Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.03.2018, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.03.2018, Blaðsíða 18
ÚTTEKT 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.3. 2018 Þ að slær mann hversu lítinn stuðning kerfið býður fólki, það er óhóflega löng bið í öll úrræði og margir að- standendur eru búnir á sál og lík- ama þegar þeir fá loksins aðstoð. Ég hef séð allt of marga brotna algjörlega niður og gráta vegna aðstæðnanna sem þeir eru í,“ segir Steinunn Þórðardóttir, lyf- og öldrunar- læknir og doktor í læknavísindum, um ástandið í málefnum fólks með heilabilun. Steinunn er með sérfræðikunnáttu í heilabilunarsjúkdóm- um, með áherslu á alzheimer en fyrir nokkrum vikum varði hún doktorsverkefni sitt þar sem hún rannsakaði forstig alzheimers. Fyrir fjór- um árum flutti Steinunn til Íslands frá Svíþjóð þar sem hún lærði og starfaði. Steinunn starfar á minnismóttökunni á Landakoti, þar sem heila- bilunarsjúkdómar eru greindir, og á sjúkradeild en hún hefur alla tíð haft áhuga á öldrunarlækn- ingum. „Aldraðir eru skemmtilegur sjúklingahópur og ég fann fljótt hvað ég dróst að öldruðum sem einstaklingum. Sem öldrunarlæknir fær maður betri tíma með hverjum og einum sjúklingi en aldraðir eru með flóknari vandamál en þeir sem yngri eru, eru oft orðnir hægari og þurfa því meira svigrúm. Það er mjög gefandi að fá tæki- færi til að ræða við eldra fólk og átta sig á hvernig lífshlaup þess spilar saman við heilsuna. Ég sá fljótlega að það var sóknarfæri í mál- efnum aldraða. Þeir hafa almennt ekki fengið þá virðingu sem þeir eiga skilið innan heilbrigðis- kerfisins. Ég hugsaði að ef maður færi út í þetta væri mögulegt hægt að beita sér fyrir þennan hóp, sú afstaða og áhugi eykst bara þegar mað- ur áttar sig á aðstæðum fólks.“ Steinunn fór til Svíþjóðar 2008 í sérnám í öldrunarlækningum en á Karólínska sjúkrahús- inu eru rannsóknir á heilabilunarsjúkdómum af- ar öflugar. Bandaríkin og Svíþjóð þykja standa fremst í þeim fræðum. Í því umhverfi vaknaði áhugi Steinunnar á heilabilunarsjúkdómum. Af þeim fréttum sem hafa ratað í fjölmiðla síðustu árin, virðist sem staða fólks með heila- bilunarsjúkdóma og aðstandenda þeirra sé afar slæm. Stuðningur frá kerfinu lítill og aðstand- endur lenda í erfiðu umönnunarhlutverk, í jafn- vel nokkur ár. Steinunn segir að ástandið sé raunverulega eins slæmt og lýst er. Hvernig er ferlið þegar fólk greinist með heilabilunarsjúkdóm, hvað bíður þess? „Þegar ég hef greint einstakling með vitræna skerðingu á göngudeild, og þá hvort alzheimer eða annar sjúkdómur sé orsökin, fylgi ég við- komandi eftir á göngudeild á Landakoti, yfir- leitt þar til hann eða hún kemst að í því sem kallast sérhæfð dagþjálfun. Í Reykjavík og ná- grenni eru nokkrir staðir sem bjóða upp á dag- þjálfun en fólk kemst í hana þegar sjúkdóm- urinn er ákveðið langt genginn og er þar á daginn, í góðum höndum, fær þar mat og þjálf- un, andlega og líkamlega. Þá getur viðkomandi aðstandandi verið rólegri yfir daginn vitandi af sínum nánasta á öruggum stað. Þegar fólki hef- ur hrakað það mikið að dagþjálfunin gagnast því ekki er næsta skref hjúkrunarheimili. Vandamálið er hins vegar að öll þessi skref eru hæg og flókin. Biðin eftir að komast inn í dagþjálfun er um ár, jafnvel lengri. Ég var með sjúkling í síðustu viku sem hefur beðið í tvö ár. Þessir sjúkdómar eru þess eðlis að fólki versnar oft mikið á biðtímanum svo biðin er ekki góð. Hins vegar getum við læknar ekki sótt um dag- þjálfun fyrr en fólk er komið á þann stað að það þurfi þess virkilega með. Niðurstaðan er oft sú að þegar viðkomandi kemst í dagþjálfun er makinn örmagna og jafnvel hefur sjúklingnum hrakað þannig að hann er orðinn of lélegur fyrir dagþjálfunina og þarf að komast á hjúkrunar- heimili. Eftir því er önnur eins bið.“ Bið eftir dagþjálfun er mismunandi eftir sveitarfélögum en mjög mikil eftirspurn er eftir þjónustunni. „Sveitarfélögin hafa sinnt þessu misvel. Garðabær er til dæmis ekki með neina dagþjálfun sem er furðulegt. Í Garðabæ er stór árgangur fólks sem byggði það hverfi upp en er nú að eldast. Í stað þess að sá hópur fái þjónustu í sínu hverfi fáum við það fólk mikið inn til okkar eða það er sent í Hafnarfjörð.