Morgunblaðið - 14.07.2018, Síða 47
MENNING 47
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. JÚLÍ 2018
Vinir og vandamenn eru þema mál-
verkasýningar Jóns Magnússonar,
Skyndimyndir. Á sýningunni, sem
verður opnuð kl. 16 í dag, laugar-
dag, í sal Íslenskrar grafíkur í Hafn-
arhúsinu, Tryggvagötu 17, gefur að
líta 38 splunkuný olíumálverk, flest
30 sentimetrar á kant og aðallega
portrett. Yfirskrift sýningarinnar er
tvíræð og vísar annars vegar til þess
að Jón tekur – í skyndi – myndir á
snjallsímann sinn og hins vegar þess
að hann málar eftir ljósmyndunum
með þykkri olíumálningu og grófum
pensilstrokum – í skyndi. Eða „mjög
hratt“, svo rétt sé eftir honum haft.
Jón er myndskreytir og grafískur
hönnuður að mennt og hafði
mestanpart unnið sem slíkur í hart-
nær aldarfjórðung þegar hann fyrir
tveimur árum ákvað að láta lang-
þráðan draum rætast og hefja nám í
málaradeild Myndlistaskólans í
Reykjavík. „Í mér hefur alltaf
blundað málari, enda hef ég í gegn-
um árin málað samhliða vinnunni
minni,“ segir hann.
Hann útskrifaðist í vor og hefur
síðan helgað sig málaralistinni á
vinnustofu sem hann deilir með
tveimur listakonum. Og er alsæll.
„Ég veit ekki hvað það er við þykka
málningu, ég bara elska að fá áferð-
ina og sjá vel pensilskriftina. Þeim
mun meira, því betra. Ég fíla að
horfa á verkin því af þeim stafar
orka,“ segir hann á heimasíðu sinni,
jonmagnusson.is.
Fangar augnablikið
Svo sæll er hann raunar að hann
hefur einsett sér að vinna eingöngu
að því sem hann kallar „Snapshot
Painting“, skyndimálverk með öðr-
um orðum, og fanga þannig augna-
blikið í málverkinu. „Auk portrett-
anna eru á sýningunni nokkur
skyndimálverk, sem ég kalla „situa-
tion“ og eru málaðar eftir myndum
sem ég tók á snjallsímann á förnum
vegi, til dæmis á göngutúrum mín-
um um Öskjuhlíð, úti á Granda og
víðar.“
Öll hverfast þó málverkin um fólk
í ýmsum aðstæðum hér og þar og í
umhverfi sem Jón heillast af.
„Myndbyggingin, þykk málningin
og pensilskriftin eru þó aðalfókus-
inn í verkunum, en ekki sagan sem
liggur að baki. Ég tek myndir á sím-
ann og framkalla þær í málverki.
Með því að mála eftir mínum eigin
ljósmyndum get ég gefið í, verið
frjáls og gert það sem mig langar
til,“ segir Jón og kveðst vera miklu
frjálsari í málverkinu en grafískri
hönnun.
Engu að síður er hann þeirrar
skoðunar að til þess að geta málað
almennilega þurfi maður að geta
teiknað. Að því leytinu segir hann
reynslu sína sem grafísks hönnuðar
koma sér til góða. Til gamans teflir
Jón einnig fram á sýningunni þrem-
ur teikningum frá námsárum sínum
í París í byrjun tíunda áratugarins.
Aðspurður segir hann skyndi-
myndirnar einungis sprottnar af un-
un sinni af því að mála, í þeim sé
hvorki boðskapur né ádeila. Eins og
hann skrifar á heimasíðu sína: „Mín
myndlist er ekki pólitískt hlaðin eða
tilfinningaþrungin, í mínum augum
er hún persónuleg, falleg og ég
dreg áhorfandann inn í minn heim
og áhorfandinn fær að sjá hann með
mínum augum.“ vjon@mbl.is
Morgunblaðið/Valli
Skyndimyndir úr
snjallsímanum
Jón Magnússon með sína fyrstu
einkasýningu í sal Íslenskrar grafíkur
Listmálari Jón Magnússon segir
að í sér hafi alltaf blundað málari.
