Morgunblaðið - 19.05.2017, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 19.05.2017, Blaðsíða 27
Þegar ég minnist Jóhönnu Kristjónsdóttur, samstarfs okk- ar og góðra kynna um langt ára- bil sækja orðin dugnaður og seigla á hugann. Jóhanna var af- kastamikill blaðamaður og rit- höfundur og áhrifa hennar gætti langt út fyrir þann starfsvett- vang. Og ekki gleymi ég orðinu dægilegur sem hún notaði oft. Það lýsti henni sjálfri vel. Sama dag og fréttin um andlát hennar barst fékk ég í pósti fal- lega endurútgáfu á bók hennar Á leið til Timbúktú – ferðaljóð sem hún vann að því að dreifa til hinsta dags eins og fylgjast mátti með á Facebook þar sem hún lét reglulega frá sér heyra. Sýnir þessi færsla frá 21. apríl það: „Fór í gönguferð sem væri ekki í frásögu fært nema af því þetta er mín fyrsta ganga svo vikum skiptir. Ánægð með sjálfa mig og bjástra við að færa inn heimilisföng. Munið að borga, krúttin mín, og senda heimilis- föng ef það hefur láðst. Sýnist ég þurfi að láta bæta við. Hrópum húrra fyrir því. Húrrrrrrra.“ Heimilisföngin þurfti hún til að geta sent kaupendum bókina í pósti. Kynningu og áskrifenda- söfnun annaðist hún sjálf á net- inu og salan gekk svo vel að stækka varð upplagið. Ágóðinn rann í Fatímusjóðinn sem Jó- hanna stofnaði til stuðnings börn- um og konum í Jemen. Ljóðin eru frá Kambódíu, Ví- etnam, Laos, Bangladesh, Líb- anon, Mósambik, Tógó, Búrkína Fasó, Zanzibar, Írak, Palestínu, Grikklandi, Hong Kong og Singa- púr. Þau gefa hugmynd um hve víðförul Jóhanna var og hve næmt auga hún hafði fyrir mann- lífi á stöðunum sem hún heim- sótti. Það hlýtur að hafa gengið nærri Jóhönnu að fylgjast með framvindu mála í löndum sem henni voru jafn kær og Jemen og Sýrland. Við unnum saman á Morgun- blaðinu þegar erlendar fréttir voru að jafnaði á forsíðu blaðsins. Við höfðum áhuga á ólíkum heimshlutum og málaflokkum. Blaðamenn fengu svigrúm til að sérhæfa sig og skrifa um þjóðir eða heimshluta sem vöktu sér- stakan áhuga þeirra. Jóhanna hoppaði yfir Evrópu og Banda- ríkin. Hugurinn beindist annað. Minnisstæðir eru gæðafund- irnir sem við blaðamenn á er- lendu deildinni héldum til að fara yfir skrif hver annars, efnistök og fréttaflutninginn almennt. Lá ekkert í augum uppi að Jóhanna sætti sig við að sitja þar við sama borð og nýliðar. Hún gerði það og lagði mikið og gott til mála. Tókst með okkur vinátta sem hélst til hinsta dags og fyrir hana þakka ég nú. Með Jóhönnu er genginn góð- ur vinur. Blessuð sé minning hennar. Björn Bjarnason. Við, íbúarnir í Skeljanesi 6, sitjum í kjallaranum Skeljahelli. Það er húsfundur með formanni Félags einstæðra foreldra og fleirum. Formaðurinn ritar fund- argerð og mér verður starsýnt á þessa konu og ég furða mig á hvað hún geti verið að skrifa svona mikið. Hún minnti ögn á stranga skólastýru. Þessi upp- hafshræðsla mín var ástæðulaus og seinna fór ég í hússtjórn ásamt henni og störfuðum við lengi saman. Þar var ýmislegt brallað, flóamarkaður í Skelja- helli alla laugardaga, fundir með íbúum og félagið eignaðist annað hús, svo að það var nóg að starfa. Þannig voru fyrstu kynni mín af Jóhönnu Kristjónsdóttur. Hefði ég ekki verið einstæð móð- ir hefði ég kannski aldrei kynnst henni og þá ekki heldur hinni Jó- hönnunni, þeirri í Arabalöndun- um. Eins og hún sagði reyndar sjálf frá í einni bókinni sinni, breyttist hún alltaf þegar hún kom þangað, varð mýkri, léttari og skemmtilegri. Ég eignaðist bækurnar sem hún skrifaði um öll þessi ferðalög. Þetta var svo framandi en jafnframt