Húnavaka - 01.05.2016, Blaðsíða 184
H Ú N A V A K A 182
Á Balaskarði bjuggu þrjár kynslóðir kvenna, amma Signýjar og nafna,
Signý Benediktsdóttir, f. 1900, d. 1991 og Elsa, f. 1932, d. 2007, tvíburasystir
Geirlaugar. Konurnar sinntu búskapnum af elju og dugnaði en á okkar
mælikvarða við frumstæð skilyrði. Rafmagn var til að mynda ekki lagt þar fyrr
en í kringum 1974 - 1975. Signý var dýravinur og hugsaði vel um skepnurnar.
Hún setti gjarnan ljámýs undir kýrnar sem voru alla tíð handmjólkaðar.
Mjólkin var kæld í læknum á sumrin en grafin í
snjó á vetrum. Sveitin var afskekkt og oft erfitt um
samgöngur.
Signý sótti skóla í skólaselinu á Fremstagili í
Langadal og á Húnavöllum. Eftir að farið var að
keyra börnin daglega til og frá skóla bjó Signý
virka daga á Syðra-Hóli hjá hjónunum, Birni
Magnússyni og Ingunni Lilju Hjaltadóttur. Urðu
börn þeirra góðir vinir hennar þau, Anna Lilja,
Ingunn María og Magnús Jóhann, sem síðar varð
sambýlismaður hennar.
Hún fór í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og
var sögð góður námsmaður. En trygglyndi við
átthagana einkenndi Signýju öðru fremur og vildi
hún hvergi annars staðar vera en á Balaskarði. Þar var gestrisni mikil.
Gangnamenn gistu þar jafnan en þegar það lagðist af var fastur siður að koma
við og drekka morgunkaffið áður en farið var í göngurnar. Signý tók af alhug
þátt í gangnastörfum og réttum á haustin. Tíðum voru haldin spilakvöld á
Balaskarði og setið við borð í öllum vistarverum íbúðarhússins. Bókasafn
hreppsins var þar til húsa svo og lestrarfélag fyrir Laxárdalinn.
Signý las mikið og öðlaðist víðsýni, tilfinninganæmni og þekkingu á sögu
lands og þjóðar, þótt hún hafi ekki hleypt heimdraganum. Hún hafði einstaka
frásagnargáfu, gat teiknað upp í huga hlustanda landslag eins og sagan sagði,
þannig urðu myndirnar lifandi. Signý var skemmtileg og hnyttin í tilsvörum og
eftir því var tekið hversu minnug hún var. Hún var ábyggileg og traustur vinur
vina sinna. Hún var heiðarleg í samskiptum og hafði sterka réttlætiskennd.
Hún var 27 ára gömul er Gilla móðir hennar veiktist og tók hún þá við
búinu ásamt Elsu. Síðustu árin á Balaskarði bjó Signý ein og naut hún góðra
samskipta og hjálpar nágranna. Þá vann hún nokkur haust í sláturhúsinu á
Blönduósi.
Haustið 2006 bindast Signý og Magnús Jóhann Björnsson, f. 1969
tryggðarböndum. Hann á tvö börn, þau Björn Elvar f. 2002 og Stefaníu Dúfu
f. 2005. Signýju þótt afar vænt um börnin og mynduðust sterk tengsl vináttu.
Á Syðra-Hóli átti hún á fertugsaldri eftir að búa og eiga sínar dýrmætustu
hamingjustundir lífsins. Það skipti hana þó miklu máli að geta áfram sinnt
jörðinni og húsinu á Balaskarði.
Signý greindist með krabbamein í höfði árið 2011, hún gekk í gegnum
veikindi sín af æðruleysi og bjartsýni en varð að lúta í lægra haldi fyrir
sjúkdómnum. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Útför hennar