Ljósmæðrablaðið

Årgang

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 38

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Side 38
38 Ljósmæðrablaðið - júní 2012 Það varð til kraftaverk Bryndís heiti ég, er samkynhneigð og á yndislega konu og lítinn dreng sem er kraftaverkið okkar. Mig langar til að segja ykkur frá því hvernig þessi litli kraftaverkadrengur kom til okkar. Við Una kynntumst árið 2009, þá búnar að vita af hvor annarri í nokkuð mörg ár. Það er eiginlega ekki hægt annað en að þekkja flesta samkyn- hneigða þar sem þetta samfélag hér á landi er ekki mjög stórt um sig, en fer þó stækkandi. Þegar við Una kynntumst þá var mig búið að langa í barn í nokkurn tíma og hún var búin að vera að hugsa um það líka, byrjuðum við þess vegna fljótlega að ræða þessi mál eftir að við kynntumst. Það er þekkt í lesbískum samböndum að fara hratt í hlutina og það var dálítið þannig hjá okkur Unu. Við byrjuðum saman í júní 2009, vorum byrjaðar að búa í september sama ár og fljótlega á árinu 2010 vorum við byrjaðar að tala um og undir- búa barneignir. Við ákváðum að gera þetta ekki alveg á hefðbundinn máta, sem er þá tæknisæðing, heldur að fara beint í glasa- frjóvgun, nota Unu egg en ég myndi ganga með barnið. Þetta er bæði mikið umfangs- meira og mun dýrara, en svona vildum við gera þetta. Ferlið hófst seint um sumarið á ArtMedica þar sem við byrjuðum á að fara í viðtal, svo vorum við báðar sendar í allsherjar- blóðprufu. Þar á eftir völdum við sæðisgjafa og svo byrjaði ballið. Með þessari aðferð þá þarf að nota ansi mikið af hormónum og þar sem við notuðum eggið hennar Unu þurfti hún að gangast undir meiri hormónameðferð en ég, meðal annars þurfti að sprauta hormónum í hana. Þetta þurfti allt að gerast á ákveðnum tímum og mátti lítið bera út af. Ég þurfti hins vegar bara að taka töflur. Svo þegar allt var tilbúið eftir að mig minnir um rúman mánuð, það er búið að bæla allt niður og örva það svo upp þannig að hún sé tilbúin, þá fórum við í eggheimtu svokallaða. Hún er framkvæmd hjá ArtMedica af læknum og hjúkrunarfræðingum og getur verið mjög sársaukafull. En notast er við sterk verkjalyf til að gera þetta bærilegra. Fyrir utan sársaukann þá er líka kvíði og spenna yfir því hvort það náist ekki nógu mörg egg, og svo bið eftir því að vita hvort einhver þeirra frjóvgist í glasafrjóvguninni. Hjá okkur var bara einn nothæfur fósturvísir og hann var settur upp tveimur dögum síðar. Síðan tekur við biðin, þessi erfiða bið uppá von og óvon um hvort þetta hafi tekist eða ekki. Því þetta er bæði mjög dýrt og svo er þetta mjög erfitt ferli að ganga í gegnum. Svo um tveimur vikum síðar þá fer ég í blóðprufu og símtalið á síðan að koma eftir kl. 14:00 þann sama dag. Við gerðum þau mistök að vera í vinnu þennan dag því auðvitað vorum við báðar nánast óvinnufærar, bíðandi eftir símtalinu sem gæti breytt lífi okkar svo mikið. Símtalið kemur, og svarið er neikvætt! Hræðileg sorg, ég get ekki klárað vinnudaginn og fer heim. En við ákváðum að gefast ekki upp og halda strax áfram. Við fórum og töluðum við lækninn okkar hjá ArtMedica og byrjuðum strax á nýju ferli um leið og það var hægt, u.þ.b. mánuði seinna. Af því við gerðum þetta með svo stuttu millibili þá var þetta einhvern veginn bæði erfiðara og auðveldara. Erfitt að fara aftur í gegnum hormónameðferðina og auðveldara af því við vissum núna hvað við vorum að ganga í gegnum svona nýbúnar að gera það. Svo var það eggheimtan aftur, sem var mun kvalafyllri fyrir elsku Unu mína, en í þetta skiptið fengum við tvo góða fósturvísa úr glasafrjóvguninni og við tók reikistefna um það hvort við ættum að setja báða upp eða eiga hinn til góða, því þeir hjá ArtMedica geyma í frysti fósturvísa ef við viljum nota seinna. Eftir smá umhugsun þá ákváðum við að setja bara annan og frysta hinn. Ég fór í uppsetninguna og við tók biðin, en það sem ég gerði öðruvísi í þetta skiptið var að ég tók mér veikindafrí á meðan biðinni stóð og sé svo alls ekki eftir því. Síðan rann upp dagurinn, byrjað á blóðprufu og svo biðin til kl. 14:00. En það símtal var eitt besta símtal sem ég hef fengið á ævinni, þegar mér var tilkynnt að svarið væri jákvætt man ég að ég hrópaði: „YES“, og hjúkrunarkonan í símanum skellti uppúr og við Una grétum saman af spenningi og gleði. Nú var lífið að breytast, en hversu mikið vissi ég ekki. Ég átti alveg frábæra meðgöngu og leið rosalega vel, við vorum rosalega heppnar með yndislega ljósmóður í mæðraverndinni og henni fannst mikið til aðferðarinnar koma sem við notuðum, eða það að ég var að ganga með eggið hennar Unu. Aldrei fundum við fyrir neinum fordómum af neinu tagi hvorki hjá henni eða þegar við fórum í ómskoðanir. Þegar ég hugsa tilbaka þá var þetta yndis- legur tími og það voru eiginlega bara 10 síðustu dagarnir af meðgöngunni erfiðir, en ég fór 10 daga framyfir. En svo kom að fæðingunni og það var nú önnur saga. Ég átti semsagt frekar erfiða fæðingu, hún stóð yfir í 11 klst. og endaði með því að drengurinn okkar var tekinn með sogklukku. Sú stund þegar drengurinn okkar kom loksins í fangið er fallegasta, mikilvægasta og yndislegasta stund sem ég hef upplifað, bæði vegna léttis yfir því að fæðingin væri búin, en auðvitað og aðallega vegna þess að hann var kominn til okkar eftir alla þessa bið. Hann er orðinn rúmlega níu mánaða í dag og er ótrúlega gáfaður, rosalegur orkubolti og það fallegasta sem við mæðurnar höfum nokkurn tímann upplifað í lífinu. Samkynhneigt fólk á Íslandi finnst mér njóta forréttinda, við stöndum framar en flestallar aðrar þjóðir varðandi svo margt og á ArtMedica verða kraftaverkin til. Við þekkjum marga sem hafa eignast lítil kraftaverk þar bæði samkynhneigða og gagnkynhneigða. Og við erum svo heppin að þessi staður skuli vera til og að við höfum rétt til að nota hann. Drengurinn okkar er kraftaverkið okkar og lífið hlaut svo sannarlega nýjan tilgang þegar hann kom til okkar. Hann er mjög heppinn þessi litli drengur því hann á tvær mömmur og er rosalega mikið elskaður. Og þar sem mömmurnar eru nú tvær þá er aldrei að vita nema hann eignist lítið kraftaverkasystkini :) Bryndís Ruth Gísladóttir Una, Bryndís og Sindri Þór

x

Ljósmæðrablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.