Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Blaðsíða 100
99ETNÓGRAFÍSK ENDURNÝJUN ÍSLENSKRA SAFNA
Þingeyjarsýslum undir heiti sem undirstrikar breitt hlutverk stofnunarinnar
í samfélaginu.
Undir lok ársins 2010, tæpum tveimur árum eftir að síðasta ríkisstjórnin
sem aðhylltist opinberlega menningarstefnu nýfrjálshyggju fór frá völdum,
hefur ný ríkisstjórn hafið vinnu sem ber heitið 20/20 Sóknaráætlun og byggist
á „verkáætlun um hvernig best verði lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku
atvinnulífi og samfélagi.“31 Hér er að mörgu leyti byggt á fyrri menningarstefnu
en í ávarpi menntamálaráðherra á fundinum kom meðal annars fram að
ætlunin með fundinum sé að hafa samráð, sýna gegnsæi og að virkja lýðræðisleg
vinnubrögð. Í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar
græns framboðs, frá vordögum 2009, er hins vegar tekið sérstaklega fram að
„mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra
þá sem starfa að menningarmálum“32 og er vísbending um áherslubreytingu
frá því sem áður hefur tíðkast. Hér er megináherslan á samtalið milli aðila á
menningarsviðinu, en ekki á efnislega þætti eins og hverjar áherslurnar eigi
að vera við framsetningu á etnógrafískum aðstæðum Íslendinga eins og áður
hafði verið gert í skýrslunni um menningartengda ferðaþjónustu.
En hverju breytti þessi þróun með tilliti til etnógrafískrar söfnunar
á menningu Íslendinga? Það er af mörgu athyglisverðu að taka, en okkur
langar til að greina frá nokkrum verkefnum sem við teljum að sýni vel fram
á þá breytingu sem orðið hefur. Styrkir sem hafa verið veittir á grundvelli
menn ing arsamninganna fóru margir hverjir til þeirra safna sem til voru í
landinu, en fjármunum var einnig varið til nýrra verkefna sem söfn höfðu
ekki sinnt með sömu formerkjum. Sem dæmi má nefna að Menningarráð
Norðurlands vestra veitti styrki árið 2009 til verkefna á borð við útsaum á
refli sem setja átti upp í Textílsetri Íslands, endurnýjun sýningar á Selasetri
Íslands, til sýningagerðar við Sögusetur íslenska hestsins og Hafíssetursins, og
loks varðveislu minjasafns Kristjáns Runólfssonar.33 Allt eru þetta verkefni
sem hvert með sínum hætti slá nýjan tón frá því sem fyrir var. Textílsetrið
hefur aðsetur sitt á Blönduósi, í aflögðum kvennaskóla, og var stofnað árið
2005 með það meginmarkmið að „efla rannsóknir og menntun í textíliðnaði
og –handverki, á sviði klæðagerðar og í textíllistum.“34 Setrið hefur staðið
fyrir námskeiðum og ráðstefnum um textíl og er áberandi hversu stór þáttur
kvenna er í starfsemi þess. Selasetrið var stofnað árið 2005 á Hvammstanga og
hefur það að markmiði að efla náttúrutengda ferðaþjónustu, efla selaskoðun
og stuðla að rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland.
Að auki hefur setrið það að markmiði að „kanna möguleika á nýtingu
selaafurða og stuðla að varðveislu á verkkunnáttu tengdri selahlunnindum