Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 17
17Ljósmæðrablaðið - júní 2012
Sjálfstæði ljósmæðra og framtíðar-
sýn eðlilegra fæðinga á Íslandi.
F R Æ Ð S L U G R E I N
Það á alltaf við að velta fyrir sér ljósmæðra-
starfinu og hvert við viljum að það stefni,
sérstaklega þegar miklar breytingar hafa átt sér
stað eins og undanfarin ár.
Ég er í meistaranámi við ljósmóðurfræði við
Háskóla Íslands og vinn að lokaverkefni sem
heitir: Undirbúningur og útkoma á eðlilegum
fæðingum á ljósmæðrastýrðri einingu við Heil-
brigðisstofnun Suðurnesja. Þar mun ég með
lýsandi tölfræði segja frá útkomu fæðinga
og hvaða þættir hafa áhrif á að konur fæða
á náttúrulegan hátt. Það sem varð til þess
að mig langaði til þess að kafa betur ofan í
eðlilegar fæðingar er það að ég hef áhyggjur
af því í hvaða farveg barneignaþjónustan á
Íslandi stefnir. Ég mun tala meira út frá minni
fæðingarstöðum en heimafæðingum þar sem
minni fæðingarstöðum hefur fækkað síðast-
liðin ár en heimafæðingar eru á uppleið, en
að sjálfsögðu geta þessar hugleiðingar mínar
einnig átt við um heimafæðingar.
Ég vinn á fæðingardeild á landsbyggðinni
við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS)
sem hefur orðið fyrir miklum breytingum,
bæði vegna nýrra laga um val á fæðingarstað
frá árinu 2007 og einnig vegna niðurskurðar-
hnífsins sem hefur tröllriðið íslenska þjóð-
félaginu. Við þessar breytingar hefur fæðingum
fækkað á landsbyggðinni. Í lögum um heil-
brigðisþjónustu frá 2007 kemur fram: „Að á
umdæmissjúkrahúsum skuli að jafnaði vera
fæðingarhjálp, séu faglegar kröfur uppfylltar“
(Lög um heilbrigðisþjónustu, 2007).
Þar sem faglegar kröfur með góðri menntun
ljósmæðra eru til staðar, þá þarf að standa vörð
utan um þjónustu við konur og fjölskyldur
þeirra í barneignaferlinu en hún hefur átt undir
högg að sækja undanfarin ár. Búið er að loka
skurðstofuþjónustunni sem í boði var á HSS
og breyta fæðingarstaðnum úr því að vera skil-
greindur sem C2 í það að vera D1 fæðingar-
staður (Landlæknisembættið, 2007). Í kjölfar
þessara breytinga hefur þjónustan við fæðandi
konur og fjölskyldur þeirra breyst og þurfa
ljósmæður að leggja aðra áherslu á þjónustu
sína. Reynslan sýnir að konur vilja fæða í sinni
heimabyggð þar sem þær hafa myndað tengsl
við ljósmæður sínar.
Þegar einar dyr lokast þá opnast gjarnan
aðrar og hef ég kosið að líta á þessa þróun
þannig þar sem ég er mikil jákvæðismann-
eskja. Með þessari breytingu þar sem búið
er að flokka konur í meðgöngu með tilliti
til fæðingar í áhættukonur eða konur sem
eru í eðlilegu ferli og geta því fætt í sinni
heimabyggð, þá hafa skapast tækifæri til þess
að veita þeim konum jafnvel betri þjónustu ef
horft er á hana út frá samfelldri þjónustu. Við
HSS er nýbúið að gera þær breytingar með
því að sameina mæðravernd og fæðingadeild
í deild sem heitir nú Ljósmæðravaktin. Þar
vinna ljósmæður sem sinna mæðravernd,
fæðingum, sængurlegu og göngudeildar-
þjónustu. Sumar þessara ljósmæðra sinna
einnig konum í heimaþjónustu. Við þessar nýju
aðstæður er verið að bæta þjónustuna við konur
með samfelldri þjónustu þannig að konan velur
sér sína ljósmóður strax í byrjun meðgöngu og
heldur sú ljósmóðir utan um fjölskylduna og
myndast yfirleitt sterk tengsl milli þeirra. Stefnt
er að samfelldri þjónustu fyrstu sex vikurnar í
lífi barnsins.
