Dagblaðið Vísir - DV - 22.01.2016, Side 74
Helgarblað 22.–25. janúar 201654 Menning
Krimmi í mýkri kantinum
Konan í blokkinni er fyrsta glæpasaga Jónínu Leósdóttur
K
onan í blokkinni er skáld-
saga eftir Jónínu Leósdóttur.
Bókin kom út í bókaklúbbi
Forlagsins í nóvember og
í byrjun janúar kom hún í
bókaverslanir. Óvenjulegt er að ný
íslensk skáldverk komi í verslanir á
þessum tíma, um leið og jólabóka-
flóðinu lýkur.
„Í byrjun hafði ég smá áhyggjur
af tímasetningunni en hef þær ekki
lengur,“ segir Jónína. „Bókin er bók
mánaðarins í Eymundsson og fær fyrir
vikið ákveðna athygli, auk þess sem
fáar bækur koma út á þessum tíma.“
Hún segist ekki sakna þess að hafa
ekki að þessu sinni tekið þátt í hinu
árlega jólabókaflóði. „Það var óskap-
lega gott að fá hlé frá upplestrum.
Fyrir rúmu ári, þegar ég sendi frá mér
skáldsöguna Bara ef..., þá fór ég fjörtíu
og tvisvar út úr húsi til að kynna bók-
ina, lesa upp og fara í viðtöl. Í nóvem-
ber og desember hafði ég engan tíma
til að skrifa, var alltaf með næsta upp-
lestur í huga. Núna gat ég unnið eins
og venjulega þó að jólabóka flóðið
væri í gangi. Mér fannst það algjör
lúxus.“
Áhugi á mannlegu eðli
Aðalpersóna nýju bókarinnar er Edda
sem vann í bókabúð en er komin
á eftir laun. Önnur kona, Steinunn,
sem er mun yngri, er í stóru hlutverki
í bókinni, en sú vaknar upp við afar
óvenjulegar aðstæður. Þetta er fyrsta
glæpasaga Jónínu og hún er spurð
af hverju hún hafi ákveðið að skrifa
glæpasögu.
„Ég hef engan sérstakan áhuga á
glæpum en þeim mun meiri áhuga á
mannlegu eðli. Af því að fólk er eins
og það er þá leiðist það stundum út í
glæpi,“ segir hún. „Ég hef einu sinni
áður skrifað spennubók. Það var unglingabók sem ég gekk með í
tíu ár. Mig langaði til að skrifa bók fyrir
ungt fólk sem fjallaði um þunglyndi
og sjálfsvígshættu. Ég uppgötvaði
loks hvernig ég gæti gert það án
þess að foreldrar og afar og ömmur
myndu neita að kaupa bókina handa
krökkunum og án þess að krakkarnir
myndu henda bókinni frá sér. Þetta
tókst mér með því að setja bókina í
spennuform.“
Aðalpersónan í Konan í blokkinni er
Edda, lífleg eldri kona. Það eru ekki
margar konur á hennar aldri áber-
andi í skáldsögum. Af hverju vildirðu
skrifa um konu eins og hana?
„Týpur sem eru nokkuð líkar Eddu
hafa verið í öðrum bókum mínum
en þá sem aukapersónur. Mér fannst
oft leiðinlegt að sleppa höndunum
af þeim og nú langaði mig til að hafa
svona persónu í forgrunni.
Ég hef mjög gaman af konum á
besta aldri sem eru hressar og kjaft-
forar, þykjast vita allt og geta allt.
Kannski líkar mér svo vel við þær
vegna þess að mig langar til að vera
svona týpa. Ég er því miður ekkert lík
þeim.
Edda er orkumikil og forvitin og
leysir gátur en er svolítið afskrifuð út
af kennitölunni. Hún varð til í huga
mínum áður en ég ákvað að gera
bókina að glæpasögu. Smám saman
komst ég einfaldlega að því að Eddu
hentaði ákveðin spenna. Hún þolir
ekki lognmollu og leiðindi, konan.
Hún vill hafa fútt í hlutunum. Þetta er
þó ekki svæsinn krimmi með miklu
blóði og eltingaleik. Þetta er krimmi í
mýkri kantinum.“
Einkennileg viðhorf
til eldri kvenna
Í bókinni kemur fram að viðhorf til
eldri kvenna sé oft nokkuð einkenni-
legt, það er ekki tekið fullt mark á þeim.
