Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Side 116
116 117
um embættispróf í guðfræði heldur mag. theol. próf, sem leyst hefur cand. theol. próf
af hólmi við Háskóla Íslands. Eru þessar prófgráður jafngildar í þessu sambandi. Ekki
þykir ástæða til að kveða á um lágmarksaldur prestsefna enda er það óraunhæft og biskup
hefur getað veitt undanþágu í þeim efnum. Þótt það sé góð vinnuregla að biskup Íslands
leiti álits Háskóla Íslands um önnur próf en tilgreind eru í ákvæðinu eru ekki efni til
að lögbinda það, sbr. 6. tl. 4. gr. og 6. tl. 12. gr. dómstólalaga um menntunarkröfur til
hæstaréttardómara og héraðsdómara. Loks þykir rétt að áskilja að sá sem tekst á hendur
prestsþjónustu í þjóðkirkjunni sé skráður í þjóðkirkjuna eigi síðar en við upphaf starfa síns.
Þó gætu samkirkjulegar samþykktir sem þjóðkirkjan hefur undirgengist veitt undanþágu
frá þessu, svo sem Porvoo-samkomulagið“.
Um 6. gr.
Orðalag 6. gr. er nákvæmlega eins og núgildandi 40. gr. þjóðkirkjulaga að öðru leyti en því
að felld eru brott ákvæði um úrskurðarnefndina til samræmis við 1. gr. tillögu þessarar.
Um 7. gr.
Lagt er til að lögin taki gildi að hluta þegar í stað, en 1. janúar 2015 hvað varðar tilfærslu
fjárstjórnarvalds.
Til að fjárstjórnarvald færist til kirkjuþings er nauðsynlegt að breyta löggjöf um
kristnisjóð, kirkjumálasjóð og jöfnunarsjóð sókna á þann veg að brott falli ákvæði um
stjórn kirkjuráðs yfir þeim sjóðum.
Þá er eðlilegt að lögboðið hlutfall þess gjalds sem ríkissjóður greiðir í kirkjumálasjóð,
samkvæmt lögum um kirkjumálasjóð nr. 138/1993, sé samræmt því samkomulagi sem
gert var milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur og afhendingu þeirra
þann 20. október 2006. Í 4. gr. samkomulagsins segir um þetta:
„Samkomulag þetta felur í sér, auk afhendingar tiltekinna eigna til Þjóðkirkjunnar, að
íslenska ríkið hækkar árlegt framlag sitt til Kirkjumálasjóðs sem nemur 3,0% af því gjaldi
sem árlega er greitt til sjóðsins þannig að gjald í Kirkjumálasjóð verði 14,3% frá 1. janúar
2007. Samhliða umræddri hækkun munu framlög samkvæmt eftirfarandi viðfangsefnum
undir fjárlagaliðnum 06-701 Þjóðkirkjan falla brott frá og með fjárlögum 2007: 1.12, 1.15,
1.16 og 1.91.“
Sömuleiðis er eðlilegt að fella brott 3. gr. laga um kirkjumálasjóð en þar segir:
„Kirkjumálasjóður skal skila á hverju ári fjárhæð er rennur til prestssetrasjóðs eftir nánari
ákvörðun kirkjuráðs. Framlagið skal eigi nema lægri fjárhæð en 52 milljónum króna og skal
sú fjárhæð endurskoðuð árlega með hliðsjón af byggingarvísitölu í júlímánuði. Framlagið
skal innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.“
Með lögum nr. 82/2007 var prestssetrasjóður felldur niður og kirkjumálasjóður tók við
verkefnum sjóðsins. Lög þessi voru sett í framhaldi af framangreindu samkomulagi um
prestssetur frá 2006.
Ákvæðið er því úrelt og þýðingarlaust. Sömu rök eiga við um breytingu á 4. gr. en þar er
minnst á prestssetrasjóðinn einnig.