“ 123 prósent aukning á alzheimer Er hægt að notast við lyf við alzheimer? „Því miður eru þau úrræði ekki nógu góð. Lyfin sem eru í boði slá á einkenni en hafa ekki áhrif á sjálfan sjúkdómsganginn. Eins eru áhrif þessara lyfja einstaklingsbundin. Það er engin meðferð í boði í dag sem hægir á sjúkdóminum, hvað þá meðferð sem læknar eða fyrirbyggir hann. Aðrir lyfjaflokkar sem eru talsvert not- aðir í þessum sjúklingahópi eru róandi lyf og önnur geðlyf sem flest eru lítið prófuð hjá öldr- uðum eða fólki með heilabilun. Rannsóknirnar hafa aðallega verið gerðar á fólki með geðrænan vanda og yfirfærðar á þennan hóp, sem oft fer á þessi lyf vegna skorts á úrræðum. Heilabilunarsjúkdómum geta fylgt ofsjónir og ranghugmyndir, svokölluð geðrofseinkenni, sem einnig geta komið fram í alvarlegri geð- sjúkdómum. Í þessum tilvikum þarf stundum að beita sömu sterku geðlyfjum og eru notuð í sjúkdómum af geðrænum toga, sem ekki eru þróuð fyrir fólk með heilabilun. Eins eru þessi lyf neyðarúrræði til að slá á óróleika og árásar- hneigð hjá þessum sjúklingahópi, sem oft teng- ist ótta, óöryggi, verkjum eða annarri vanlíðan sem fólk með heilabilun á erfitt með að tjá. Lyfjanotkun af þessu tagi væri hægt að forðast að miklu leyti með góðri umönnun á vel mönn- uðum sérhæfðum deildum. Eins væri hægt að fyrirbyggja mikið af þessari lyfjanotkun með því að minnka það rót sem þessir sjúklingar verða gjarnan fyrir við flutning á milli mismun- andi deilda innan bráðasjúkrahússins. Þetta er staða sem er mjög erfitt að horfa upp á.“ Lyf eru að sögn Steinunnar oft eina úrræðið sem kerfið býður upp á til að starfsfólk geti sinnt sínu starfi. „Við getum verið með mjög veika ein- staklinga inniliggjandi, sem jafnvel beita aðra sjúklinga og starfsfólk ofbeldi. Þetta er því oft hættulegt starf. Margir sem þjást af heilabilun er líkamlega frískir og þar með sterkir, þannig að af þeim getur stafað raunveruleg ógn. Fólk hefur oft engan skilning af hverju það er statt á þessari deild, heldur jafnvel að það sé verið að gera því illt. Ég sem læknir stend frammi fyrir því að þurfa að gefa sjúklingnum róandi lyf og sterk geðlyf því við höfum ekki önnur úrræði, við höfum ekki mannskap til að geta haldið utan um starfið án þess að þurfa að nýta þessi lyf. Starfsfólk sem er fært í að róa sjúklinga með heilabilun með nærgætni og lagni getur gert kraftaverk í svona aðstæðum, en það er sjald- gæft að starfsfólk fái þjálfun í slíkri nálgun eða tímann sem oft þarf til að ná til sjúklingsins. Sumir sjúklinganna þyrftu helst manninn með sér nánast allan sólahringinn og það er ekki í boði. Við búum því við þessar aðstæður út af skorti á starfsfólki og úrræðum og á meðan stækkar sjúklingahópurinn bara og stækkar.“ En af hverju er sjúklingahópurinn að stækka svona mikið? Í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að sjúklingahópurinn tvöfaldist á tíu ára fresti. Milli 2000 og 2015 fjölgaði þeim sem létust úr hjartasjúkdómum um 11 prósent. Þeim sem lét- ust úr alzheimer fjölgaði um 123 prósent. Má yfirfæra þessar tölur á Ísland? „Já, það er ekki ástæða til að ætla að þetta sé mikið öðruvísi hér. Á undanförnum árum hefur mikið fé verið lagt í rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameinum og við erum oft á tíðum að ná góðum árangri í að lækna og fyrirbyggja þá sjúkdóma og lengja líf, sem er auðvitað mjög gott. Að sama skapi fer hlutfalls- lega lítið fé í rannsóknir á heilabilunarsjúk- dómum þannig að við erum að lengja líf fólks en ekki endilega að búa til aðstæður þannig að fólk geti notið þessa lengda lífs.“ Steinunn segir það afar gagnrýnivert að hér- lendis hafi stjórnvöld ekki mótað neina stefnu í málefnum fólks með heilabilunarsjúkdóma. „Það er lykilatriði að hafa að minnsta kosti stefnu, að vita hvernig við ætlum að bregðast við vandanum sem blasir við. Það er enginn að kortleggja þetta, enginn að fylgjast með fjölgun þessara sjúklinga, enginn að gera áætlanir fram í tímann. Frá því að ég hóf störf á Íslandi, 2014, hefur breytingin aðeins verið til hins verra, á að- eins fjórum árum. Þetta er ekki lengur spurn- ing um einhverjar framtíðarspár, hvort sjúk- lingum fjölgar, þetta er löngu byrjað að gerast.“ Af hverju vantar starfsfólk? „Við höfum misst margt gott fólk í önnur bet- ur borguð störf, það er vissulega uppgangur í samfélaginu og meðan launin eru eins og þau eru fáum við ekki fólk. Ég tek það þó fram að það er sem betur fer margt framúrskarandi fólk sem starfar með þessum sjúklingahópi, oft við erfiðar aðstæður vegna manneklu.“ Erum við verr stödd en til dæmis Svíar? „Sænska heilbrigðiskerfið er mun betur mannað og þeir hafa líka ákveðið kerfi fyrir aldraða sem þurfa þjónustu. Þegar sjúklingur er tilbúinn til útskriftar af sjúkrahúsi er sveitar- félag viðkomandi látið vita og það hefur aðeins sjö daga til að byggja almennilegt net í kringum viðkomandi, annaðhvort heima eða á hjúkrunar- heimili. Ef þetta næst ekki og sjúklingurinn er ennþá á spítalanum eftir þessa sjö daga, leggj- ast dagsektir á sveitarfélagið. Eins og þetta er hér á Íslandi erum við kannski með um 100 manns inni á spítalanum, sem bíða í lengri tíma eftir öðrum úrræðum. Heimahjúkrunin er líka á allt öðru stigi. Svíar hafa auðvitað tekið á móti innflytjendum í mikl- um mæli og það hefur skipt máli. Þegar hægri öfl í Svíþjóð fara að tala um að reka innflytj- endur úr landi, er þeim bent á að innflytjendur vinna fjöldann allan af störfum m.a. í heilbrigð- iskerfinu sem annars væri enginn til að sinna.“ Okkur vantar sem sagt fyrst og fremst fólk? „Bæði það en það þarf líka að lyfta þessum starfsgreinum á hærri stall og laða fleira hæft fólk til starfa í þessum málaflokki. Þetta er göf- ug vinna og það fólk sem starfar í þessu og get- ur með framkomu sinni og nálgun róað fólk nið- ur og fyllt það öryggi er ómetanlegir gullmolar. Þetta starfsfólk á að geta borið höfuðið hátt að starfa með þessum sjúklingahópi og séð það líka á launum sínum.“ Rannsóknir á aðstandendum fólks með heila- bilun sýna að heilsa þeirra getur vegna álags beðið hnekki. Vegna langrar biðar eftir dag- þjálfun og hjúkrunarheimilum eru aðstand- endur oft í þeirri stöðu að þurfa að hætta að vinna og leggja eigið líf til hliðar til að geta ann- ast til dæmis foreldra eða maka. „Fólk horfir upp á sinn nánasta hverfa sér, persónuleikann breytast og endar á því að þurfa að vakta hann allan sólarhringinn. Sumir deyja stuttu eftir að maki með heilabilun deyr, umönnunin hefur það þungbær áhrif. Það er ólýsanlegt að sjá sterkt fullorðið fólk sem hefur aldrei kvartað gráta af því það getur ekki meir. Það versta er að það eina sem ég get sagt er að ég finni til með þessu fólki og og skilji hvað það er að ganga í gegnum.“ Bið alls staðar Þegar fólk er orðið það lélegt að það þarf á hjúkrunarheimili að halda er farið með umsókn fyrir svokallaða færni- og heilsumatsnefnd sem fer yfir umsóknir um pláss þar. „Ég sem læknir þarf að skrifa langt vottorð um viðkomandi en nefndin ákveður hvort við- komandi sé nægjanlega veikur til að fá pláss á hjúkrunarheimili. Nefndin metur hvort búið sé að reyna að endurhæfa sjúklinginn nægilega vel og hvort búið sé að reyna önnur úrræði til fulls. Málið er hins vegar að fólk með heilabilun er oft mjög ákveðið og vill oft á tíðum ekki þiggja endurhæfingu, ekki einu sinni hvíldarinnlögn. Þegar kemur að því að sækja um pláss á hjúkr- unarheimili hefur það þar af leiðandi ekki full- reynt önnur úrræði og stuðning eins og gerð er krafa um og makinn borið þeim mun þyngri byrðar fyrir vikið. En vegna þess getur sjúk- lingurinn fengið synjun um pláss á hjúkrunar- heimili, þrátt fyrir að við læknarnir vitum að þetta fólk er ekki að fara að þiggja endurhæf- ingarúrræði og viðkomandi er haldinn þannig sjúkdómi að hann verður ekki betri. “ Hrópandi þörf fyrir aðgerðir Steinunn Þórðardóttir, lyf- og öldrunarlæknir hefur starfað með sjúklingum með heilabilun síðustu fjögur ár á Íslandi eftir að hafa lært og starfað í Svíþjóð. Hún segir stöðu fólks með heilabilanir og aðstandenda afar slæma hérlendis. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is ’ Fólk hefur jafnvel brugðið á þaðráð að fara með fólkið sitt ábráðamóttökuna og nánast skiljaþað þar eftir af því það er uppgefið.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.