Breiðfirðingur - 01.04.1981, Page 82
80
BREIÐFIRÐINGUR
gestrisni og hlýja í fyrirrúmi, og nærgætni hennar og tillitssemi
var við brugðið. Hún mátti ekkert aumt sjá, var ákaflega
hjálpfús og greiðvikin, og reiðubúin að rétta hjálparhönd og
fórna tíma og fyrirhöfn þeirri lífshugsjón sinni að vilja hjálpa,
líkna og lina þjáningar og leggja kærleikshönd sína þar að, sem
þörfin var mest og hjálpar var þörf. Þess vegna var oft til hennar
leitað, þegar um það var að ræða að hjúkra og líkna þeim, sem
við vanheilsu og erfiðleika áttu að stríða, og jafnan var hún
reiðubúin til hjálpar - og sá sig raunar aldrei úr færi að leggja
gott til þegar á þurfti að halda, því þetta var henni svo í blóð
borið.
Heimili þeirra Þóreyjar og Arna var ekki alltaf stórt að
flatarmáli, einkum fyrstu ár þeirra í Búðardal, en þau áttu þeim
mun meira af gestrisni og hlýhug til vina sinna og
samferðamanna og húsfreyjan hafði e.t.v. ekki alltaf af miklu að
miðla á veraldarvísu, en þeim mun meira var rúm hjartans - og
öllum skyldi gott gjöra, svo sem efni og aðstæður leyfðu, og þá
var oft hægt að gera mikið úr litlu.
Svo nærfærin sem Þórey var, varð það oft hlutskipti hennar
að vera við dánarbeð og búa látna til hinztu hvílu hér í þessum
heimi. Hún hefur áreiðanlega oft reynt þá guðlegu blessun, sem
Guð leggur öllum til í þrautum sínum, að mega við lok þessa lífs
sjá ljósið himneska skína inn í mannlega sál og kveikja þar
bjarma gleði og vonar á landamærum lífs og dauða. Og trúlega
hefur hún oft fundið geislablik kærleikans frá hinum eilífa heimi
umlykja þreytta brá og fölan vanga, og þá skilið, hvaðan við
fáum þau ljósblik eilífðarinnar, sem veita birtu og yl á kvíðafullri
og viðkvæmri skilnaðarstund.
Mörg síðustu árin átti Þórey við sjúkleika að stríða. Hún
veiktist í janúar árið 1973 og dvaldi þá í Sjúkrahúsi Akraness til
vors, síðan var hún í mörg ár á Dvalarheimilinu á Fellsenda, en