Hefur þú sjálf orðið vör við slík viðhorf?
„Áhugi fólks á manni minnkar eftir
því sem maður eldist, það held ég
að margar konur finni. Þegar ég var í
blaðamennsku á Nýju lífi skrifaði ég
pistil um viðhorf til eldri kvenna og
fékk mikil viðbrögð frá konum sem
könnuðust við þetta. Í þessari bók er
ýmislegt sem við mig langaði til að
fjalla um og þá er gott að hafa konu
eins og Eddu sem málpípu.“
Sala á bókum í matvöruverslunum
fer mjög í taugarnar á Eddu sem sjálf
vann í bókabúð. Fer þessi sala líka í
taugarnar á þér?
„Ég hef gríðarlega gaman af að
fara í bókabúðir og mér finnst mikil
synd þegar matvöruverslanir fleyta
rjómann af bóksölunni í desember.
Þessar búðir eru þar að auki ekki með
allar jólabækurnar til sölu heldur velja
bækur úr og það hefur áhrif á söluna.
Mér er annt um bókabúðir, sem sinna
bókaunnendum allan ársins hring,
og vil ekki að matvöruverslanir gleypi
bókasöluna fyrir jólin og skekki mark-
aðinn. Á móti kemur að margir kaupa
kiljur í matvöruverslunum og þjóð-
vegasjoppum og ég get ekki annað en
fagnað þeirri þróun.“
Önnur bók um sömu persónu
Jónína er atvinnurithöfundur og er
spurð að því hvernig það gangi fjár-
hagslega. „Ég er vel gift og gæti þetta
ekki annars,“ segir hún. „Margir halda
að ritstörf séu hið mesta lúxuslíf og
ekki síst á þessum árstíma þegar um-
ræðan um starfslaun listamanna gýs
upp. Á síðasta ári vorum við Jóhanna
staddar í búð þegar hún greip tekju-
blað Frjálsrar verslunar. Allt í einu sá
ég að hún fór að kíma yfir einhverju í
blaðinu. Þá hafði hún flett mér upp og
henni fannst grátbroslegt að sjá hvað
tekjurnar sem ég hafði voru í litlu
samræmi við alla mína vinnu.
Ég nýt þess að skrifa og vakna
snemma á hverjum einasta morgni
og sest við tölvuna. Jóhanna hélt að
þegar hún hætti að vinna hefðum við
nógan tíma fyrir göngutúra og kaffi-
húsaferðir en henni finnst sú fram-
tíðarsýn ekki alveg hafa ræst. Ég vil
helst alltaf vera að vinna.“
Nú er þessi bók komin í búðir. Ertu
farin að vinna að næstu bók?
„Um leið og ein bók endar þá er ég
byrjuð að velta fyrir mér þeirri næstu.
Ég ætla að skrifa aðra bók um sömu
persónu því það er ýmislegt sem mig
langar til að gerist í hennar lífi og í
leiðinni leysir hún dularfull mál. Mér
finnst gaman að sýna að fólk á hennar
aldri er ekki dautt úr öllum æðum.“ n
„Edda er orkumikil
og forvitin og leys-
ir gátur en er svolítið af-
skrifuð út af kennitölunni.
Hún varð til í huga mínum
áður en ég ákvað að gera
bókina að glæpasögu.
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@dv.is
Jónína „Ég nýt þess að skrifa
og vakna snemma á hverjum
einasta morgni og sest við
tölvuna.“ Mynd ÞorMar Vignir gunnarsson
Við látum það berast
ERTU MORGUNHRESS DUGNAÐARFORKUR?
Leitum að duglegu og ábyrgu fólki til að bera út blöð í þínu nágrenni
milli klukkan 6 og 7 á morgnanna. Dreifing fer fram sex daga vikunnar,
mánudaga til laugardaga.
Ef þetta er eitthvað sem gæti átt við þig hafðu þá samband í síma
585 8330 eða 585 8300.
Einnig er hægt að finna upplýsingar
á www.postdreifing.is
GÖNGUTÚR
Á LAUNUM