Morgunblaðið - 14.07.2018, Blaðsíða 24
24 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. JÚLÍ 2018
Ífésbókarfærslu ekki alls fyrir löngu fjallaði GuðmundurAndri Thorsson um reynslu sína af þeim vistaskiptum aðvera kominn á þing eftir að hafa áratugum saman fengisteinkum við skáldskap og ritstjórn. Skáldskapinn hefur hann
þó vonandi ekki hér með yfirgefið. Hann ætti ekki að þurfa þess,
því svo vel ber í veiði að hans nýi vinnustaður býður upp á þau ein-
stöku hlunnindi að skáldhneigðum starfsmönnum veitist auk fullra
launa frí vinnustofa og óvenjuvel útilátið sumarfrí til að sinna rit-
störfum. Lesendur eiga því gott í vændum. Mættu fleiri vinnu-
staðir taka þetta sér til fyrirmyndar.
Um vistaskiptin komst Guðmundur Andri einhvern veginn þann-
ig að orði að í sínum fyrstu og hikandi tilburðum á þessu nýja sviði
hefði honum í öryggisleysi nýliðans jafnvel dottið í hug að líta til
reyndari starfssystkina og
leitast eftir megni við að
gera eins, herma eftir
þeim. Hann talaði um að á
því reynslutímabili hafi
hann einkum gripið til þess
ráðs að „leika, feika og
teika.“
Þessi romsa rifjaði upp fyrir mér að eitt sinn fyrir löngu safnaði
ég í kompu runum orða sem líkt og þessi tilfærðu orð þingmanns-
ins rímuðu hvert við annað en voru jafnframt sömu eða mjög svip-
aðrar merkingar: Juða / nuða / puða / suða / tuða. Nú eða bull /
drull / sull, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er meðal þess sem ég man í
fljótheitum, en því miður finn ég listana hvergi í bili, enda búinn að
brjóta og týna.
Margt af þessu er augljóslega byggt á hljóðlíkingum, bullið,
drullið og sullið fellur klárlega í þann flokk, einnig til dæmis sagn-
irnar að flissa / fyssa / pissa, og í sumum tilfellum, ef mikið gengur
á, gætu sagnirnar að kyssa og svissa jafnvel bæst í þann hóp. En
auðvitað er það líka þannig að mörg önnur orð ríma við þessi, eru
hljóðlík, án þess merkingin sé neitt svipuð. Við bull ríma slík verð-
mæti sem gull og ull, við flissa ríma til dæmis hissa / hryssa /
missa.
Ég skal reyna að tína til fleiri dæmi um rímorð sömu eða svip-
aðrar merkingar: Flaðra / daðra / smjaðra. Og áfram sérflokkur út
af fyrir sig á sömu nótum: Blaðra / slaðra / þvaðra. Kríli / síli,
mætti nefna. Einnig blíður / fríður / þýður. (Blíð stemmning en
lýsingarorðið stríður spillir henni reyndar).
Listarnir mínir yfir þessi orð voru reyndar miklu lengri og fjöl-
breyttari en hér hefur komið fram. Ég heiti því að ef mér tekst að
endurheimta þá muni ég skella (hella / smella) í eina kröftuga og
þétta þulu sem einvörðungu byggist á slíkum orðum.
Viðbrögð Guðmundar Andra á nýjum vettvangi voru reyndar
ekkert ótilhlýðileg heldur fullkomlega eðlileg. Þetta er bara það
sem skáldin gera alla daga, sjálfsagt vinnulag: Að leika sér með
orðin, feika allan fjandann (það er stundum kallað að skálda) og að
teika alla þá höfunda sem á undan hafa komið og við dáum.
Leika, feika og teika
Tungutak
Þórarinn Eldjárn
Morgunblaðið/Kristinn
Ívor kom út bók hjá bókaforlaginu Sæmundi umFornar ferðaleiðir í Vestur-Skaftafellssýslu umaldamótin 1900 eftir Veru Roth en á vegum Kirkju-bæjarstofu hefur staðið yfir um árabil söfnun og
skráning heimilda um örnefni og fornar ferðaleiðir á þeim
slóðum, með sérstakri áherzlu á Skaftárhrepp að því er
fram kemur í aðfaraorðum.
Fáar byggðir á Íslandi hafa í gegnum aldirnar búið við
jafn mikla einangrun og þær, sem þessi bók fjallar um.
