Húnavaka - 01.05.2016, Blaðsíða 147
H Ú N A V A K A 145
Horfi ég ekki út um gluggann á burnirótina eða skeljarnar og ekki á
tölvuskjáinn, þá horfi ég stundum á gluggakistuna eða gluggavegginn. Í
gluggakistunni eru fimmtán endur; sumar úr tré, sumar úr leir, gleri eða
trjáberki. Ein er þannig, að sé blásið í þar til gert gat á afturendanum kemur
mjór tónn, því hún er ekki bara önd heldur jafnframt eintóna blístra. Þessi önd
er algjör undantekning. Fólk ætti almennt ekki að blása í afturendann á öndum
og síst alls ætti það að reyna að blása í rassinn á lifandi öndum, því frá-
blástursmáttur anda mun vera sterkari en manna. Þegar ég starfaði í Ráðhúsi
Reykjavíkur nokkur ár horfði ég úr glugganum mínum ofan á Tjarnarendurnar.
Þær voru orðnar svo værukærar af hveitibrauðsáti og velmegun að þær nenntu
ekki að synda með fótunum heldur skutu sér áfram með firnasterku þrýstilofti.
Í gluggakistunni er lítið leirlíkan af elsta húsinu á Akureyri, Laxdalshúsi,
sem einhver gaf mér þegar ég flutti þaðan. Þar fæddist hún Vilhelmína Lever,
eina konan sem greiddi atkvæði í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið
1863. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að teljast atkvæðisbær. Vilhelmína
Lever var brautryðjandi kona á margan hátt. Friðrik Danaprins, sem seinna
varð Friðrik sjöundi, var sendur til Íslands til að honum mætti batna
gegndarlaus kvensemin sem um hríð hafði hneykslað Kaupmannahafnarbúa.
Hann dvaldi þá á Akureyri og var svo lánsamur að fá að hvíla í faðmi
Vilhelmínu Lever nógu lengi til að finna þar þá þroskuðu munúð sem stillti
rótlaust hjarta hans og limi og nógu mikið til þess að hann gat - aftur heim
kominn - snúið sér að kóngsverkunum af sæmilegri einurð. Það var oft og með
ýmsu móti sem við Íslendingar máttum draga Dani að landi fyrr á tímum.
Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um gripina í gluggakistunni á herberginu
mínu heldur færa mig niður á gluggavegginn. Þar er lítil mynd, 12x20 cm í
tréramma. Á bláum grunni eru fjórar konur; þrjár þeirra bera kórónur en allar
geislabauga en þá fá ekki nema heilagar konur. Tvær eru í rauðum yfirhöfnum,
ein í blárri og ein í grænni. Tvær halda á krossi í hægri hendi, allar eru
alvarlegar, stóreygar, smámynntar og með roðablett í kinnum. Þessa mynd
keypti ég vorið tvö þúsund og sjö í bænum Kutaisi í Georgíu. Þó listamaðurinn
sem gerði myndina hafi haldið annað sá ég gjörla að konurnar á myndinni
voru heilög María, mamma mín, heilagar Margrét og Sigurbjörg, ömmur
mínar og heilög Anna frænka Þórðardóttir sem lengi bjó í Barmahlíð 23. Þetta
vor var ég á ferðalagi einn á hjóli austur í Kákasuslöndunum. Georgíumenn
voru bláskínandi fátækir þá sem nú og til þess að bjarga sér hirtu þeir lausajárn,
hvar sem þeir komu höndum yfir og seldu það í bræðslu suður til Tyrklands
fyrir einhverja aura. Út af fyrir sig mátti líta á þetta sem lofsverða sjálfs-
bjargarviðleitni, nema hvað þeir höfðu einnig tekið járnhlemmana úr
ræsisopunum á götunni. Í úrhellisrigningu varaði ég mig ekki á þessu, missti
framhjólið ofan í botnlausa holu, datt, bramlaði hjólið og lemstraði sjálfan
mig. Áður þann sama dag hafði hundkvikindi bitið mig í fótinn og með því að
tennurnar í georgískum hundum eru aldrei burstaðar var þetta áhyggjuefni. Í
ofanálag var jökulkalt, það snjóaði í Kákasusfjöllin og á nöturlegu
hótelherberginu þar sem ég fékk inni voru margar rúður brotnar. Ég skalf
næturlangt af kulda, hræðslu og einkum þó djúpri og einlægri sjálfsmeðaumkvun.
Morguninn eftir keypti ég þessa mynd af götusala. Á bakhliðina skrifaði ég