Morgunblaðið - 21.09.2017, Qupperneq 68
68 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. SEPTEMBER 2017
AF MYNDLIST
Aldís Arnardóttir
Safnasafnið á Svalbarðsströnd rétt
utan við Akureyri er einn af þeim
stöðum sem alltaf er jafn gaman
heim að sækja. Vakinn og sofinn
stendur hávaxinn bláklæddur mað-
ur vaktina fyrir utan hús en það er
verkið „Safnvörður“ eftir listahóp-
inn Huglist á Akureyri sem tekur
vel á móti gestum og gangandi.
Safnið var stofnað af hjónunum
Níels Hafsteinssyni og Magnhildi
Sigurðardóttur sem hafa í um 30 ár
safnað verkum eftir jafnt lærða
listamenn sem og þá sem af ein-
hverjum ástæðum eru utan við
meginstrauma myndlistar en allir
eiga það sameiginlegt að sinna
óheftri og frjálsri listsköpun.
Safnasafnið hefur verið starfrækt
frá árinu 1995 og var opnað í nú-
verandi mynd árið 2007. Á hverju
sumri opna nýjar sýningar ólíkra
listamanna en auk þess eru tveggja
ára sýningar á ýmsum munum úr
safneigninni auk fastasýninga.
Hvítum gifsverkum eftir
grunnskólabörn í Grenivíkurskóla
er stillt upp með verkum hins
þekkta listamanns Dieter Roths.
Áherslan á hið barnslega í sköp-
unarferli listmannsins er undir-
liggjandi í þeim verkum sem hér
eru til sýnis en þau koma bæði úr
safneign og hafa verið fengin að
láni frá Nýlistasafninu. Þar eru
meðal annars frumlegar sjálfs-
myndir sem sýna hnakkamynd
Óheftur sköpunarkraftur
Morgunblaðið/Einar Falur
Fórn Innsetning Hörpu Björnsdóttur, „Fórn“, samanstendur af ljósmyndum af limlestum styttum á evrópskum
söfnum og litlum leirverkum af kynfærum karla á bjöguðu taflborði sem myndar einhvers konar tímasveigju.
listamanns auk verka sem hann
teiknaði með báðum höndum sam-
tímis. Tilviljunin í sköpunarferlinu
sést einnig í bókverkum þar sem
Dieter skar niður afgangsefni sem
féll til í prentsmiðjum í Reykjavík
og notaði á nýstárlegan hátt.
Ævintýralegur heimur birtist í
verkum tveggja listamanna af
yngri kynslóðinni þar sem teflt er
saman litríkum málverkum Þor-
valdar Jónssonar og grágrýt-
isskúlptúrum eftir Matthías Rúnar
Sigurðsson. Þorvaldur hleður
mönnum og dýrum úr draum-
kenndri ævintýraveröld á mynd-
flötinn. Myndheimur hans er án
fjarvíddar og það er líkt og fígúr-
urnar svífi um í lausu lofti þar sem
áhorfandinn sér ekkert nema fram-
hlið myndefnisins. Í verkum Matt-
híasar Rúnars mætast fortíð og nú-
tíð, úr massífu efninu birtast
karakterar sem gætu allt eins kom-
ið úr tölvuleikjamenningunni eða
minna jafnvel á líkneski úr æva-
fornum menningarheimum.
Á efri hæð má sjá áhugaverðar
teikningar í eigu safnsins eftir
kvæðakonuna Ásu Ketilsdóttur frá
Laugalandi við Ísafjarðardjúp.
Hestar og ævintýraheimur þar sem
prinsar og prinsessur eru í aðal-
hlutverki eru helsta viðfangsefnið í
þessum verkum sem hún gerði á
unglingsárunum á símskeytaeyðu-
blöð.
Birta Guðjónsdóttir beinir
sjónum sínum að hinu kvenlega í
innsetningunni „Táknskilningur“
(2017), þar skoðar hún tengsl og
skynjun tákna og líkamans. Birta
teflir bæði fram litlum skúlptúrum
þar sem efniviðurinn tengist lík-
amanum, t.d. sápa, vikursteinn og
leir, ásamt ljósmyndum og teikn-
ingum af frumtáknum fortíðar.