Náttúran og umhverfið mótar okkur öll og á þessu tiltekna
landsvæði varð til bæði sérkennilegt og harðgert fólk.
Sennilega er Jóhannes Sveinsson Kjarval þekktasti ein-
staklingurinn frá landnámi, sem á rætur að rekja á þessar
slóðir.
Það er vandað mjög til þessarar útgáfu og í bókinni er
mikill fjöldi mynda, sem gefur okkur hugmynd um líf fólks
á þessum tíma. Myndirnar einar og sér eru menningar-
verðmæti.
Höfundurinn, Vera Roth, á ættir að rekja til Vestur-
Skaftafellssýslu en móðurafi hennar var séra Björn O.
Björnsson, sem gerðist prestur í Ásaprestakalli í Skaftár-
tungu árið 1922, fyrir tæpum hundrað árum. Um hann
sagði Halldór Blöndal, síðar forseti Alþingis og ráðherra, í
minningargrein í Morgunblaðinu hinn 10. október 1975:
„Ásaprestakall var á þessum tíma
mjög erfitt yfirferðar, en Skaftfell-
ingar tóku snemma til þess að Björn
þótti dugandi og kjarkmikill ferðamað-
ur og lét hvorki jökulvötn, hraun né
sanda aftra för sinni. Sérstaklega þótti
hann glöggur á straumhvörfin í fall-
vötnunum, svo að með ólíkindum þótti um mann, eins og
hann sem alist hafði upp við bæjar- og borgarlíf.“
Á síðari árum hefur athyglin beinzt að þessu landsvæði
og fólkinu þar vegna hinnar merku bókar Steinunnar Sig-
urðardóttur um Fjalldalabóndann, Heiðu Guðnýju Ás-
geirsdóttur, fyrrum fyrirsætu í útlöndum en nú bónda á
Ljótarstöðum í Skaftártungu.
Í bókinni segir:
„Fram undir aldamótin 1900 hafði ferðamáti Íslendinga
haldist að miklu leyti óbreyttur um aldir. Menn ferðuðust
annaðhvort fótgangandi eða ríðandi milli staða og allur
varningur var fluttur á hestum. Ferðaleiðir landsins voru
götutroðningar eða reiðgötur, manngerðir vegir voru nán-
ast ekki til og ár urðu menn að ríða eða vaða.“
Þessi lýsing minnti mig á liðna tíð. Annar bóndinn í
minni sveit (Hæll í Flókadal í Borgarfirði), Ingimundur
Ásgeirsson frá Reykjum í Lundarreykjadal (bróðir þeirra
Leifs Ásgeirssonar prófessors og Magnúsar Ásgeirssonar
skálds), átti nokkuð oft erindi yfir í Lundarreykjadal. Oft-
ar en ekki fór hann þá leið fótgangandi, sem snún-
ingastráknum þótti furðulegt. Þetta var um miðja síðustu
öld.
Hér koma landpóstar við sögu. Um þá segir Vera Roth:
„Saga íslenzku landpóstanna er merkur þáttur í þjóð-
lífssögu Íslands. Starf landpóstanna krafðist hugrekkis,
hreysti, þrautseigju og ratvísi. Ferðaleiðirnar voru langar
og oft erfiðar, alls staðar voru vegleysur og fáir vegvísar.
Víða var yfir fjallvegi að fara, óbrúaðar ár, tæp vöð og
eyðisanda, á öllum tímum árs.“
Við þessar aðstæður var ekki við öðru að búast en
mannskaði yrði. Fyrir 150 árum, í október 1868, lögðu
fjórir menn upp til ferðar um þá leið úr Skaftártungu, sem
nú kallast Fjallabaksleið syðri, þ.e. norðan Mýrdalsjökuls.
Í bókinni er birtur kafli úr umfjöllun Pálma Hannessonar,
rektors MR, um þessa ferð en frásögn hans nefnist Mann-
skaðinn á Fjallabaksvegi. Mennirnir fjórir komu aldrei
fram og fundust ekki, þrátt fyrir ítrekaða leit. Bein þeirra
fundust áratug síðar, í september 1878. Einn þeirra fjög-
urra, Árni Jónsson frá Skálmarbæ í Álftaveri, sem hafði
verið kaupamaður í Hlíð um sumarið, var langalangafi höf-
undar þessarar greinar.
