Skírnir - 01.04.2011, Side 174
172
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
un persónuleika hennar er áréttuð í lokin þegar hún ákveður einnig
að taka upp móðurnafn Karls og heita Una Ástuson (194).
Góði elskhuginn er líklega fyrst og fremst upprunagoðsaga, rétt
eins og leikritið um Ödipus konung. Ég hélt því fram í inngangi þess-
arar greinar að í nafni Ástu Doreen Karlsdóttur/Ástuson/Ash væru
ýmsir af lausum þráðum sögunnar hnýttir saman, stúlkan litla gæti
valið sér þá tengingu við fortíðina sem henni hentaði best eftir að hún
yrði stór. Þó er Ásta Doreen ekki Unudóttir. Henni er einhverra
hluta vegna neitað um þann uppruna. Hugsanlega er þessi sérkenni-
lega úrfelling mótuð af rökvísi sögunnar, innvenslafantasíu þar sem
uppruna móðurinnar verður að fela þar sem skyldleiki hennar við
föðurinn er of mikill til þess að hann megi viðurkenna opinberlega.
Sá skyldleiki er táknrænn, rétt eins og skyldleiki Karls við Doreen
Ash, en vægi hans er haldið til streitu með því að forðast að nefna
hann. Þegar tengsl Karls og Unu eru dregin fram í sögulok, er það
líkt og óvænt opinberun sem sé ætlað að skýra nándina í sambandi
þeirra, rétt eins og í sifjaspellssögum sem snúast um hálfsystkini. Una
er táknræn tvíburasystir Karls, nánast jafnaldra hans, en aðeins fá-
einir klukkutímar skilja að fæðingarstundir þeirra (191-192).
I samkenndarfantasíum trompa tvíburasystur alltaf hálfsystur.
Ævintýrið um Karl Astuson
Karl Ástuson er nánast eins og pílagrímur í ævintýri eða gamalli
táknsögu, svipaðri þeirri sem John Bunyan skrifaði um ævintýri
Kristins og kom fyrst út á prenti 1678.
I slíkum frásögnum er freistandi að greina söguhetjurnar sem pers-
ónugervinga ákveðinna eiginleika. Una er ekki aðeins sú sem Karl unir
sér vel hjá eða kýs að dvelja hjá, eins og norrænn stofn sagnarinnar ,að
una‘ gefur til kynna. Una er einnig tengd latneska töluorðinu unus,
,einn‘, og út frá því má túlka hana sem hina ,einu‘ í Góða elskhug-
anum. Una er einnig miðlægt nafn í enskri bókmenntasögu, en hún er
ein af kvenhetjum The Faerie Queene (1590 og 1596) eftir Edmund
Spencer (1552-1599). Þar stendur hún fyrir sannleikann, hina sönnu
kristnu trú sem riddara frásagnarinnar er ætlað að standa vörð um.
Eins og Roy Male hefur bent á, er Una ein af mikilvægustu fyrir-