Ljósmæðrablaðið

Årgang

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 21

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 21
21Ljósmæðrablaðið - júní 2012 töfrum bókarinnar hefur verið beitt. Ýmsar helgimyndir af heilagri Margréti gefa til kynna átrúnað á bókum með sögu hennar því hún er oft sýnd með bók eða fjöðurstaf í hendi. Bæn Margrétar í sögunni bendir til þess að nóg hafi verið að hafa bókina innan veggja. Fyrir utan handritin sjálf og þær upplýsingar sem þau gefa má leita svara í helgikvæðinu Heilagra meyja drápu (Scaldic Poetry, 2007) sem talið er frá 14. öld. Þar segir: Lesandi oft með fagnað fúsan Fúsir menn er treysta henni Hennar sögu þá er krankar kvinnur Kvenligt stríð í sóttum bíða. Margareta brúðum bætir Bætta hjálp með sínum mætti Vaktar þessi meyjan mektug Mektar gjörð á himni og jörðu. Í þessu erindi er gefið til kynna að konur í „kvenlegu stríði“, það er léttasótt, megi vænta hjálpar af Margréti og lesið hafið verið úr sögunni fyrir þær. Heimildir úr öðrum löndum segja frá lestri úr Margrétar sögu við barnsburð, einnig tíðkaðist að lesa upphaf Jóhannesarguðspjalls og Katrínar sögu (Franz, 1909). Í ritinu Hugrás, sem Guðmundur Einarsson prestur skrifaði 1627, segir einnig frá upplestri úr Margrétar sögu. Guðmundur skrifar: „ ... og alla lausnarbókina ... einkum að binda þetta við lærið á jóðsjúkri kvinnu: Anna peperit Mariam, Elisabeth Johannem ... og lesa þar á eptir Margrétar sögu in nomine Patris, filii et spiritus sancti“. Í ritinu Hugrás er notkun Margrétar sögu og átrúnaður á Margréti bendlaður við kukl (Jón Steffensen, 1975; Einar G. Pétursson, 1998). Athyglisvert er að lausnarbænirnar og formúlurnar, efnið sem tengist barns- fæðingum, skuli vera á móðurmálinu og á latínu. Spyrja mætti hvers vegna latínan er notuð. Oft er um að ræða kunnuglega texta, sem þeir sem ekki kunnu latínu hafa samt kannast við. En sjálfsagt vegur þyngst að latína hafi verið talin búa yfir töframætti þar sem hún var málið sem notað var í helgihaldi kirkjunnar. Það hefur þótt gott að eiga bók með Margrétar sögu heima á bæjum, upplestur úr henni gat komið að gagni, en nú þarf að víkja að því hvað bundið var við líkama kvennanna. Leiðbeiningar eru í hand- ritinu sjálfu, sem kalla mætti til gamans handbók yfirsetukvenna, en skýrar eru þær ekki. Greinilegt er þó að það sem bundið er við á að brenna ef það spillist af blóði eða vatni. Þessi fallegu, litlu handrit með Margrétar sögu hafa verið kjörgripir sem ef til vill gengu í arf, frá móður til dóttur, og þeirra því verið vandlega gætt. Líklegra má telja að bænir og töfraformúlur hafi verið skrifaðar á snepla eftir handritunum og þeir síðan notaðir til að leggja við líkama kvennanna. Ýmiskonar sneplar og strimlar voru algengir til lækninga á miðöldum. Eitt slíkt blað er íslenska kveisublaðið sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Íslands (Magnús Már Lárusson, 1952). Blaðið er 11 x 60 cm og mun hafa verið lagt eins og belti um sjúklinginn. Á blaðinu eru bænir og galdraformúlur, en einnig kaflar úr heilagri ritningu, frásagnir Mattheusarguðspjalls af lækningum Krists úr Mattheusarguðspjalli og upphaf Jóhannesarguðspjalls. Í einu þeirra eru til dæmis vers úr Lúkasarguðspjalli á latínu þar sem sagt er frá þungun þeirra frænd- kvenna Elísabetar og Maríu, en trú á mátt þessara versa til að auðvelda fæðingar var algeng víða. Reyndar var algengt að ákalla Maríu guðsmóður og fara með Maríubænir við barnsfæðingar því hún átti að hafa fætt son sinn án nokkurs sársauka (Ásdís Egils- dóttir, 1996). Í upphafi Jóhannesarguð- spjalls segir frá upphafi heimsins og sköpunarsagan var talin hafa lækningamátt. Fyrrnefnd bæn heilags Leonardus hefst á útdrætti úr sköpunarsögunni í 1. Mósebók. Kveisublaðið er því náskylt handritum Margrétar sögu. Sagt er í handritinu AM 431 12mo að skrifa skuli nýtt blað í stað þess sem spilltist af blóði eða vatni. Ekki er víst að það hafi alltaf verið hægt að koma því við og það er umhugsunarvert að af níu smábókum með Margrétar sögu vantar viðbótarefnið í fjórar, og þrjár af hinum fimm eru meira eða minna skertar. Blöðin gætu því hafa verið losuð frá og lögð við líkama kvennanna. Ýmsar fleiri spurningar vakna um notkun þessara bóka á miðöldum. Er hlutverk þeirra einhver vísbending um lestrarkunnáttu kvenna? Stefán Karlsson (1998) hefur velt þessari spurningu fyrir sér í grein