Og af því að ljósmæður eru mjög í fréttum um þessar
mundir er ekki úr vegi að geta þess, að þær komu að sjálf-
sögðu við sögu á þeim slóðum sem bók-
in fjallar um. Þar segir:
„Þótt veður og vötn færu í sinn
versta ham, mátti ljósmóður aldrei
bresta kjark, hún varð að fara allt, sem
komist varð. Um aldamótin 1900 var sá
háttur hafður á í Skaftafellssýslu að
yfirsetukonur höfðu börnin heim með sér, ef fátækt var á
heimilunum eða ástæður á einhvern hátt mjög erfiðar.
Létu þær börnin dveljast hjá sér á meðan konan lá sæng-
urleguna eða úr rættist að einhverju öðru leyti.“
Í bók Veru er fjallað um heiðarbýli á þessum slóðum.
Þar segir:
„Frá heiðarbæjunum var yfirleitt langur vegur til
byggðar á láglendi, einangrun mikil og lífsbaráttan þar
hörð. Var það helzt á vorin, þegar féð var tekið í afrétt eða
á haustin, þegar fénu var smalað af afrétti, að einangrun
heiðarbæjanna var rofin.“
Á einum þessara heiðarbæja, Eintúnahálsi, ólst amma
greinarhöfundar upp til 14 ára aldurs og talaði aldrei um,
utan eitt skipti. Raunar var ég svo heppinn að hitta lang-
ömmu mína, Vilborgu Ásgrímsdóttur, húsfreyju á Norð-
ur-Götum í Mýrdal, einu sinni, en hún var fædd árið 1857.
Þau Kjarval voru systrabörn og mátti ekki á milli sjá,
hvort þeirra var sérkennilegra.
Fyrir 30 árum sendi Erlendur Einarsson, fyrrum for-
stjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, mér inn-
bundna samantekt, þar sem hann rakti ættir okkar saman
af þessum slóðum. Þar segir:
„Þá var það áleitin spurning hvernig þessu fólki reiddi
af í gegnum ógnir Skaftárelda og móðuharðindanna, sem
fylgdu í kjölfarið, þegar ekki aðeins búsmalinn féll í
stórum stíl, heldur mannfólkið líka.“
Í skugga Skaftárelda
og móðuharðinda
Merkileg bók Veru Roth
um fornar ferðaleiðir í
Vestur-Skaftafellssýslu
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Morgunblaðið birti frétt um það18. júní 2018, að nú ætti að
selja á uppboði einn af nítján hött-
um Napóleons Frakkakeisara, en
þeir voru tvíhorna. Af því tilefni má
rifja upp, að Björn Jónsson, ráð-
herra Íslands 1909-1911, gekk í
valdatíð sinni keikur um með eins
konar Napóleonshatt. Lenti sá
hattur síðar í eigu starfsmanns Ísa-
foldarprentsmiðju, sem Björn hafði
átt, og þaðan rataði hann í hendur
ungs skálds, Halldórs Guðjóns-
sonar frá Laxnesi, sem gaf kunn-
ingjakonu sinni hattinn.
Í grúski mínu vegna ævisögu
skáldsins rakst ég á laust blað
ómerkt í bréfasafni Ragnars Jóns-
sonar í Smára, en það er varðveitt
á handritadeild Landsbókasafnsins.
Þar segir frá því, að Hannes Haf-
stein, forveri Björns í embætti, hafi
eitt sinn hnoðað saman brjóstmynd
af Birni úr möndludeigi (marsípan)
og sett á hana lítinn Napóleons-
hatt. Síðan hafi Hannes ort gam-
anvísu til Napóleons fyrir hönd
Björns:
Munurinn raunar enginn er
annar en sá á þér og mér,
að marskálkarnir þjóna þér,
en þjóna tómir skálkar mér.
Sem kunnugt er sæmdi Napóle-
on 26 herforingja sína marskálks-
titli. Björn Jónsson hafði hins veg-
ar fellt Hannes úr ráðherraembætti
og eftir það rekið móðurbróður
hans, Tryggva Gunnarsson, úr
Landsbankanum, þótt sá verknaður
yrði honum sjálfum síðan að falli.
Nýttu sumir öfundarmenn Hann-
esar sér, að Björn fékk ekki alltaf
hamið skapsmuni sína.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Napóleonshatturinn
og Hannes Hafstein