Breiðfirðingur - 01.04.1975, Side 65
ÁLAGABLETTUR
Á landamerkjum milli Miklagarðs og Þverfells rennur
lækur, sem heitir Merkjalækur. Hjá þeim læk er hó'll. Á
honum er stekkjartóft með sléttu í kring og með móum
niður af. Trúað gæti ég því, að þar hafi verið mannabyggð
á fyrri öldum. Þegar ég var í Miklagarði, var þó nokkur
rækt út frá stekknum, og sló ég þann blett vanalega. Hey-
ið var ágætt, gott fóður, töðukyns. Fyrstu áratugi þessarar
aldar var allt slegið, sem ljár á festi. Mikligarður er slægju-
lítil jörð, og varð ég að nota allt upp í há-urðir, því að
ekki var hætt að slá fyrr en laugardagskvöldið fyrir leitir.
Þá var ljárinn sleginn úr orfinu og hvorutveggja látið á
sinn stað, þar sem það var geymt til næsta sumars.
Nú var það eitt sinn í vikunni fyrir leitir, að ég hafði
ekkert að slá. En hjá áðurnefndum stekk var svokallað
Kletttún, afmarkað með smálæk. Fyrir ofan Kletttúnið er
fallegur klettur með tveimur burstum eða strýtum upp úr.
Fóstra mín hafði sagt mér, að Kletttúnið væri álagablettur,
sem ekki mætti slá, því að þá yrðu ábúendur fyrir skaða.
Nú hugsaði ég, að það væri ekki víst, að ég yrði fyrir
skaða, þó að ég slægi Kletttúnið. Þar með lagði ég af
stað þangað með orfið á öxlinni. Er ekki að orðlengja það,
að ég sló blettinn og fékk líklega 2 hestburði af honum.
Heyinu náði ég inn. En ekki leið langur tími, uns það
kæmi fram, sem fóstra mín hafði varað mig við. Um það
bil viku síðar misstum við vorbæra kú, fallega skepnu,