Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 25
25Ljósmæðrablaðið - júní 2012
kíkja í búðir, gaman gaman! Kvöldverður
snæddur á Narfeyrarstofu og var lengi í
minnum haft hversu gott lambakjötið var
þar. Það er nú svo að góður matur gleður
mannsins hjarta.
Árið 2009 var Suðurland fyrir valinu.
Allmargir merkisstaðir heimsóttir.
Ekið um Vatnsleysuströnd, farið
inn í Kálfatjarnarkirkju og Saltfisk-
setrið í Grindavík. Á þessum slóðum
ólst Guðbergur Bergsson rithöfundur
upp, sumar ljósmæður voru kunnugar
þessum stað og gátu bætt ýmsu við sem
fararstjórinn vissi ekki. Á Eyrarbakka
var Húsið skoðað og Lýður Pálsson
safnvörður fræddi hópinn. Það sem var
sérstakt við Húsið á þessum tíma voru
merki um snarpan jarðskjálfta árið áður
og minjar um miklar skemmdir frá þeim
tíma. Í Flóanum var farið í Tré og list =
listasmiðja í Forsæti sem Ólafur Sigur-
jónsson og kona hans veita forstöðu.
Fram kom hjá Ólafi að honum þætti afar
ánægjulegt að taka á móti stórum hópi
ljósmæðra og var með frásögn tengda
þeirri stétt. Hjörtun í 40 ljósmæðrum tóku
gleðihopp og ýmsar réttu betur úr sér.
Næsti viðkomustaður var í listasmiðju
Svanborgar Egilsdóttur ljósmóður á
Selfossi. Höfðinglegar móttökur þar
og gullfallegir munir skoðaðir – og
keyptir, ekki hægt að standast freistingar.
Kvöldverður var snæddur í Rauða Húsinu.
Allt afar gómsætt og þjónustan frábær.
Ef til vill nutum við þess að þáverandi
formaður LMFÍ þekkti vel til þarna og
vakti athygli á hópnum sem var væntan-
legur. Þó þarf það ekki að vera, staðurinn
hefur verið þekktur fyrir góðan mat.
Ferðanefnd Ljósanna
Árið 2010 var ferðanefnd komin til
skjalanna, áður hafði stjórn Ljósanna
haft allan veg og vanda af ferðalögunum.
Ferðanefndin hóf störf af kappi og ætlunin
var að fara í Þórsmörk. Af því varð ekki,
gos í Eyjafjallajökli sá til þess. En nefndin
dó ekki ráðalaus, hún átti önnur plön í
sínum handraða. Farið var um Hvalfjörð,
Saurbæjarkirkja skoðuð undir leiðsögn
prestsins og var þetta mjög áhugavert.
Margar höfðu aldrei í þessa kirkju komið.
Í Skorradal bauð ein nefndarkona upp
á súpu og brauð í sumarbústað sínum.
Svo var ekið um Borgarfjörð, komið
að Deildartunguhver og í Reykholt.
Kvöldverður snæddur í Fossatúni. Ferða-
félagar voru 37.
Árið 2011 var farið í Bása við Þórs-
mörk. Aldrei fór það svo að við kæmumst
ekki þangað. Nú var ferðanefndin svo
snjöll að fá rútubílstjóra sem var lærður
leiðsögumaður og kunni skil á öllu sem
fyrir augu bar á þessari leið. Í upphafi var
Nesjavallaleið ekin og jarðfræðifræðsla
fylgdi með. Mjög sérstakt var að komast
inn að Básum því afleiðingar gossins árið
áður sáust víða, snjórinn grár og trjá-
gróður víða rykugur því aska fýkur áfram
þó gos sé hætt. Í Básum var farið í stuttar
gönguferðir að vali hverrar og einnar. Þarna
grillaði ferðanefnd ljúffengt lambakjöt og
bar fram margskonar meðlæti. Metaðsókn
var í þessari ferð, alls 44 Ljósur.
Á mörgum af þeim stöðum sem þessi
ferðahópur hefur heimsótt hefur fólkinu
á staðnum þótt mikið til þess koma að
fá ljósmæður í heimsókn. Greinilega á
sú stétt mikil ítök í hugum fólks. Þessar
ferðir hafa verið mjög til gleði, en líka
fróðlegar. Að sjálfsögðu er mikið spjallað,
hefðbundinn rútubílasöngur hefur líka
verið viðhafður, einkum á heimleið.
Miðdegiskaffi í Perlunni
Sú venja hefur skapast að hittast í
Perlunni í miðdegiskaffi 1. miðvikudag
hvers mánaðar. Sá misskilningur ríkir að
þessi stund sé eingöngu fyrir Ljósurnar, en
svo er ekki. Oft hafði verið imprað á því
að eftir starfslok væri gaman fyrir ljós-
mæður að hitta fyrri starfsfélaga á kaffi-
húsi og halda þannig sambandi. Þetta kom
til framkvæmda haustið 2005 og gafst vel.
Mæting þarna er breytileg og þó lang-
flestar tilheyri „Ljósunum“ koma stundum
aðrar sem er mjög ánægjulegt.
Hvað gera Ljósurnar?
Það er nokkuð ljóst að þær gleðjast
saman og viðhalda félagsanda sem er
mikilvægur í hverju félagi. Við sem
sendum þennan pistil frá okkur eigum þá
von og trú að samheldni í Ljósudeildinni
eigi þátt í að styrkja ímynd ljósmæðra.
Nám ljósmæðra er gjörbreytt frá því sem
var fyrir áratugum síðan eins og eðlilegt
er í þróun. Það sem áður var má samt
ekki gleymast, það er hluti af grunninum.
Það er aðdáunarvert hvað mikil þekking
og kraftur býr í ljósmóðurstéttinni og ef
„Ljósurnar“ lifa áratugi í viðbót þá mun
þessi kraftur væntanlega koma deildinni
til góða.
Stjórn Ljósanna,
Anna, Ása, Inga, María og Þorgerður.
Í Básum
Súpa á Selfossi