Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.03.2018, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.03.2018, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.3. 2018 Þ að er ekkert hlaupið að því að taka viðtal við konu sem býr hinum megin á hnettinum en með hjálp tækninnar tekst það að lokum. Það er nefnilega þannig að þegar við Íslendingar erum um það bil að leggjast til hvílu er Christina Simons að vakna til vinnu, degi á undan okkur. Í Melbourne í Ástralíu býr hinn hálfíslenski ljósmyndari sem nýlega komst á virtan tíu manna stuttlista í „Disco- very“ flokki atvinnuljósmyndara hjá Sony World Photography, en úrslit verða gerð kunn í apríl. Í fyrra lenti hún í öðru sæti í sömu keppni í flokknum Daglegt líf og var það í fyrsta sinn sem Íslendingur komst þar á lista. Það er því heldur betur afrek að komast þar á blað tvö ár í röð. Nafnið á listanum gaf ekkert upp um upp- runann en þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna var Íslendingur á ferð. Móðir hennar, Sigrún Simons Magnúsdóttir, býr hér á landi, en bandarískur faðir, Dr. George W. Simons III er látinn. Christina tók vel í viðtal og kom það fljótt í ljós að þessi heimskona er mikill Ís- lendingur í hjarta sínu. Íslensku ræturnar sterkastar Hún er fædd í Seattle, Washington árið 1974 en ólst að mestum hluta upp í Wisconsin-fylki. Þó með viðkomu á Íslandi nánast á hverju ári, 3-5 mánuði í senn, alla barnæskuna til sextán ára aldurs. Christina segir að sér finnist hún nánast vera alin upp á Íslandi, en frá 16-18 ára aldri var hún í heimavistarskóla í Colorado og fór þá ekki til Íslands á þeim árum. Átján ára gömul flutti hún alfarin frá Bandaríkjunum til London og nokkrum árum síðar fluttu foreldrar hennar til Íslands. Í dag býr Christina í Melbourne ásamt áströlskum eiginmanni og fjögurra ára gömlum syni, en hún kemur oft heim til Íslands að heimsækja móður sína og ættingja. Finnst þér þú vera íslensk? „Ég spyr mig frekar að því hvar ég eigi heima, hvar ég tilheyri. Í hvaða box passa ég? Þetta er dálítið erfið spurning því mér finnst ég alls staðar vera dálítið utanveltu,“ segir Christina. „Fyrir utan þá staðreynd að vega- bréf mitt er íslenskt, þá finnst mér í hjarta mínu ég vera íslensk. En þegar ég er á Íslandi finnst mér ég ekki vera jafn íslensk og allir aðrir. Ég gekk ekki menntaveginn hér og ís- lenskan mín þróaðist ekki áfram eftir að barn- æskunni lauk,“ segir Christina en við höfðum sammælst um að viðtalið færi fram á ensku. „En mér finnst ég hafa alist hér upp og það skiptir mig máli og hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag,“ segir hún. „Mér finnst ég alls ekki vera bandarísk og ég er heldur ekki áströlsk þannig að það má segja að íslensku ræturnar séu sterkastar,“ segir hún og segist eiga yndislegar æskuminn- ingar frá Íslandi. „Ég man eftir mér fyrst hlaupandi frjáls um Þingholtin í kringum Hallgrímskirkju með vin- um mínum, jafnvel bara fimm ára gömul. Ísland bauð upp á þetta endalausa frjálsræði sem ekki finnst annars staðar og það hefur haft áhrif á mig og gert mig sjálfstæða. Ég lifi eftir þeirri lífsreglu að kanna og skoða heiminn með for- vitni og af ákveðni. Nokkuð sem er innprentað í fólk sem er sjálfstætt,“ segir Christina. Hún rifjar einnig upp tjaldútilegur á Þing- völlum og í Grímsnesi þar sem sérstæð náttúra Íslands hafði djúpstæð áhrif á hana. „Þarna stóð ég fyrst frammi fyrir hrárri feg- urð landsins, einstakri birtunni og dramatísku landslagi Íslands. Það vakti ást mína á náttúru og opnaði augun mín fyrir hinu óvenjulega, hinu skrítna og dásamlega.“ Metnaður og mannúð Segðu mér aðeins frá foreldrum þínum. „Mamma var heimavinnandi húsmóðir. Hún hvatti mig alltaf til að fylgja draumum mínum og hlusta á hjartað,“ segir Christina og bætir við að móðir sín hafi haft mikinn metnað til að stúlkan myndi mennta sig á ýmsum sviðum. „Ég lærði frönsku, spænsku, þýsku og jap- önsku þótt ég muni lítið af því síðastnefnda. Svo lærði ég á píanó, fiðlu, var í ballet, fim- leikum, söng og leiklist. Listinn er endalaus. Það gerði mig óhrædda að prófa nýja hluti. Ég fór mínar eigin leiðir og þótt mamma reyndi að tala við mig á íslensku þá tók ég ekki vel í það. Hins vegar lærði ég svo íslenskuna með því að hlusta á fjölskyldumeðlimi tala saman og einn- ig þegar ég lék mér við íslenska vini,“ segir Christina. „Pabbi minn heitinn var læknir sem sér- hæfði sig í að laga klumbufætur hjá börnum. Það er hann sem vakti áhuga hjá mér á mann- úðarstörfum. Hann ferðaðist um víða veröld, hélt fyrirlestra og mætti á læknaþing. Hann tók okkur gjarnan með og kynntist ég þá öðr- um menningarsvæðum,“ segir hún. „Ég á ljóslifandi minningu um það þegar pabbi fékk bréf frá manni sem bjó í holds- veikranýlendu á Indlandi. Hann hafði látið ein- hvern annan skrifa fyrir sig bréfið þar sem hann hafði misst fingurna vegna holdsveik- innar. Faðir minn hafði lagað fót dóttur hans, án þess að taka greiðslu fyrir. Maðurinn var innilega þakklátur því nú gat dóttir hans lifað eðlilegu lífi og myndi geta séð fyrir fjölskyld- unni. Faðir minn grét þegar hann las bréfið. Á þeirri stundu vissi ég að það að hjálpa fólki og breyta lífi þeirra væri líklega ein stærsta gjöf sem við gætum gefið.“ Að skilja heiminn betur Christina valdi að gera ljósmyndun að lífs- starfi sínu og liggur ástríða hennar í heimilda- ljósmyndun. Hvers vegna heimildaljósmyndun og hvern- ig sögur viltu segja með myndum þínum? „Ég er ekkert sérstaklega akademísk mann- eskja þannig að ég nota myndavélina til að túlka heiminn sem við lifum í,“ segir Christina Christina vann að verkefni á Haiti árið 2006 og hitti þar fyrir hressa götustráka. Hún hefur ferðast víða um heim með myndavélina. Myndavélin er mitt vegabréf Heimildaljósmyndarinn Christina Simons er komin í tíu manna úrslit í „Discovery“ flokki í ljósmyndasamkeppni hjá Sony World Photography fyrir ljósmyndaseríu sína frá Mið-Ameríku, en umsækjendur voru yfir 300 þúsund. Christina er íslensk í móðurætt, bandarísk í föðurætt en býr nú í Ástralíu. Sem barn dvaldi hún mikið á Íslandi og segir það hafa mótað sig sem manneskju. Christina ferðast víða um heim til að skrásetja sögur fólks með myndavél að vopni. Hún vonar að myndir sínar hafi áhrif til góðs en mannúðarmál eru henni hugleikin. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.