Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Blaðsíða 60
60 61
gangi frá samkomulagi um rekstur Skálholtsdómkirkju milli Skálholtssóknar og Skálholtsstaðar og
um afnot annarra af kirkjunni eins og t.d. til helgiathafna, tónleika eða tónlistarupptöku.) hefur
verið gengið frá drögum að samkomulagi milli Skálholtsstaðar og Skálholtssóknar um skiptingu
rekstarkostnaðar Skálholtskirkju. Gengið er út frá því að Skálholtssókn greiði 20% heildarkostnaðar
á móti 80% Skálholtsstaðar, en að upphæð þess kostnaðar sem sóknin greiðir fari þó aldrei
upp fyrir 30% af heildarinnkomu sóknargjalda Skálholtssóknar á ári hverju. Tekjur sem verða til
þegar kirkjan er vettvangur tónleikahalds þar sem greitt er fyrir aðgang skiptist með sama hætti.
Meginreglan er sú að lágmarksgjald fyrir tónleika sé 30. þús.kr. eða 10% af innkomu fyrir seldan
aðgang. Þó aldrei minna en 30 þúsund krónur.
4. Í þessu samkomulagi er undanskilin hlutdeild sóknarinnar í launum organistans í Skálholti.
Þar á Skálholtssókn hlutdeild í samkomulagi allra sókna hins gamla Skálholtsprestakalls (áður
en það var sameinað Mosfellsprestakalli og Þingvallaprestakalli.). Sóknirnar hafa undanfarin
ár greitt 25% launa organistans, vegna fjárhagserfiðleika sinna, en upphaflegur samningur
gerði ráð fyrir að Skálholtsstaður greiddi 65% launanna en ekki 75%. Í ljósi breyttra aðstæðna
og sameiningar Mosfells- og Skálholtsprestakalla telur stjórnin eðlilegt að Skálholtsstaður
endurskoði hlutfall sitt í launum organistans. Endurskoða þarf ennfremur starfslýsingu og
erindisbréf organistans í ljósi þessa og einnig vegna þess að síðan á haustmánuðum 2014 er
barnastarf í Skálholtskirkju fyrir allar sóknir prestakallsins á laugardögum, vikulega í um það
bil 30 vikur, með aðstoð og skyldumætingu organistans. Þessi hluti starfsins var ekki fyrirséður
við ráðningu hans 2009.
5. Ófrágenginn en í drögum er tilbúinn samningur Skálholtskirkju og kirkjuvarðar á ársgrundvelli.
Hinn fastráðni kirkjuvörður er ábyrgur fyrir útförum innan sóknar sem utan og heldur utan um
þær, sem og annað kirkjustarf utan þess tíma sem sumarstarfsmenn starfa ekki.
6. Að tilmælum Ríkisendurskoðunar hefur einnig verið gengið frá drögum að skipulagsskrá fyrir
Þorlákssjóð, sem heita skal Áheitasjóður Þorláks helga, sem ætlað er að standa einkum
straum af viðhaldi og endurnýjun skrúða og annars búnaðar kirkjunnar vegna helgihaldsins.
Lögfræðingur Biskupsstofu er með skipulagsskrána í skoðun.
7. Bókasafn Skálholtsstaðar er sem kunnugt er að mestu varðveitt í turni Skálholtsdómkirkju.
Ríkisendurskoðun telur að ekki eigi að færa bókasafnið til eignar í ársreikningi Skálholtsstaðar.
Ákveðið hefur verið að afskrifa safnið að fullu á þremur árum í samræmi við þá reikningsskilavenju
að þjóðargersemar af þessu tagi séu ekki verðlagðar í ársreikningi. Umsjónarmaður safnsins,
Hildur Eyþórsdóttir hefur skilað af sér gögnum og tölvu þeirri sem geymir skráninguna. Nú er
brýnt að ljúka því verki sem skráningunni fylgir: Samræma skráninguna að fullu við skráningakerfi
Landsbókasafns á Þjóðarbókhlöðu, bera saman skráninguna við bókakostinn í safninu, einkum
og sér í lagi verðmætasta hluta safnsins, Hólaprent, Skálholtsprent og Hrappseyjarprent, og
koma þeim hluta safnsins í örugga geymslu.
Skálholtsstaður.
Stærsta verkefni Skálholtsstaðar á ári hverju er þjónusta við staðinn sjálfan, og við ferðamenn.
Þjónustan við staðinn er umsjón með fasteignum og umhirða kringum kirkju og staðarhús. Til þess
að vel takist til þarf að vera nægilegur fjöldi starfsfólks. Ófullnægjandi er orðið að miða við að þetta
starfsfólk sé einungis starfandi frá júníbyrjun þar til skólar hefjast seint í ágúst.