Harðari og karllægari heimur birt-
ist í innsetningu Hörpu Björns-
dóttur, „Fórn“ (2017). Verkið sam-
anstendur af ljósmyndum af
limlestum styttum á evrópskum
söfnum og litlum leirverkum af
kynfærum karla á bjöguðu tafl-
borði sem myndar einhvers konar
tímasveigju. Karlmennskuímyndin
verður að skriðdrekum sem kalla
fram hugleiðingar um valdatafl, of-
beldi og stríð í nútíð og fortíð.
Auk þess að skoða verk fleiri
listamanna er hægt að tylla sér nið-
ur á bókastofunni og grúska í allra
handa fræðibókum um listir og
hönnun eða skoða arkíf um sýning-
arhald og rannsóknir á vegum
Safnasafnsins þar sem sköp-
unarkrafturinn flæðir óheftur.
Vetrarstarfið tekur nú við hjá
Safnasafninu en það er opið eftir
samkomulagi fyrir hópa út sept-
ember en opnar svo aftur snemma
næsta sumar með nýjar og for-
vitnilegar sýningar.
»Hvítum gifs-verkum eftir grunn-
skólabörn í Grenivík-
urskóla er stillt upp með
verkum hins þekkta
listamanns Dieter
Roths.
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Hin þrítuga en þó síunga hljómsveit
Nýdönsk sendi frá tíundu hljóðvers-
skífuna, Á plánetunni jörð, 13. sept-
ember sl. og heldur á laugardags-
kvöld tvenna tónleika í Eldborgarsal
Hörpu þar sem bæði verða leikin lög
af henni sem og
eldri og sígild lög
sveitarinnar. Ís-
lensk-kanadíski
tónlistarmaðurinn
Lindy Vopnfjörð
kemur fram á tón-
leikunum með
Nýdanskri og leikur með sveitinni og
syngur, auk þess sem nokkur af lög-
um hans verða flutt á þeim.
Upptökur á plötunni fóru að hluta
til fram í Toronto í Kanada en viðbót-
arupptökur og hljóðblöndun á Ís-
landi. Að þessu sinni er strengjasveit
í burðarhlutverki og telst það heldur
óhefðbundin leið í útsetningum hjá
þessari ástsælu hljómsveit sem stofn-
uð var árið 1987 og hefur starfað
óslitið síðan. Haraldur V. Svein-
björnsson sá um að skrifa út strengi
og allir meðlimir Nýdanskrar lögðu
til efni á plötunni.
Burt frá amstri dagsins
„Við kunnum okkar part en þurf-
um að bæta við strengjum og Lindy
þannig að við þurfum að æfa, það er
allt á fullu bara,“ segir Stefán Hjör-
leifsson, gítarleikari Nýdanskrar,
spurður að því hvernig æfingar gangi
fyrir tónleikana. En hvernig gengur
hinum önnum köfnu hljómsveitar-
meðlimum að koma saman, semja,
taka upp og æfa? „Það getur oft
reynst erfitt að koma þessum hópi
saman, allir erum við uppteknir og á
þvælingi út og suður, enda er þetta
ekki okkar aðalstarf. Þetta er meira
hobbí hjá okkur og góður fé-
lagsskapur,“ svarar Stefán. Þeim tak-
ist það þó með góðri skipulagningu og
þá langt fram í tímann. „Síðan höfum
við gert það í seinni tíð þegar mikið
liggur við, plötuupptökuvesen, þá för-
um við eitthvað í burtu, til útlanda
gjarnan eins og við gerðum núna. Það
hefur reynst okkur best, þá búum við
saman og erum saman allan sólar-
hringinn, að vinna saman. Það er okk-
ar leið til að sleppa burt frá amstri
dagsins.“
– Og það hefur væntanlega einhver
áhrif á útkomuna?
„Jú, það er í raun og veru allt ann-
að. Það gerist alltaf eitthvað þegar
við komum saman, við erum frekar
ólíkir í eðli okkar en alltaf þegar við
komum saman gerast einhverjir
töfrar.“
Moll-blús varð að diskósmelli
Stefán segir vinnubrögðin nú mið-
að við þau sem voru stunduð fyrir
tæpum 30 árum, þegar fyrsta platan
kom út, ekki svo ólík. „Við hittumst
og æfum, menn koma með sínar hug-
myndir inn á borð og við eigum til að
taka þær alveg í sundur, í öreindir og
setja saman aftur og það kemur ein-
hver allt önnur útkoma. Dæmi um
það er „Nýr maður“ af plötunni sem
kom út í fyrra sem var moll-blús í ¾
sem endaði sem diskósmellur. Þannig
að það getur ýmislegt breyst. En við
æfum gjarnan og það eina sem hefur
breyst er að við erum aðeins minna
tilbúnir þegar við förum í hljóðverið. Í
gamla daga vorum við búnir að æfa
allt vel og tókum upp hratt en í seinni
tíð fílum við betur að eiga eitthvað að-
eins eftir. Það kannski helgast líka af
því að við förum þarna út og viljum
aðeins sjúga í okkur andrúmsloftið,“
segir Stefán.
