Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 4
4 Ljósmæðrablaðið - júní 2012
Það er innbyggt í eðli mannsins að vilja auka
kyn sitt. Ekki er það öllum kleift og geta ýmsar
ástæður legið þar að baki. Margir glíma við
ófrjósemi sem er skilgreind sem sjúkdómur
og fá þeir sem eiga við það vandamál að stríða
oft mikla samúð og skilning. Samkynhneigð
pör geta eðli málsins samkvæmt ekki eignast
börn á hefðbundinn hátt og hefur það aukist
að samkynhneigðar konur leiti til Art Medica
til að fá aðstoð við barnleysið eftir að lög um
tæknifrjóvganir voru rýmkaðar. Breytt viðhorf
innan samfélagsins hefur haft áhrif til fjölgunar
lesbískra para í barneignarferli og ætla má að
fjöldinn komi til með að aukast enn frekar. Í
blaðinu er fræðslugrein sem Ingunn Vattnes
ljósmóðir skrifar upp úr lokaverkefni sínu um
þetta efni. Þar kemur fram að heilbrigðisstarfs-
fólk virðist ekki vera að fullu tilbúið til að taka
á móti þessum hópi kvenna með opnu hugar-
fari og veita þeim bestu mögulegu þjónustu
sem tekur mið af þörfum og óskum lesbía
um viðeigandi meðferð. Í blaðinu segja tvö
samkynhneigð pör frá sinni sögu þegar þau
gengu í gengnum barneignarferlið.
Mikið hefur verið rætt og ritað um vaxandi
þyngd Íslendinga undanfarin ár. Sjáum við
sem vinnum í heilbrigðisgeiranum þetta
vandamál aukast með hverju árinu sem líður.
Í blaðinu birtist fræðslugrein um þetta efni.
Þar vilja höfundar efla heilbrigði, einblína á
það sem er jákvætt og auka aðgengi kvenna
að næringarráðgjöf.
Tíðrætt hefur verið um niðurskurð og
breytingar á þjónustu við barnshafandi
konur, sérstaklega úti á landi. Steina Þórey,
ljósmóðir í Keflavík, skrifar um sjálfstæði
ljósmæðra. Það er alltaf gott að minna okkur
á að ekki þýðir að berja höfðinu við stein
og tala um hvernig hlutirnir voru, heldur að
horfa til framtíðar og sjá hvernig við getum
spilað úr þeim spilum sem við höfum.
Vorblaðið er nú komið í ykkar hendur, alltaf
gengur vel að afla efnis í blaðið. Í raun er það
alveg ótrúlegt miðað við hversu fámennt félag
Ljósmæðrafélagið er. Erum við í ritstjórninni
endalaust þakklátar fyrir þetta. Við viljum nota
tækifærið og minna þær ljósmæður sem hafa
hlotið styrk hjá Ljósmæðrafélaginu að skrifa í
blaðið, það er í raun skylda styrkþega að kynna
fyrir félagsmönnum þau verkefni sem félagið
styrkir og er Ljósmæðrablaðið besti vett-
vangurinn til þess.
Gleðilegt sumar
og hafið það gott í sumarfríinu.
Hrafnhildur Ólafsdóttir
Hrafnhildur Ólafsdóttir
ritstjóri Ljósmæðrablaðsins
Ritstjórapistill