Læknablaðið - 01.05.2016, Blaðsíða 39
U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R
LÆKNAblaðið 2016/102 247
Magnús Stefánsson (f. 1936) barna-
læknir fór yfir sögu barnadeildar
Sjúkrahúss Akureyrar (SAk). Þann 1.
október 1961 var Baldur Jónsson (1923-
1994) ráðinn að SAk sem sérfræðingur
í barnalækningum til að sinna veikum
börnum. Aðstaðan var ansi þröng í mörg
ár, en Baldur fékk fyrst til umráða tvær
sjúkrastofur í elsta hluta spítalans. Það
var svo í ársbyrjun 1972 sem barnadeild
var formlega stofnuð á SAk. Baldur var
ráðinn yfirlæknir þar þangað til hann
hætti vegna aldurs í lok árs 1993. Um mitt
ár 1976 flutti deildin í nýtt húsnæði á efsta
palli í stigahúsi sem var fyrsti hluti við-
byggingar SAk. Þá stækkaði deildin úr um
40 m2 í 166 m2, en þetta var lagt upp sem
bráðabirgðahúsnæði til tveggja ára en það
teygðist úr því. Deildin var á þessum stað í
rúm 24 ár. Byrjað var á nýrri álmu við SAk
1995 og barnadeildin flutti í nýtt rúmgott
(870 m2) húsnæði árið 2000, 10 rúma deild
með sérstöku rými til að sinna nýbur-
um. Opnun þessarar deildar var mikið
framfaraskref í umönnun veikra barna
á Akureyri og mikil bót á aðstöðu fyrir
aðstandendur og starfsfólk. Magnús var
ráðinn við deildina árið 1975 og tók við
yfirlæknisstöðu 1994 og gegndi til 2005,
en vann sem sérfræðingur til ársloka 2008.
Geir Friðgeirsson (f. 1947) barnalæknir
vann við deildina frá 1982 til 1997. Andrea
E. Andrésdóttir (f. 1955) hóf störf 1996 og
tók við yfirlæknisstöðunni í framhaldi af
Magnúsi 2006. Fyrir utan Andreu eru nú
tveir sérfræðingar fastráðnir við deildina í
fullu starfi, þau eru Gróa B. Jóhannesdóttir
(f. 1969) og Viktor Sula (f. 1977). Nokk-
uð margir barnalæknar hafa starfað við
deildina í mislangan tíma, bæði fastráðnir
og enn fleiri við afleysingar.
Eins og að ofan greinir stofnuðu 13
barnalæknar Félag íslenskra barnalækna
fyrir 50 árum og er einungis einn þeirra
á lífi í dag, en það er aldursforseti félags-
ins, Geir Hannes Þorsteinsson (f. 1928).
Geir fékk sérfræðiviðurkenningu 1963 og
vann aðallega við ungbarnavernd víða
á höfuðborgarsvæðinu, á stofu og við
skólalækningar. Geir gat sér gott orðspor í
starfi, en ákvað að söðla um og vinna sem
heilsugæslulæknir í Heilsugæslu Kópa-
vogs þegar hún var stofnuð árið 1980 og
vann hann þar til starfsloka. Geir var kjör-
inn fyrsti formaður félagsins á stofnfundi
þess, sem að hans sögn kom honum á
óvart. Hann sat í eitt ár (1966-1967) eins og
fyrstu lög félagsins sögðu til um. Næstelsti
núlifandi barnalæknir er Einar Lövdahl
(f. 1929), en hann fékk sérfræðileyfi árið
1969. Einar lærði barnalækningar í Svíþjóð.
Hann dvaldi í Addis Ababa í Eþíópíu með
fjölskyldu sinni árin 1965-1967, er hann
vann þar á vegum sænsku þróunarhjálp-
arinnar (SIDA). Einar flutti heim 1967 og
vann á Barnaspítala Hringsins um tveggja
ára skeið. Hann vann síðan á stofu, við
skólalækningar og ungbarnaeftirlit út
sína starfsævi. Þriðji elsti félagi er Þórey J.
Sigurjónsdóttir (f. 1930) frá Vestmannaeyj-
um. Þórey lærði barnalækningar á Mayo
Clinic í Rochester, Minnesota, og starfaði
að mestu á sinni stofu og aðeins við ung-
barnavernd. Þórey varð fjórða konan til að
öðlast sérfræðiréttindi í barnalækningum
á Íslandi (1967). Katrín var fyrst allra, en
Hulda Sveinsson (1920-2012) og Kristjana
P. Helgadóttir (1921-1984), fengu báðar
sérfræðileyfi 1952. Hulda starfaði með
Katrínu hjá Líkn og Heilsuverndarstöð
Reykjavíkur, en Kristjana mest á stofu.
Það vekur óneitanlega athygli að allir
aldursforsetar félagsins hættu störfum á
Barnaspítala Hringsins við upphaf starfs-
ferils síns hér á landi, á árabilinu 1965-
1970, og munu samskiptaerfiðleikar innan
deildarinnar hafa legið þar að baki. Magn-
ús H. Ágústsson barnalæknir (f. 1924)
flutti aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa
unnið á barnadeild 1957-1958. Magnús, þá
prófessor við University of Illinois, hafði
milligöngu um fyrstu hjartaskurðaðgerðir
á nokkrum íslenskum börnum í Chicago.
Bróðir hans, Hreiðar (1918-2009), fékk sér-
fræðileyfi í barnalækningum 1948. Hann
vann á Íslandi um stutt skeið en síðan sem
barnalæknir í Minnesota frá 1949.
Hér hefur verið stiklað á stóru í sögu
barnalækna og sjúkrahúsþjónustu við
börn á Íslandi, en ekki farið í mikilvæga
þjónustu barnalækna utan sjúkrahúsa.
Þær stofnanir þar sem barnalæknar hafa
komið við sögu í miklum mæli eru heilsu-
verndarstöðvar, síðar heilsugæslustöðvar
og ungbarnavernd víða um land. Margir
félagar hafa unnið á Greiningar- og ráð-
gjafarstöð ríkisins sem stofnuð var 1986.
Stefán J. Hreiðarsson (f. 1947) var forstöðu-
maður stöðvarinnar í 30 ár, frá stofnun
til loka árs 2015. Sumir hafa tengst Mið-
stöð heilsuverndar barna, sem síðar varð
Þroska- og hegðunarstöð hjá Heilsugæslu
höfuðborgarsvæðis. Að lokum má ekki
gleyma sjálfstæðum stofurekstri, aðallega
í Domus Medica og Barnalæknaþjónust-
unni, þar sem aðkoma barnalækna hefur
vegið þungt í mati og meðferð veikra
barna hér á landi.
Þakkir fá allir fyrirlesarar dagsins og
stjórnarmeðlimir; Brynja Kristín Þórarins-
dóttir (f. 1973) ritari, Sindri Valdimarsson
(f. 1971) gjaldkeri og Sigurður Einar Mar-
elsson (f. 1973) varamaður.
Helstu heimildir
• Haraldsson G. Læknar á Íslandi. Þjóðsaga, Reykjavík 2000.
• Harðarsson Þ. Hjartaskurðlækningar og tildrög þeirra á
Íslandi. Læknablaðið 2013; 99: 406-7.
• Skjalasafn. Félag íslenskra barnalækna 1966-2016.
• Sæmundsson MV. Minningar barnalæknis. Lífssaga Björns
Guðbrandssonar. Forlagið, Reykjavík 1987.