Hvað aðkomu strengjasveitarinnar
varðar segir Stefán að hljómsveitina
hafi lengi langað að taka upp plötu
með strengjasveit. Nú hafi hún
ákveðið að slá til enda tíunda hljóð-
versplatan og 30 ára afmæli sveit-
arinnar. „Okkur fannst við hæfi að
láta verða af þessari strengja-
hugmynd og við viljum gera eitthvað
ólíkt því sem við höfum gert áður,“
segir Stefán. Nýdönsk hafi leigt
heimili kanadísks tónlistarmanns í
Toronto, þriggja hæða hús, og tekið
upp trommuleikinn og grunnana í
eldhúsinu, gítarleik í svefnherberginu
og annað í hljóðveri í húsinsu. „Þetta
voru vinnubúðir með upptöku-
möguleika,“ segir Stefán. Strengjum
hafi verið bætt við á Íslandi síðar.
„Við fengum Harald Vigni Svein-
björnsson til að útsetja og vorum allt-
af meðvitaðir um það frá upphafi að
við vildum ekki gera of mikið. Við tók-
um upp grunnana og skildum eftir
mikið pláss fyrir hann til að útsetja
strengi og setja ofan á þetta. Þannig
að Haraldur á mikinn þátt í hinni
endanlegu útkomu.“
Óhræddir
– Þetta er „mjúk“ plata, ef svo
mætti segja?
„Já, hún er það, lágstemmdari en
margt sem við höfum gert áður. Við
leyfum okkur kannski aðeins meira,
það eru lög á þessari plötu sem hefðu
ekki farið á fyrri Nýdanskrar-plötur
af því þau hefðu ekki passað alveg inn
í stemningu þess tíma. Nú erum við
óhræddari við að setja lög sem eru
kannski ekki alveg í okkar anda,“
svarar Stefán.
Daníel Ágúst Haraldsson og Björn
Jörundur Friðbjörnsson semja sem
fyrr lagatexta og spurður að því hvort
einhver breyting hafi orðið á þeim
kveðskap segist Stefán ekki vera rétti
maðurinn til að svara því. „Ég veit
ekki hvort þeir eru að breytast eitt-
hvað en ég held að þeir séu bara að
þroskast eins og annað í kringum
okkur,“ segir hann.
– Það er alltaf stutt í grínið?
„Já, stutt í grínið og tvíræðni.“
„Greatest hits“ eftir hlé
– Verðið þið með leikræna tilburði í
Eldborg, eitthvert „show“?
„Við ætlum að spila nokkur lög af
plötunni fyrir hlé og þar verður
strengjasveit með okkur. Við tökum
líka eldri lög með strengjum og það
er búið að stilla upp skemmtilega, við
verðum með flotta sviðsmynd og það
verður mikið lagt í ljósin, eins og oft
áður en það eru nýir hlutir að gerast
þar. En það verður ekki að öðru leyti
neitt „show“, þannig séð. Eftir hlé
spilum við „greatest hits“ og spjöllum
á milli laga. Þannig að ég myndi ekki
kalla þetta „show“ en þetta verður
fallegt á að líta og hlýða.“
Stefán segir að lokum að hljóm-
sveitin sé rígmontin yfir plötunni og
spennt fyrir helginni.
Nýdönsk Ólafur Hólm, Daníel Ágúst Haraldsson, Stefán Hjörleifsson, Jón Ólafsson og Björn Jörundur Friðbjörnss.
Rígmontnir og spenntir
Nýdönsk fagnar þrítugsafmæli og nýútkominni hljómplötu með tvennum tónleikum í Hörpu
„Lágstemmdari en margt sem við höfum gert áður,“ segir Stefán Hjörleifsson um plötuna