Einnig höfum við aðgang að fæðingalækni
á dagvinnutíma en hann hefur í gegnum tíðina
hvatt til sjálfstæðis ljósmæðra sem hefur verið
mikilvægt fyrir okkur.
Hugmyndafræði Michel Odent á
við enn í dag
Michel Odent, sem er franskur
fæðingalæknir, er nýbúinn að vera hér á landi
og var mjög skemmtilegt að fá að hlýða á hann,
sérstaklega af því að hann er að velta fyrir sér
sömu hlutum og ég. Erindi hans hét: Að komast
upp úr botninum í hyldýpi barneignaferilsins.
Upp úr miðri síðustu öld lagði hann sitt
af mörkum til að snúa við þróuninni í
barneignaþjónustunni á þann veg að færa
fæðingarnar úr því að vera í sjúkdómsvæddu
og dauðhreinsuðu umhverfi í það að vera
þannig að konur væru sjálfar við stjórnvölinn.
Í dag er hann enn að. Hann talar um lífeðlis-
fræðilegt ferli konunnar og að við eigum að
hlusta á það. Konan þarf á sínum kokteilum af
hormónum að halda til þess að fæða og meiri
líkur er á að hún fæði á eðlilegan hátt og með
minni inngripum ef hún fær að vera ótrufluð
og í friði. Hann talar um að ljósmóðirin eigi að
vera í horninu á herberginu hjá hinni fæðandi
konu og prjóna, það er að segja að halda að
sér höndunum. Einnig eins og talað úr mínum
munni! Hann segir að aldrei á lífsleiðinni sé
Oxytocínmagn eins hátt í blóði móðurinnar og
strax eftir fæðingu og þurfi móðirin eins mikið
á barninu sínu að halda og barnið móðurinni.
Hormónin hennar vinna best þegar hún er
í umhverfi sem henni líður vel í, fær að vera
ótrufluð og fær barnið sitt strax til sín. Odent
talar um að barneignaferlið eigi að fá að vera
náttúrulegt ferli en ekki sjúkdómsvætt og til
þess að snúa þessu við og komast upp úr þessu
hyldýpi þurfum við að nota almenna skynsemi
og vísindaleg rök.
Hvað getum við gert?
Ef þróunin í barneignaþjónustunni heldur
áfram að þróast á þann veg sem hún er byrjuð
að gera er maður hræddur um að við förum
þennan hring aftur og konurnar verða ekki
við stjórnvölinn heldur verða í sjúkdóms-
væddu umhverfi. Við ljósmæður þurfum að
standa vörð um konuna svo hormónar hennar
fái að vinna í friði. Og hvernig gerum við það?
Með því að vera sjálfstæðar og hvetjandi.
Oft heyrir maður sagt að það þýði ekkert að
hvetja konuna til þess að fæða án inngripa
þar sem nútímakonan vilji bara finna sem
minnst fyrir fæðingunni. Það finnst mér ekki
rétt, sá hópur kvenna sem ég vinn með hefur
verið mjög duglegur að undirbúa sig til þess
að fæða á náttúrulegan hátt þar sem þær vilja
vera í sínu nærsamfélagi með ljósmóður sem
þær þekkja og vita að til þess, þá þurfi þær
að undirbúa sig andlega fyrir það. Það gerum
við ljósmæður með því að vera hvetjandi
og fræðandi og undirbúa konuna til þess.
Mæðraverndin, meðgöngujóga, Hypnobirth-
námskeið eru frábær verkfæri til þess að undir-
búa konuna undir fæðingu. Það er hægt með
aukinni samfelldri þjónustu þar sem konan er
búin að mynda tengsl við sömu ljósmóðurina.
Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja