Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.03.2018, Blaðsíða 34
Hugmyndin um landslag er alltaf nokkuðföst í mér – þetta eru mínar útgáfur aflandslaginu, mín málverk,“ segir
Ragna Róbertsdóttir þar sem við skoðum verk
hennar á sýningunni Milli fjalls og fjöru sem
verður opnuð í Nýlistasafninu í Marshall-
húsinu í dag, laugardag, klukkan 16. Í rúma
þrjá áratugi hefur Ragna verið afar virk við
sýningahald, bæði hér heima og erlendis, og í
nær þrjú hundruð blaðsíðna bók með um 160
myndum, Ragna Róbertsdóttir - Works 1984-
2017, sem var að koma út hjá þýska forlaginu
Distanz, er litið yfir feril hennar. Textann skrifa
þeir Markús Þór Andrésson og Gregory Volk.
Og á sýningunni í Nýlistasafninu er einnig
litið yfir ferilinn; þar eru til að mynda hleðslur
úr tilsöguðu hraungrýti sem gestir sáu á sýn-
ingum snemma á ferli Rögnu, útgáfur af hin-
um kunnu verkum úr vikri og gleri sem hún
límir upp á veggina, verk úr silfri sem mis-
mikið er fallið á, og sum þau nýjustu gerð úr
skeljabrotum sem raðað er á gólffleti, ígulkerj-
um uppi á veggjum og kristölluðum salt-
formum á hvítum eða svörtum grunni.
Þetta er í fyrsta skipti sem Ragna sýnir í
þessum nýju salarkynnum Nýlistasafnsins í
Marshall-húsinu en fyrsta einkasýning hennar
var hinsvegar árið 1986 í Nýló við Vatnsstíg.
„Svo var ég líka með einkasýningu í safninu
árið 1992, og þá í öllu húsinu. Á fyrstu sýning-
unni sýndi ég reipisverkin, eins og þetta
þarna,“ segir Ragna og bendir á verkið sem
tekur nú á móti gestum sem ganga í salinn. „Á
annarri sýningunni voru meðal annars steina-
verkin, eins og þessi.“ Aftur bendir hún og nú
á hlaðana úr tilsögðuðu hraungrýtinu.
„Rýmið í gamla Nýló var mjög fallegt og
gaman að setja verkin upp þar, og í minning-
unni er allt skemmtilegt við þann stað. En
þetta er líka mjög fallegur salur, og birtan er
mjög fín hér.“ Þess má geta að Ásmundur
Hrafn Sturluson arkitekt er hönnuður sýning-
arinnar og sýningarstjórar þær Þorgerður
Ólafsdóttir og Becky Forsythe.
Virkjar salinn
„Hér má sjá margt af því helsta sem ég hef
verið að fást við, smávegis af hverju, en
heildarútkoman skiptir mig þó mestu máli. Og
heildaryfirlit yfir verkin má sjá í bókinni,“ seg-
ir Ragna. Var kominn tími til að taka verkin
saman í slíkri bók?
„Já, mér fannst það mjög ánægjulegt. Þetta
var umfangsmikið verkefni en Arnar Freyr
Guðmundsson hönnuður hefur stýrt því vel og
fundið afar fínar lausnir.“ Og hún bætir við að
það hafi verið gaman að horfa til baka yfir fer-
ilinn og sjá verkin koma saman á einum stað.
Þegar spurt er hvort verkin á sýningunni
kallist beint á við bókina svarar Ragna að hún
hafi fyrst og fremst hugsað um að stilla þeim
upp svo rýmið virkaði. Hún byrjaði innst í
salnum, þar sem lofthæðin er tvöföld og stórir
gluggar sem snúa að höfninni. Þar setti hún
fyrst upp nær fimm metra hátt veggverk úr
vikri og svo annað afar hátt á vegginn úr gleri.
„Þá kom þetta neongula þarna sem ég kalla
„Nýtt landslag“. Það er úr akrýlögnum sem ég
hef unnið með frá 1999. Ég reyni að virkja all-
an salinn. Minnstu verkin set ég upp síðast.“
Grunnefnið í öllum þessum verkum má
segja að sé náttúran. Hvers vegna?
„Þannig hefur það bara alltaf verið hjá
mér,“ svarar Ragna og brosir. „Allt frá reip-
unum að hrauninu og vikrinum. Ég held að
vinnuna með vikurinn megi í raun rekja aftur í
æsku en þá fór ég oft með foreldrunum í úti-
legu inn á hraunbreiðurnar við Heklu þar sem
við gistum í tjöldum. Síðan hef ég verið hrifin
af þessum svörtu víðáttumiklu vikurbreiðum.“
Landslagsímynd – nýtt landslag
Segja má að Ragna hafi orðið þekkt fyrir að
endurskapa þessar vikurbreiður, í misstórum
vikurverkunum sem hún setur upp á veggi.
„Ég hef sýnt mikið af slíkum verkum er-
lendis,“ segir hún „Þar hefur hjálpað að það er
tiltölulega auðvelt að taka efnin með sér, jafn-
vel þótt sum verkanna hafi orðið mjög stór og
tekið heilu salina. Það getur verið virkilega
erfitt líkamlega að setja þessi stóru verk upp.“
Þess má geta að einkasýningar með verkum
Rögnu hafa verið settar upp víða, meðal ann-
ars í Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. En
þegar sýningum lýkur eru vikur- eða gler-
verkin skafin niður. Er sárt að sjá þau hverfa?
