Dagblaðið Vísir - DV - 28.10.2016, Blaðsíða 34
Helgarblað 28.–31. október 201626 Fólk Viðtal
Sævar vísar til þess hve loft-
hjúpurinn er orðinn mengaður og
að við brennum jarðefnaeldsneyti
sem við ættum alls ekki að gera. „Það
er mikil tregða hjá mannfólkinu að
hætta því og byrja á einhverju nýju.“
Hann segir stóra vandamálið vera
að enginn sé tilbúinn að taka af skarið
og breyta eigin hegðun. Hann bindur
þó vonir við að þegar einhver setji
gott fordæmi þá fylgi aðrir og smám
saman breytist heimurinn til hins
betra. „Ég vona að það verði ekki of
seint hvað varðar loftslagsbreytingar
og umhverfismál almennt.“
Gaf 56 þúsund gleraugu
Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá ár-
inu 1954 varð í mars árið 2015, en þá
fór tunglið 98 prósent fyrir sólina. Í
tengslum við sólmyrkvann tók Sæv-
ar af skarið, í samstarfi við Stjörnu-
skoðunarfélag Seltjarnarness og
Hótel Rangá, og keypti 76 þúsund
sólmyrkvagleraugu.
Öll grunnskólabörn og - kennarar
landsins fengu afhent samtals 55
þúsund sólmyrkvagleraugu og leik-
skólar á Íslandi fengu samtals 1.000
gleraugu. Afgangurinn af gleraugun-
um var seldur á 500 krónur stykkið
til að fá upp í kostnaðinn sem hljóp
á milljónum.
Ástæða þess að Sævar ákvað
að standa fyrir verkefninu var ein-
faldlega sú að efla áhuga barna á
alheiminum. „Þetta var einung-
is gert í fræðsluskyni og til að efla
skólastarfið.“
Langaði að skríða
ofan í holu og deyja
Þrátt fyrir góðan hug gekk verkefnið,
sem var gríðarlega umfangsmikið og
kostnaðarsamt, síður en svo áfalla-
laust fyrir sig. „Ég á aldrei eftir að
gleyma þessu. Allt gekk þó upp að
lokum eftir smá fjárhagslega áhættu
og vesen,“ segir Sævar kíminn.
Sólmyrkvagleraugun, sem voru
ætluð almenningi, seldust upp á að-
eins örfáum dögum. Þá var Sævar
sakaður um mannréttindabrot fyrir
að gefa aðeins grunnskólanemum
gleraugu en ekki öllum leikskóla-
börnum.
„Margir voru ósáttir við að gler-
augun skyldu seljast upp. Þá var
ákveðinn hópur öskureiður yfir því
að leikskólar fengju ekki gleraugu
fyrir öll leikskólabörnin. Hugmyndin
var einfaldlega sú að börnin myndu
skiptast á líkt og tíðkast alls staðar
í heiminum þegar svona viðburðir
eru,“ segir Sævar.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn
þá var þetta mjög erfitt, sérstaklega
vikuna fyrir sólmyrkvann, eins og til
dæmis að heyra hvernig hlakkaði í
sumum sem vonuðust til að þetta
myndi falla um sjálft sig og að þurfa
að þola aðkast fyrir eitthvað sem átti
sér enga stoð í raunveruleikanum.
Mig langaði stundum að skríða ofan
í holu og deyja. Síminn stoppaði ekki
og áreitið var svakalegt.“
Þrátt fyrir allt sem á undan gekk
segir Sævar að augnablikið, þegar
sólmyrkvinn brast á, hafi verið stór-
kostlegt. Veðrið var með besta móti
en það sem stendur þó helst upp úr
varðandi daginn, að mati Sævars, er
að börn á öllum aldri fengu tækifæri
á að fylgjast með einstökum náttúru-
viðburði.
Gæsahúð í almyrkva
Sævar er ekki trúaður en segir náttúr-
una og alheiminn gefa sér andagift.
„Jörðin er svo tignarleg og það er al-
veg augljóst að það er eitthvað stærra
þarna út. Ég útiloka ekki að það hafi
verið einhver skapari, en ég trúi ekki
á það sjálfur.“
Fyrr á árinu fór Sævar til Indó-
nesíu til að fylgjast með almyrkva á
sólinni. „Það er það fallegasta sem ég
hef séð og ég fæ enn gæsahúð þegar
ég hugsa um það. Almyrkvi er eitt-
hvað sem allir ættu einhvern tímann
að upplifa.“ Þá segir hann muninn á
almyrkva, þegar tunglið skyggir 100
prósent af yfirborði sólarinnar, og
deildarmyrkva, þegar sólin skyggir á
hluta af yfirborðinu, eins og dag og
nótt.
„Við fáum næst að upplifa þetta á
Íslandi þann 12. ágúst 2026. Þá geng-
ur almyrkvaslóðin yfir Vestfirði, Snæ-
fellsnes og Reykjanes. Það verður
gósentíð hjá okkur í ferðamennsk-
unni. Mörg þúsund manns munu
leggja leið sína til Íslands til að fylgj-
ast með,“ segir Sævar og bætir við:
„Mín skilaboð til fólks eru: Fáið
ykkur gleraugu tímanlega.“
Fastur í foreldrahúsum
Þrátt fyrir að Sævar sé orðin hálf-
gerð þjóðargersemi þegar kemur að
miðlun á undrum alheimsins og vís-
indum almennt þá glímir hann við
sömu vandamál og svo margir aðrir
af þúsaldarkynslóðinni.
