosterone disrupts human collaboration
by increasing egocentric choices. Proc Biol Sci 2012; 279:
2275-80.
2. Bernhardt PC, Dabbs JM Jr, Fielden JA, Lutter CD.
Testosterone changes during vicarious experiences of
winning and losing among fans at sporting events. Physiol
Behav 1998; 65: 59-62.
3. Coates JM, Gurnell M, Sarnyal Z. From molecule to
market: steroid hormones and financial risk-taking. Philos
Trans R Soc Lond B Biol Sci 2010; 365: 331-43.
4. Hermann MG. Assessing leadership style: A trait analysis.
Originally Published November 1999 Minor revision 2002-
11-13, © 1999, 2002 by Social Science Automation, Inc.
5. Schultheiss OC, Campbell KL, McClelland DC. Implicit
power motivation moderates men‘s testosterone responses
to imagined and real dominance success. Horm Behav
1999; 36: 234-41.
Intoxication of power
Torfi Magnússon MD, Neurologist
Dptm. of Neurology
Landspitali University Hospital
torfimag@landspitali.is
Völd og valdafíkn
Torfi Magnússon
taugalæknir,
taugalækningadeild,
Landspítala
Lægra lyfjaverð fyrir þig
Við erum Mylan
Eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi
M
YL160402