Breiðfirðingur - 01.04.1981, Side 71
BREIÐFIRÐINGUR
69
svo þeir lifðu.
Jón fískaði alltaf vel nema síðasta sumarið, enda hafði hann
venjulega duglega háseta. Það var algengt að hann hafði sömu
hásetana 6-9 sumur. Jón var framsýnn, duglegur og góður
skipstjóri, laginn stjórnari í vondum veðrum, bæði á
þilskipum og opnum bátum. Hásetunum þótti vænt um hann og
treystu honum. Það var hans besta skemmtun að sigla skipi í
góðu leiði. Hann var einn af þessum breiðfirsku sjógörpum.
Hann var „þéttur á velli og þéttur í lund, þrautgóður á
raunastund.” Hann var sannur Islendingur í sjón og reynd.
Jón Lárusson var svipmikill og svipgóður maður. Svipurinn
bar vott um festu og kjark, hreinskilni og heiðarleik mikillrar
persónu. Manni gat dottið í hug þessi gamla setning: „Afram
bauð hann, ekki víkja, aldrei vildi heitorð svíkja.” Hann var
þægilegur í viðmóti, ávarpsgóður, glaðsinna, háttprúður og
stillilegur„skemmtilegur en skjaldan reiður.” Hann gat þó orðið
skapheitur, ef á hann var ráðist.
Hann hélt alltaf fram heilsteyptum málstað byggðum á
traustum grundvelli. Eg held að hann hafi alltaf sigrað nema
einu sinni, en þá var hann þvingaður með peningavaldi. Hann
lagði aldrei illt til nokkurs manns, en rétti hlut hinna minni
máttar, sem áttu erfitt á einhvern hátt.
Hann var hár vexti, hafði sívalan vöxt, karlmannlegur
kraftamaður. Hann var sönn hetja, kjarkmikill, duglegur,
orðheldinn og ábyggilegur. Hann vék aldrei fyrir andstæðingi
sínum. Hann hafði mikið meira en meðalmannsgreind, var
framsýnn, ráðhollur og traustur, ákveðinn og hispurslaus.
Hann trúði á Drottin, sem veitti honum styrk í
lífsbaráttunni við æðisgengnar ægisdætur, heilsuleysi og
dauðsföll ástvina hans, eiginkvenna og barna. Hann tók
erfiðleikunum með konunglegri ró og stillingu.
Blessuð sé minning þessa mæta manns.