Söngkonurnar Kristjana Stefáns-
dóttir og Ragnhildur Gröndal syngja
úrval þekktra djassstandarda, bæði
saman og hvor í sínu lagi, á aðal-
tónleikum djasshátíðarinnar Jazz
undir fjöllum í Skógum undir Eyja-
fjöllum í kvöld, laugardag. Með þeim
leikur einvalalið tónlistarmanna;
Agnar Már Magnússon á píanó, Þor-
grímur Jónsson á kontrabassa og
Erik Qvick á trommur.
Tónleikarnir hefjast kl. 21 í fé-
lagsheimilinu Fossbúð og standa til
kl. 23 – eða 23.30 eftir atvikum. Að-
gangseyrir er 2.000 krónur, en frítt
er inn á djammsessjónir hátíðar-
innar kl. 14-17 í Skógakaffi, þar sem
saxófónleikararnir Sigurður Flosa-
son og Óskar Guðjónsson bregða á
leik ásamt þremenningunum, sem
leika undir hjá söngkonunum um
kvöldið. Gert er ráð fyrir að gestir
geti komið og farið að vild á meðan
þeir félagar djamma.
„Þær Kristjana og Ragnhildur
hafa sungið töluvert saman og eru
alveg ágætis söngkonur. Ég er viss
um að það verður skemmtileg „ke-
mestría“ hjá þeim á tónleikunum,“
segir Sigurður, listrænn stjórnandi
hátíðarinnar allar götur frá því til
hennar var stofnað fyrir hálfum öðr-
um áratug.
Vildu lífga upp á menninguna
„Hugmyndin að djasshátíðinni
kom upphaflega frá þáverandi
rekstraraðilum Hótels Skóga.
Tveimur mjög hressum konum sem
vildu lífga upp á menninguna í sveit-
inni datt í hug að efna til djasshátíð-
ar,“ segir Sigurður, sem ásamt
Byggðasafninu í Skógum stendur að
hátíðinni með stuðningi Rangár-
þings eystra, Skógasafns, Hótels
Skóga og Hótels Eddu. Honum
fannst hugmyndin spennandi og
skemmtileg og lét konurnar ekki
ganga á eftir sér þegar þær báðu
hann að halda um listrænu stjórnar-
taumana.
Sigurður segir að hátíðin kalli á
töluverðan undirbúning, en fjarri því
óyfirstíganlegan, enda sé hann orð-
inn flestum hnútum kunnugur.
„Djasshátíðirnar í Skógum eru ein-
stakt tækifæri til að njóta góðrar og
fjölbreyttrar tónlistar í náttúru Ís-
lands eins og hún gerist hvað feg-
urst. Fyrirkomulag hátíðanna er oft-
ast með svipuðu sniði, en þó hefur
verið tilhneiging til að þjappa dag-
skránni á einn dag í seinni tíð. Að-
sóknin hefur alltaf verið góð, en
helgast þó svolítið af veðri,“ segir
Sigurður.
Hann spáir góðu veðri fyrir aust-
an um helgina, en viðurkennir að
hafa ekkert fyrir sér í þeim spádómi
nema bjartsýnina. „Tónleikagestir
hafa verið hvaðanæva, innlendir og
erlendir ferðalangar, heimafólk og
áhugafólk sem gerir sér sérstaka
ferð á hátíðina, hvernig sem viðrar,“
segir Sigurður. vjon@mbl.is
Syngja saman og
einnig hvor í sínu lagi
Jazz undir fjöllum
14. djasshátíðin í
Skógum undir Eyja-
fjöllum í dag
Djasssöngkonurnar Kristjana Stefánsdóttir og Ragnheiður Gröndal.
Saxófónleikarar Sigurður Flosason og Óskar Guðjónsson og fleiri góðir
tónlistarmenn verða með djammsessjón í Skógakaffi upp úr hádeginu.
//////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////
//////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////
//////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////