um Margrétar sögu. Viðfangsefni hans í greininni er þó einkum annað handrit, AM 433a 12mo. Á spássíu á blöðum 26v – 27r hefur skrifarinn párað: „Nú er eg hræddur við dóttur mína, svo eg þori ekki annað en að skrifa bókina hennar“. Aftan á síðasta blaði handritsins er ritað nafnið Margrét Björnsdóttir með 17. aldar hendi, bendir Stefán á. Þessi kona gæti hafa verið Margrét Björnsdóttir móðir séra Bjarna Þorsteinssonar í Vesturhópshólum sem átti bókina á síðari hluta 17. aldar. Hann bendir enn fremur á að móðir Margrétar hafi verið Halldóra Björnsdóttir, sem var dóttir Steinunnar Jónsdóttur og séra Björns Jónssonar, sem höggvinn var ásamt Jóni biskupi föður sínum og Ara bróður sínum 1550. Þannig gæti bókin hafa gengið í arf milli kvenna. Varðveist hefur sendibréf frá Steinunni og hafi hún skrifað það sjálf hefur hún kunnað að lesa. Handritið sem hér hefur einkum verið til umfjöllunar gæti því hafa verið í höndum konu sem var stautfær og kunni með efni hennar að fara. Ekki skal gert lítið úr lestarkunnáttu kvenna, að minnsta kosti hinna efnameiri, en efnið sem fylgir Margrétar sögu í handritunum er þess eðlis að sennilegt er að það hafi líka verið lært utanað og miðlað munnlega milli kynslóða. Allir þekkja hvernig hálflæs eða jafnvel ólæs börn geta flett bókum og farið með efni þeirra orðrétt, blaðsíðu eftir blaðsíðu, ef bókin hefur verið oft lesin fyrir þau og þau lært hana utanað. Marianne Elsakkers (2001) hefur borið lausnarbænir saman við vinnusöngva, vinnubænir, og telur að konur sem viðstaddar voru fæðingar hafi sönglað lausnarbænirnar og notað mismunandi hraða eftir því hvar konan var stödd í fæðingarferlinu. Þannig hafi bænirnar verið til hjálpar líkt og öndunaræfingar sem kenndar eru nú á dögum. Kunnátta í að fara með lausnarbænir þurfti ekki að vera í því fólgin að vita upp á hár hvað þær merktu, það þurfti líka að kunna að syngja þær með réttu lagi og hrynjandi. Á bækurnar var fest það sem kunna átti og þær hafa hjálpað við að minna á lausnarbænirnar og halda þekk- ingu á þeim við. Heimildaskrá Alfræði íslenzk I – III (1908 – 1918). Útg. Kålund, K, III, bls. 86 – 90. København: Samfund til Udgivelse af gammel nordisk Litteratur. Ásdís Egilsdóttir (1999). Drekar, slöngur og heilög Margrét. Í (ritstj.), Haraldur Bessason og Baldur Hafstað. Heiðin minni. Greinar um fornar bókmenntir, bls. 241 –256. Reykjavík: Heimskringla, háskólaforlag Máls og menningar. Ásdís Egilsdóttir (2002). St Margaret, Patroness of Childbirth. Í (ritstj.), Rudolf Simek og Wilhelm Heizmann. Mythological Women. Studies in Memory of Lotte Motz (1922 – 1997). Studia Medievalia Septentrionalia 7, bls. 319 – 330. Wien: Fassbaender. Bekker-Nielsen, H. (1961). En god bøn. Í Bibliotheca Arnamagnæana 35:1, Opuscula :1, bls. 52 – 58. Cormack, M. J. (1994). The saints in Iceland. Their veneration from the Conversion to 1400. Bruxelles: Societé des Bollandistes. Einar Gunnar Pétursson (1998). Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. Samantektir um skilning á Eddu og Að fornu í þeirri gömlu norrænu kölluðust rúnir bæði ristingar og skrifelsi. Þættir úr fræðasögu 17. aldar, bls. 73 – 77 og 111 – 115. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Elsakker, M (2001). In pain you shall bear children. Medieval prayers for a save delivery. Í (ritstj.), Korte, A.M. Women and Miracle Stories. A multidisciplinary exploration. Leiden og Boston: Brill. Franz, Adolph (1909). Die kirchlichen Benediktionen im Mittelalter, bls. 205. Freiburg: Herder. Heilagra meyja sögur (2003). Útg. Wolf, K. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Hovorka, O.v. og Kronfeld, A.(1908). Vergleichende Volksmedizin, bls. 615. Stuttgart: Strecher und Schröder. Jón Steffensen (1975). Margrétar saga og ferill hennar á Íslandi. Í Menning og meinsemdir. Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir, bls. 208 – 215. Reykjavík: Sögufélag. Scaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages VII. Poetry on Christian Subjects (2007). Útg. Clunies Ross, M., bls. 891 – 930. Turnhout:Brepols. Stefán Karlsson (1998). Kvennahandrit í karlahöndum. Í Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson, gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998, bls. 378 – 382. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

x

Ljósmæðrablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.