Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Blaðsíða 121
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS120
uppgraftarsvæðinu. Þessi veggur gæti verið norðurendi byggingar 4 sem
Nørlund og Stenberger grófu fram árið 1932. Í skýrslunni frá 1934 kemur
fram að þeir áttu í erfiðleikum með að finna norðurgafl byggingarinnar og
er því þessi bygging talsvert stærri en áður var talið.10 Grjóthlaðinn veggur
lá í gegnum uppgraftarsvæðið frá norðri til suðurs og hvarf í sniðin beggja
vegna. Líklegt er að þessi veggur sé ekki hluti úr húsi heldur að hér sé um
að ræða einhvers konar garðlag. Á nokkrum stöðum var skráð grjóthrun úr
veggjum eða byggingum en ekki var hægt að staðfesta það frekar þar sem
byggingarnar eru fyrir utan uppgraftarsvæðið.
Dýrabein frá Ø29b
Öllum dýrabeinum var pakkað og þau flutt, með leyfi Þjóðminjasafns
Grænlands, til New York á beinarannsóknastofu í Hunter College,
City University of New York. Þar hafði prófessor Thomas McGovern
yfirumsjón með greiningu beinanna. Til samanburðar var bæði notast við
samanburðarsafn rannsóknarstofunnar sjálfrar og einnig samanburðarsafn
National History Museum í New York. Öll bein voru flokkuð eins og hægt
var. Flest brot úr landdýrum, þ.e. hryggjaliðir, útlimabein, o.s.frv. voru flokkuð
í þrjá meginflokka „stór landdýr“ (nautgripir/hestar), „meðalstór landdýr“
(kindur/geitur/svín) og „lítil landdýr“ (hundar/kettir/refir). Einungis bein
sem hægt var að flokka til tegundar með vissu voru sett í undirflokka, t.d.
kindur (Ovis aries), nautgripir (Bos taurus), svín (Sus scrofa), o.s.frv. Í þeim
tilfellum þar sem ekki var hægt að flokka bein í undirflokkana kind (ovis aries)
eða geit (Capra hircus) voru beinin flokkuð eftir ættbálki eingöngu: geit- og
sauðfé (Caprinae). Villt spendýr voru tegundargreind eftir því sem hægt var
en í mörgum tilfellum var eingöngu hægt að greina ættbálk eða ættkvísl, t.d.
var ekki hægt að greina hvali af nákvæmni vegna þess hve lítil brot af beinum
fundust og því voru þau öll sett í flokkinn hvalir (Catacea). Sömuleiðis var
hægt að greina fá selbein í viðeigandi flokka, þ.e. landselur (Phoca vitulina),
vöðuselur (Phoca groenlandica) eða blöðruselur (Cystophora cristata) og voru því
flest flokkuð í ættkvíslina selir (Phocidae). Beinin komu úr 22 öskulögum sem
voru flokkuð í 9 fasa eftir aldursgreiningu öskulaganna. Fyrstu tveir fasarnir
tilheyrðu tímabilinu frá 1932 – 1990 og því er ekki fjallað nánar um þá hér.
Fasi III tilheyrði 14. – 15. öld, IV seinni hluta 13. aldar, V fyrri hluta 13. aldar,
VI – VIII seinni hluta 11. til 12. aldar og IX fyrri hluta 11. aldar.11
Á meðal búfjárbeina voru bein úr nautgripum, kindum, geitum, hestum,
hundum og nokkur svínabein. Flest beinin eru úr kindum, geitum og