Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Blaðsíða 200
199HUGLEIÐINGAR UM VÍNLANDSDAGBÓK KRISTJÁNS ELDJÁRNS
fornleifunum að tala óháð sagnaarfinum, en þótti Helge þvinga niðurstöður
rannsóknanna í ákveðna átt. Þessi upplifun Kristjáns er eitthvað sem flestir
íslenskir fornleifafræðingar þekkja enda jafn auðvelt að detta ofan í þessa gryfju
nú og var þá. Þrýstingur frá fjölmiðlum um yfirlýsingar frá fornleifafræðingum
um stærstu, elstu, flottustu og merkustu minjarnar hefur síst minnkað.
Ævintýralegar og afgerandi túlkanir komast í fréttir en erfitt virðist að koma
því til skila að uppgröftur er aðeins fyrsta stig fornleifarannsóknar, við tekur
vinna sérfræðinga við greiningar, vinnsla teikninga, samanburður við aðrar
rannsóknir og eftir allt þetta er komist að niðurstöðu um eðli fornleifanna.
Hér er enn mikið starf óunnið fyrir íslenska fornleifafræðinga að kynna
fræðigreinina og eðli hennar fyrir almenningi.
Kristján var heldur ekki ánægður með að jarðfræðingur sem átti að
vera til staðar allan tímann fór þegar Íslendingarnir komu á staðinn, auk
þess var enginn sér fræðingur í inúíta forn leifa fræði í uppgraftarhópnum sem
var sérlega óheppi legt í ljósi þess að á svæðinu var mikið af inúítaminjum.
Vegna þess hve óljósar norrænu minjarnar voru enn þetta sumar og þess
að enginn rannsóknarmanna þekkti inúítaminjar vel, fannst Kristjáni erfitt
að taka afdráttarlausa afstöðu til þess hvort smiðjan sem hann tók þátt í að
grafa upp væri norræn eður ei. Eftir komuna aftur heim til Íslands vildi
Kristján sem minnst segja um niðurstöður uppgraftarins, hann var ekki enn
sannfærður um að þarna væru á ferðinni norrænar minjar. Ingstad hjónin
fóru aftur til L‘Anse aux Meadows sumarið 1963 en Kristján sat heima. Það
sumar fundust norrænir gripir við uppgröftinn, byggingarnar urðu skýrari og
í dag er ekki umdeilt að um sé að ræða minjar um veru norrænna manna í
Norður-Ameríku.
Eitt það helsta sem situr eftir við lestur dagbókar Kristjáns er mikilvægi
þess að vísinda- og fræðimenn gefi sér ekki niðurstöður rannsókna
fyrirfram. Gagn rýnin hugsun er mikilvæg á öllum stigum rannsóknar. Við
fornleifauppgröft geta mistúlkanir á vettvangi leitt til villna og misskilnings
sem illmögulegt getur verið að laga eftir á. Fornleifarnar þurfa að fá tækifæri
til þess að tala fyrir sig sjálfar. Nauðsynlegt er að sanna kenningar með sem
flestum mismunandi rann sóknar aðferðum, svo sem með hliðsjón af gerð
húsa, gerðfræði gripa, greiningum á dýrabeinum, skordýra- og plöntuleifum
og öðrum uppgraftargögnum. Allt eru þetta þræðir sem flétta þarf saman í
sterka heildarniðurstöðu.
Rannsóknin á L‘Anse aux Meadows var á sínum tíma og er að mínu mati
enn mjög lituð af rituðum heimildum. Kristján var sjálfur orðinn afhuga
þeirri nálgun á fornleifafræði á þessum tíma og því er eðlilegt að honum