heillandi og svo óendanlega langt í burtu og á endanum stóðst ég ekki mát- ið og lagðist í ferðalög með henni. Það var gaman að ferðast með Jóhönnu. Hún undirbjó ferðir vel, hélt fundi með okkur og sagði okkur hvernig væri best að klæð- ast, bjó til lista yfir allt sem átti að taka með og var með allar ráð- leggingar á hreinu. Svo var alltaf búinn til listi yfir hver væri í hvaða stjörnumerki, hvaða stjörnumerki væri duglegast að ferðast o.s.frv. Svo var getraun í hverri ferð í hvaða stjörnumerki þarlendi fararstjórinn væri. Jó- hanna hafði ríka kímnigáfu en gat líka verið ströng – allir áttu að mæta á réttum tíma þegar lagt var að stað í ferðir. Ég veiktist í ferð 2004 til Líbanon og Sýrlands og lá veik á hóteli í Aleppo, hún geystist inn í herbergið, tók á enninu og fann að ég væri með bullandi hita, lét mig gleypa pill- ur og sagði mér að vera dugleg að drekka. Ég tel víst að hún hefði svipt af mér sænginni og stungið í mig hitamæli hefði hann verið við höndina. Öllum þessum ferðalögum fylgdi mikil gleði og kátína og sagðar voru sögur. Í flestum ferðalögunum vorum við þrjár sem fylgdumst að, Gulla Pé, Edda Ragnars og ég. Við höfum að auki verið duglegar að hittast ásamt Jóhönnu hér heima á milli ferðalaga og kölluðum við okkur Slúðurfélagið og þar var alltaf mikil gleði. Jóhanna spurði alltaf frétta af dóttur minni og sérstak- lega eftir að ömmubörnin komu. Við hittumst líka í ömmufélagi sem varð til hjá nokkrum vinkon- um úr Félagi einstæðra foreldra, í raun löngu áður en ég sjálf varð amma, líklegast fékk ég að vera með af því að ég var alltaf dugleg- ust að hóa saman hópnum. Með aldrinum met ég vináttu meira og aldur vinanna skiptir þar ekki máli. Jóhanna var að hefja búskap um það leyti sem ég fæddist, en það er fyrst nú við kveðjustund sem ég átta mig á þessum aldursmun og ég er óendanlega þakklát fyrir þessa vináttu. Börnum, barnabörnum, barnabarnabörnum og öllu tengdafólki sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Ég kveð kæra vinkonu með orðunum okkar: Blessuð væna, til lífs og til gleði. Þóra Jónasdóttir. Í dag kveðjum við eldhuga. Jó- hanna Kristjónsdóttir var ein- stök manneskja sem brann fyrir betri heimi. Það voru forréttindi að fá að taka þátt í því með henni að berjast fyrir réttindum barna. Að sjá hvernig Jóhanna virkj- aði fólk og fékk það í lið með sér var stórkostlegt. Hún og Fatímu- sjóðurinn gáfu tugmilljónir króna í gegnum UNICEF á Íslandi í hjálparstarf fyrir sýrlensk og jemensk börn í neyð. Jóhanna hafði einstaka nær- veru og það var alltaf upplífgandi og fræðandi að fá hana í kaffi til okkar á Laugaveginn. Hún var mikil sögumanneskja og það var heillandi að heyra hana tala um Sýrland og Jemen áður en átök brutust þar út, lýsa fyrir okkur menningu og mannlífi á þeim stöðum sem voru henni svo kærir og finna hversu innilega hún brann fyrir því að hjálpa öðrum. Okkur er minnisstætt þegar Jóhanna mætti í Ráðhús Reykja- víkur í fyrra í skákmaraþon son- ar síns, Hrafns Jökulssonar, sem haldið var til styrktar börnum frá Sýrlandi. Hún var þá nýkomin af sjúkrahúsi en lét sig ekki vanta, kom og spjallaði við gesti og gangandi og var afar umhugað um að söfnunin gengi vel. Hún lagði áherslu á að börnin frá Sýr- landi þyrftu á menntun og sál- rænum stuðningi að halda til að geta tekist á við það stóra verk- efni að byggja samfélagið upp á ný að stríði loknu. Hún gleymdi heldur aldrei hinni þöglu neyð í Jemen og veitti börnum þar ómetanlega neyðarhjálp. Ótal börn sem aldrei hittu Jó- hönnu Kristjónsdóttur