„Ekkert svo. Mér finnst þetta mjög eðlilegt
ferli – einstaka sinnum hefur mér þó fundist að
það hefði verið gaman að hafa þau lengur uppi.
Nú eru nær engin svona verk sýnileg á opin-
berum stöðum hér á landi; eitt er í Safnahús-
inu og átti að vera uppi í fimm ár. Einhver eru í
heimahúsum.
Svo hef ég sett mörg slík verk upp erlendis
og einhver þeirra eiga að vera varanleg.“
Mörg síðustu ár hefur Ragna verið búsett í
Berlín hluta ársins, hefur hún haldið áfram að
vinna þar í sömu efni?
„Ég vinn þar líka jafnt og þétt en þaðan
kemur til að mynda akrýlefnið. Ég kynntist
því þegar ég var með vinnustofu í Stuttgart ár-
ið 1999. Ég hef hugsað það sem einskonar
ímynd sólar, norðurljósa eða slíks. Sem lands-
lagsímynd – nýtt landslag.“
Efniskenndin mikilvæg
Í mörgum nýjustu verkum Rögnu eru skelja-
brot og ígulker sem hún sækir til Arnarfjarðar
þar sem hún dvelur reglulega. Byrjaði hún
strax að safna þessum efniviði þar?
„Ég heilaðist strax af þessum olnbogaskelj-
um þegar ég sá þær þar í fjörunni, hef safnað
þeim síðan og hef virkjað fjölskylduna með
mér í því. Þegar ég er fyrir vestan tíni ég þær
nær daglega fyrir framan húsið hjá okkur;
maður finnur kannski fimm, sex á dag en þeim
hefur því miður fækkað.“
Skyldi það tengjast laxeldinu í firðinum?
„Ég veit það ekki en þetta er skrýtin breyt-
ing. Það er hryllilegt að hafa þetta eldi í firð-
inum og virðist engu skipta hvað barist er
gegn því. Þessum mönnum virðist alveg sama
hvað þetta gerir náttúrunni.“
Ragna bendir síðan á að ferlið við verkin
hennar geti verið langt og þar skipti söfnun
miklu máli, hvort sem er á skeljum eða vikri
sem hún sækir til að mynda að Heklu og þarf
síðan að sigta og flokka. „Og það er ánægju-
legur partur af verkunum,“ segir hún.
„Það sem ég geri sprettur oft út frá staðnum
sem ég er á á hverjum tíma, rétt eins og verkin
úr skeljunum og ígulkerjunum í Arnarfirði.“
Ragna er með bakgrunn í textíllist og það
hefur ætíð mátt sjá í verkum hennar að efnis-
kenndin sjálf skiptir hana máli.
„Já, hún skiptir mjög miklu máli, er stór
hluti af verkunum. Til dæmis í hraungrýtinu
hér. Þar skipta götin á steinunum máli en þeg-
ar ég byrjaði að gera þessi verk árið 1988 og
talaði við steinsmiðju, þá vann hún aðallega að
legsteinum sem alls engin göt máttu vera á.
Mennirnir þurftu að finna þessa steina sér-
staklega fyrir mig en nú eru svona götóttir
sagaðir steinar sjáanlegir um allt!
Eins er með verkin þarna úr saltinu, það
þarf nauðsynlega að sjá kristallana í þeim. Það
er mjög gaman að vinna þau verk, með
ákveðnu magni af salti og vatni sem þarf svo
að hemja á gleri – þau eru mjög sjálfstæð og
það er gaman að koma á vinnustofuna að
morgni, sjá vatnið gufað upp og verk orðið til.
Svo hef ég þá áráttu að þurfa að koma öllum
þessum efniviði í form; ég get ekki leyft efn-
unum að fara út um víðan völl. Ég verð alltaf
að hafa einhvern ramma.“
„Ég held að vinnuna með vikurinn megi í raun rekja aftur í æsku,“ segir Ragna Róbertsdóttir. Hún
er hér við hið stórt verk úr vikri, Hraunlandslag, 2018, á sýningunni í Nýlistasafninu.
Morgunblaðið/Einar Falur
„Mínar útgáfur af landslaginu“
Milli fjalls og fjöru er heiti sýningar með verkum Rögnu Róbertsdóttur sem verður opnuð í Nýlistasafninu í dag, laugardag.
Þar má sjá verk frá ýmsum tímabilum í sköpun hennar en nýverið kom út í Þýskalandi viðamikil bók um feril Rögnu.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
’ Svo hef ég þá áráttu aðþurfa að koma öllumþessum efniviði í form; ég getekki leyft efnunum að fara út
um víðan völl. Ég verð alltaf
að hafa einhvern ramma.
Nær er eitt af ónefndum verkum Rögnu frá
1989 og aftar sést í verkið Jökul, 2018.
LESBÓK Dísella Lárusdóttir sópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og BjarniFrímann Bjarnason píanóleikari koma fram á Tíbrár-tónleikum í Saln-
um á sunnudagskvöld kl. 20 og flytja senur úr dáðum óperum.
Óperukvöld í Salnum
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.3. 2018