Læknablaðið - 01.05.2016, Blaðsíða 12
220 LÆKNAblaðið 2016/102
sem viðmið eitt barn sem ekki fékk sterameðferð, parað á með-
göngulengd. Einnig var leitast við að para börnin á fæðingarári.
Öll börnin voru fundin í Vökudeildarskránni, sem er upplýsinga-
grunnur um öll börn sem leggjast inn á vökudeildina.
Klínískra upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám barnanna og
mæðraskrám. Aflað var upplýsinga um meðgöngu, fæðingu og
ástand barnsins við fæðingu. Við ákvörðun á meðgöngulengd
var miðað við niðurstöður ómskoðana við 18.-20. viku meðgöngu.
Fæðingarþyngd, lengd og höfuðummál barnanna var skráð.
Um börnin sem fengu sterameðferð var aflað upplýsinga um
aldur við upphaf og lok meðferðar, form meðferðar (í æð eða á
úðaformi) og upphafsskammt miðað við líkamsþyngd. Skráð var
meðalsúrefnisþörf og þörf fyrir öndunaraðstoð 5 dögum áður en
sterameðferð hófst, daginn sem meðferðin hófst, daglega næstu
vikuna og 10 og 14 dögum eftir upphaf meðferðar. Sömu upplýs-
inga var aflað um börnin í viðmiðunarhópnum við sama aldur
og börnin sem þau voru pöruð við. Svörun barnanna við stera-
meðferðinni var metin með því að reikna út meðalsúrefnisþörf
þeirra sem fengu stera og kannað hvernig hún breyttist á með-
ferðartímabilinu, auk þess sem súrefnisþörfin var borin saman við
súrefnisþörf barnanna í viðmiðunarhópnum. Í sama tilgangi var
fundinn fjöldi barna sem þurfti á öndunarvélameðferð að halda
á meðferðartímabilinu og sams konar samanburður gerður og á
súrefnisþörfinni.
Til að kanna hugsanlegar aukaverkanir sterameðferðar var
skráður blóðsykur barnanna daginn sem meðferð hófst og þremur
dögum síðar. Skráð var þyngd, lengd og höfuðummál barnanna
við upphaf og lok sterameðferðar, og við 35 vikna meðgöngualdur.
Samsvarandi upplýsinga var aflað fyrir börnin í viðmiðunarhópn-
um við sama aldur og börnin sem þau voru pöruð við. Skráður
var fjöldi grunaðra sýkinga og sýkinga sem staðfestar voru með
ræktunum á tímabilinu frá upphafi sterameðferðar þar til tveimur
vikum eftir að henni lauk. Einnig var skráð hvort börnin fengu
heilablæðingu og þá af hvaða gráðu, eða greindust með heilalöm-
un. Þessar breytur voru bornar saman milli barnanna í meðferð-
arhópunum og viðmiðahópunum.
Öll gögn voru skráð í tölfræðiforritið JMP® 7 - SAS Institute Inc.
og tölfræðiúrvinnsla unnin í því. Óparað t-próf var notað þegar
bornar voru saman samfelldar breytur milli tveggja hópa og parað
t-próf þegar bornar voru saman breytingar á samfelldum breytum
milli tveggja tímabila innan sama hóps. Kí-kvaðrat var notað til
að bera saman ósamfelldar breytur milli tveggja hópa. Niður-
stöður eru gefnar upp sem hlutfallstölur, meðaltöl ± staðalfrávik
eða miðgildi og spönn eftir því sem við á. Í skýringarmyndum er
meðaltal + staðalskekkja notað til að sýna dreifingu. Tölfræðileg
marktækni er miðuð við p<0,05.
Rannsóknin var samþykkt af siðanefnd Landspítala og
Persónuvernd. Jafnframt var fengið leyfi hjá framkvæmdastjóra
lækninga á Landspítalanum.
Niðurstöður
Sextíu og átta fyrirburar fengu sterameðferð vegna erfiðs lungna-
sjúkdóms á vökudeild Barnaspítala Hringsins á árunum 2000-
2014. Af þeim fengu 36 stera í æð og 32 stera á innúðaformi ein-
göngu. Ekki tókst að finna viðmið fyrir 8 börn sem fengu stera í
æð og tvö börn sem fengu stera á úðaformi. Þannig fengust í sam-
anburðarhluta rannsóknarinnar 28 börn sem fengu stera í æð og
30 börn sem fengu stera á úðaformi og jafn mörg viðmið (mynd 1).
Sterameðferð í æð
Ekki reyndist marktækur munur milli barnanna sem fengu stera
í æð og viðmiða á helstu klínísku þáttum sem varða móður, með-
göngu, fæðingu og barnið sjálft (tafla I).
Öll börnin í rannsókninni sem fengu stera í æð fengu dexa-
metason (Decadron®). Sex börn höfðu fengið úðameðferð áður en
sterameðferð í æð hófst og þrjú börn fengu fleiri en einn kúr af
dexametasón í æð. Meðalaldur barnanna sem fengu stera í æð
var 22,6 ± 9,6 dagar (miðgildi 21; spönn 8-55) við upphaf með-
ferðar. Að meðaltali var sterameðferðin í æð 10,2 ± 8,0 daga löng
(miðgildi 8; spönn 2-46) og voru skammtarnir minnkaðir smám
saman áður en meðferð var hætt.
R A N N S Ó K N
Mynd 1. Skipting barnanna í hópa.
Mynd 2. Samanburður á súrefnisþörf barna sem fengu sterameðferð í æð og
barna í viðmiðunarhópi.
Súrefnisþörf barnanna frá því 5 dögum fyrir og þar til 14 dögum eftir upphaf meðferð-
ar. Dagur 0 er upphafsdagur meðferðar.
- Samanburður á súrefnisþörf milli daga hjá meðferðarhópi: Dagur -5 og 0, p<0,001;
dagur 0 og 1, p=0,01; dagur 1 og 2, p<0,001; dagur 2 og 3, p=0,01; dagur 7 og 14,
p=0,03; ekki var marktækur munur á breytingu á súrefnisþörf milli annarra sam-
liggjandi daga.
- Samanburður á súrefnisþörf meðferðarhóps og viðmiðunarhóps: Dagur -5, p=0,005;
dagur 0, p<0,001; dagur 1, p=0,001; ekki var marktækur munur á súrefnisþörf milli
hópanna á öðrum dögum.