eiga henni svo margt að þakka. Minn- ing hennar lifir með þeim. Við hjá UNICEF á Íslandi vottum fjölskyldu Jóhönnu okkar dýpstu samúð og kveðjum með söknuði kæran bandamann. Fyrir hönd UNICEF á Ís- landi, Bergsteinn Jónsson, Sigríður Víðis Jónsdóttir og Steinunn Jakobsdóttir. Það var ekki laust við að ný- græðingi í blaðamennsku þætti nokkur upphefð að vera skipað á bás með Jóhönnu Kristjónsdótt- ur á ritstjórn Morgunblaðsins í Aðalstræti í upphafi níunda ára- tugarins. Jóhanna hafði yfir- bragð hörkutóls. Hún fór um víða veröld og dygði annað ekki fékk hún sitt fram með þrjósk- unni, jafnvel þótt við óbilgjarna embættismenn einræðisríkja væri að eiga. Grænjaxlinum tók hún hins vegar með jafnaðargeði, gaf góð ráð og leiðbeindi og var góður félagi með kímnigáfuna í lagi. Jóhanna var í erlendum frétt- um. Í viðtalsbókinni í Hörðum slag, sem Blaðamannafélag Ís- lands gaf út, lýsir hún því að í upphafi hafi sér ekki litist á að fara í erlendar fréttir, en það hafi fljótt breyst. „Mér fannst vera aðdáunar- verður metnaður í bæði erlend- um og innlendum fréttum hjá Morgunblaðinu og það gerði þetta starf að alvörustarfi,“ segir hún í viðtalinu og bætir við að hún hafi haft ánægju af að skrifa erlendu fréttirnar: „Við í erlendu fréttunum þýddum ekki fréttir eins og sumir vilja vera láta. Við reyndum að finna merg málsins og fá hann fram.“ Sérsvið hennar varð Mið- Austurlönd og þekkti hún þar betur til en flestir aðrir Íslend- ingar. Á þessum slóðum hefur lengi verið róstusamt og harð- stjórar verið við völd. Það var ekkert sjálfsagt við að ferðast til Íraks í valdatíð Saddams Huss- eins eða Sýrlands undir Assad- feðgum. Óhætt er að segja að Jó- hanna hafi með skrifum frá ferð- um sínum þangað opnað Íslendingum nýja sýn á Mið- Austurlönd. Jóhanna var góður blaðamað- ur. Hún kom sér beint að efninu og stíllinn var laus við flúr og prjál. Hún hafði hins vegar auga fyrir umhverfi sínu og lýsingar hennar af samskiptum sínum við fólk á ferðum sínum gáfu grein- um hennar lit þannig að lesand- anum leið eins og hann væri kominn á staðinn og skilningur hans dýpkaði um leið. Og hún gat skrifað um hvað sem var, allt frá samskiptum við górillur í Rú- anda til viðtals við Benny Good- man. Ávallt reyndi hún „að finna merg málsins og fá hann fram“. Jóhanna var óhemju dugleg og afkastamikil, gekk vaktir fram á nætur og dró ekki af sér þótt hún væri einstæð móðir. Hún lét sér ekki nægja að skrifa í Morgunblaðið heldur fór um ára- bil á fætur fyrir allar aldir til að bera út blaðið og koma því í hendur lesenda. Elja hennar kom einnig fram í frumkvöðla- starfi hennar í forustu Félags einstæðra foreldra og síðar er hún setti á fót Fatimusjóðinn til stuðnings börnum í Sýrlandi og Jemen. Árið 1995 hætti Jóhanna störf- um á Morgunblaðinu eftir 28 ár og hélt á vit nýrra ævintýra í Sýrlandi, Egyptalandi og Jemen. Gátu lesendur Morgunblaðsins fylgst með ævintýrum hennar í reglulegum pistlum. Eftir fimm ára dvöl þar sneri hún aftur og hóf að bjóða upp á skipulagðar ferðir til Mið-Austurlanda. Í upphafi hélt hún að ferðirnar yrðu ein eða tvær, en þær urðu rúmlega 40 til 16 landa. Naut fjöldi Íslendinga góðs af leiðsögn hennar. Það var alltaf gott að hitta Jóhönnu og ræða við hana og mest sé ég eftir að hafa aldrei tekið áskorun hennar um að koma með í ferð til Mið-Austurlanda. Morgunblaðið þakkar Jóhönnu að leiðarlokum langt og farsælt samstarf og trausta vináttu og sendir fjölskyldu hennar innileg- ar samúðarkveðjur. Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri. Jóhanna Kristjónsdóttir var landskunn kona sem beindi öllum kröftum sínum hin síðari ár í þágu barna í fátækum og stríðshrjáð- um löndum. Við minnumst Jóhönnu Krist- jónsdóttur með miklum trega en þökkum um leið góða vináttu og samstarfið í stjórn Fatimusjóðs- ins sem hún stofnaði fyrir verð- launafé fyrir bókina Arabíukonur en bókin var eitt fjölmargra verk- efna Jóhönnu sem skiluðu til okk- ar Íslendinga lífi fólks í Miðausturlöndum. Þegar Jó- hanna vildi freista þess að fara í einhverskonar stórsöfnun fyrir sjóðinn fékk hún fjölda kvenna með sér í verkefnið sem varð eft- irminnilegur glæsimarkaður í Perlunni. Allar konur sem hún leitaði til sögðu já og voru tilbún- ar að ganga í öll verk. Viðbrögðin voru sterkur vitnisburður um Jó- hönnu. Það söfnuðust hátt í 20 milljónir króna í litla sjóðinn sem nú varð formlegur samkvæmt öll- um reglum og fyrir hennar atorku dafnað áfram. Við undir- ritaðar höfum skipað stjórn með Jóhönnu síðan þá. Jóhanna var skemmtileg kona með gott skop- skyn og það var alltaf gaman hjá okkur að hittast þó verkefnin byggðust á hörmulegum aðstæð- um. Maður fór betri manneskja af fundum í stjórn Fatimusjóðsins. Fjöldi kvenna og karla vildi styðja baráttu Jóhönnu fyrir betra lífi fátækra barna. Jóhanna hafði löngu áður stofnað ferða- klúbb um ferðir sínar til Miðaust- urlanda og margir meðlimir VIMA ásamt fjölda fólks tóku þátt í stóra fræðsluverkefninu hennar í Jemen og studdu barn til náms í fræðslumiðstöðinni sem Jóhanna var bakhjarl fyrir. Stjórn Fatimusjóðsins var með mikil áform varðandi fræðslu- starfið í Jemen og því áfall þegar landið lokaðist vegna stríðsátaka og miðstöðin lagðist af eins og allt skólahald í landinu. Mörg hundr- uð börn höfðu þá öðlast nýja lífs- sýn og vonandi framtíðarmögu- leika gegnum þetta hugsjónastarf Jóhönnu Kristjónsdóttur. Síðustu ár hefur stuðningi verið beint í ýmis sérverkefni sérstaklega gegnum Unicef en líka Rauða krossinn þar á meðal ýmis fræðsluverkefni og stuðnings- verkefni fyrir flóttabörn frá Sýrlandi, færanlega heilsugæslu þar, vatnsverkefni í Afríku og neyðarhjálp til barna á þessum svæðum. Þær okkar sem tóku þátt í ferðum Jóhönnu til Miðaustur- landa kynntust því hvað hún naut mikillar virðingar. Við fengum innsýn í líf fólks á þessu fjarlæga svæði og kynntumst árþúsunda menningu og menningar- verðmætum sem mörg hver eru nú eyðilögð. Á ferðum okkar mættum við alls staðar hlýju, gestrisni og velvild fólks sem nú býr við hörmulegt stríðsástand og erfið örlög. Og við búum ævilangt að þessari dýrmætu reynslu. Jóhanna, þessi netta grann- vaxna kona með hlýja brosið, á að baki óvanalegt og stórkostlegt lífshlaup. Við erum þakklátar fyr- ir að hafa fengið að taka þátt í störfum hennar í gegnum Fa- timusjóðinn og fyrir að hafa eign- ast vináttu þessarar einstöku konu. Blessuð sé minning hennar. Við vottum börnum Jóhönnu, barnabörnum og öðrum ástvinum innilega samúð. Rannveig Guðmundsdóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Guðlaug Pétursdóttir. Morgunblaðið/Ómar Börn í Sýrlandi og Jemen nutu góðs af kröftum Jóhönnu. Hér er hún ásamt Sigþrúði Ármann á markaði í Perlunni 2008 að safna fé til að reisa skóla fyrir fátæk börn í Jemen og efla konur. Jóhanna var formaður Félags einstæðra foreldra frá 1969 til 1984. Hér er hún stolt fyrir framan hús félagsins í Skeljanesi með íbúðum fyrir einstæða foreldra á hrakhólum. MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. MAÍ 2017

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.