„Ég er í nákvæmlega sömu spor-
um og mjög stór hluti af minni kyn-
slóð. Ég er fastur í foreldrahúsum.“
Eftir að slitnaði upp úr sambandi
Sævars og Ingu Rúnar neyddist hann
til að flytja aftur heim til foreldra
sinna þar sem hann hafði ekki efni á
að kaupa sér íbúð.
„Því miður virðist draumurinn
um að eignast eigið húsnæði fjar-
lægjast frekar en hitt. Það er ekki
möguleiki að eignast íbúð á næst-
unni, sem er mjög erfitt. Eins og allir
í mínum sporum þá þrái að eiga mitt
prívatlíf.“
Þá þykir Sævari hart hvað laun eru
í litlu samræmi við íbúðaverð sem
hækkar meira með hverjum deginum
sem líður. „Það er líka ástæða þess að
maður vinnur svona mikið. En það
gengur óskaplega hægt að safna.
Þetta er svolítið eins og að hlaupa í
maraþoni en endamarkið fjarlægist
hraðar eftir því sem maður hleypur
lengra.“
Sævar bendir á að ýmislegt þurfi
að breytast svo ungt fólk finni löngun
til að festa rætur á Íslandi. „Ég er
mjög sár yfir því hversu lítið var talað
um það af alvöru, fyrir kosningarnar,
hvernig eigi að leysa þau vandamál
sem tengjast því að vera ungur á Ís-
landi í dag.“
Hann kveðst sjálfur oft hafa velt
því fyrir sér að flytja úr landi. „Það
þarf ýmislegt að breytast svo hægt
sé að lifa sómasamlegu lífi hérna. En
ég er til í það. Mig langar að breyta
því svo ég, og margir aðrir í minni
stöðu, finni löngunina til búa á Ís-
landi.“
Mikilvægt að auka
atvinnumöguleika
Þá segir Sævar það mjög mikilvægt
að auka atvinnumöguleika ungs
fólks, til dæmis á vísindasviði. „Í síð-
ustu viku var ég staddur á ráðstefnu í
Hollandi. Þar hitti ég marga kollega
mína sem taka þátt í alþjóðlegum
vísindaverk efnum, til dæmis á veg-
um Geim vísindastofnunar Evrópu.
Þessi verkefni standa okkur ekki til
boða vegna þess að við erum ekki
hluti af þessu stóra vísindasamstarfi
og erum þar af leiðandi að fara á mis
við svo mikið.“
Þá leggur Sævar til að Ísland
gangi til liðs við stofnunina ekki að-
eins til að leggja sitt af mörkum í al-
þjóðasamstarfi heldur til að sýna
gott fordæmi. „Sleppum líka olíunni.
Reynum frekar að leggja áherslu á
endurnýjanlega orkugjafa og verðum
fyrirmyndarþjóð.“
Þá leggur Sævar til að auknu fjár-
magni verði varið í háskólana. „Þar
byrja allar rannsóknirnar og þar
menntum við, meðal annars, grunn-
og leikskólakennara. Ef við ætlum að
halda áfram að slaka á þar þá á það
eftir að enda illa.“
Stjörnuskoðun
Bókin Stjörnuskoðun fyrir alla
fjölskylduna kemur út í byrjun
nóvember. Í bókinni tekur Sævar
saman allt það sem honum þykir
áhugaverðast frá því að sólin sest og
þar til hún kemur upp aftur. Hann
vonar að bókin verði samverubók
fyrir fjölskylduna sem muni fyrir vik-
ið horfa meira upp til himins og velta
því fyrir sér hvað himingeimurinn
hefur upp á að bjóða.
„Ég var í allt sumar að skrifa
bókina og ég vona svo sannarlega
að henni verði vel tekið. Það sem ég
lagði helst áherslu á var að skrifa bók
sem ég sjálfur hefði viljað lesa þegar
ég var tíu ára.“
Börnin eru framtíðin
Sævar segir að ástæðan fyrir því að
hann leggi svo mikla áherslu á að
miðla upplýsingunum sem hann býr
yfir áfram til barna og unglinga sé
einfaldlega sú að börnin séu fram-
tíðin.
„Við viljum öll skapa börnunum
okkar góða framtíð. Besta leiðin til
þess, að mínu mati, er að gera þau
vísindalega læs svo þau geti tekið
stórar ákvarðanir á upplýstan hátt og
þannig skapað okkur velsæld og hag-
vöxt.“
Þá segir Sævar að meginmarkmið
hans sé að gera fólki grein fyrir hve
heimurinn er magnaður og benda á
hvað við ættum að vera miklu dug-
legri að skoða hann og njóta.
„Það er líka mjög mikilvægt að
glata ekki forvitninni. Mér finnst að
fólk ætti að ríghalda í þessa barns-
legu forvitni og vera óhrætt við að
spyrja spurninga og þora að taka af
skarið. Þannig sköpum við saman
betri heim til framtíðar.“ n
„Mín skilaboð til
fólks eru: Fáið
ykkur gleraugu tíman-
lega.
Fastur í foreldrahúsum
Vonar að ástandið lagist.