Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Síða 40
40 Ljósmæðrablaðið - júní 2012
Lífið sem jordmor
Fljótlega eftir að við byrjuðum í ljós-
mæðranáminu var ljóst að ekki yrði slegist um
starfskrafta okkar að útskrift lokinni. Var það
ein af ástæðunum fyrir því að við fjölskyldan
lögðum land undir fót og fluttum til Noregs.
Ég fékk vinnu á kvennadeildinni á
Haukeland sjúkrahúsinu í Bergen strax eftir
útskrift 2011. Í húsinu eru árlega um 5.000
fæðingar og fimm deildir þar sem ljós-
mæður starfa: Fæðingardeildin, Storkurinn,
Barsel-1, Barsel-2 og Observasjonspost for
gravide. Var svo heppin að fá að byrja starfs-
ferilinn á Storkinum, sem er svipuð deild og
Hreiðrið, þar sem ég fékk góðar móttökur og
aðlögun. Eftir sumarið var ég svo flutt á deild
sem heitir Barsel 1 og er sængurkvennadeild
fyrir mæður og börn sem þurfa aukið eftirlit
og umönnun. Þar liggja til dæmis konur með
meðgöngueitrun, eftir keisaraskurð, mæður
með lítil börn, tvíbura og fleira. Þar átti ég
annasama, lærdómsríka og skemmtilega tíma
þar til í febrúar þegar ég byrjaði í nýrri stöðu
sem er kölluð senter. Þar er okkur ráðstafað
á deildir eftir þörfum hverju sinni, hvort
sem það er vegna veikinda eða mikils álags.
Stöðunni fylgja bæði kostir og gallar. Kostirnir
eru meðal annars þeir að fjölbreytnin er mikil,
lærdómstækifærin eru á hverju strái og við
fáum reglulega að taka á móti nýjum Norð-
mönnum. Gallarnir eru aftur á móti þeir að
oft vitum við ekki á hvaða deild okkur hefur
verið ráðstafað fyrr en við mætum, skortur er
á samfellu í starfi og erfitt að ná góðri færni á
öllum deildum.
Starfið hér í Bergen er að mestu leyti mjög
svipað og á Íslandi þó sumt sé frábrugðið.
Hér tíðkast til dæmis ennþá að gefa konum
úthreinsun þegar þær koma inn í fæðingu til
að auka sóttina, tangir eru notaðar mun meira
en sogklukkur, hlutfallslega lítið er um vatns-
fæðingar en sitjandi fæðingar eru næstum
daglegt brauð. Á fæðingardeildinni er notast
við ST-greini (STAN) við vissar ábendingar.
ST-greinir er fósturrit sem nemur ST-breytingar
í hjartalínuriti barnsins í gegnum elektróðu
og gefur þannig vísbendingu um hversu vel
barnið er í stakk búið að takast á við komandi
álag. Kemur þessi tækni að mestu í stað þess að
taka pH frá höfði barnsins en hins vegar er sem
stendur tekið naflastrengs-pH hjá öllum börnum
sem fæðast í húsinu óháð fæðingarmáta. Eftir
fæðinguna liggja konur hér almennt lengri
sængurlegu en á Íslandi þar sem heimaþjónusta
er mjög takmörkuð og mismunandi eftir
sveitarfélögum hvernig að henni er staðið.
Bergen býður upp á heimaþjónustu en aðeins
tvær ljósmæður sinna henni og anna þess
vegna ekki eftirspurn. Samfélagið er fjöl-
breyttara en á Íslandi og því ekki óalgengt að
upplifa tungumálaörðugleika og menningar-
mun í vinnunni. Getur það verið krefjandi en
jafnframt fræðandi og skemmtilegt. Húsnæðið
sem hýsir kvennadeildirnar er yfir 100 ára
gamalt og hefur eflaust mátt muna fífill sinn
fegurri. Meðan málningin nær varla að þorna
á veggjunum á Íslandi áður en nýjar breytingar
eru fyrirhugaðar má finna 22ja ára límmiða um
hreinlætisátak á hurðum fæðingardeildarinnar
hér. Kom mér á óvart hversu mikill sparnaður
er innan heilbrigðiskerfisins hér og ekki mikið
sem minnir á að ég sé stödd í einu ríkasta landi
heims þegar húsnæði og tækjabúnaður er skoð-
aður.
Að flytja með fjögurra manna fjölskyldu
milli landa reyndi á þolrifin til að byrja með
en í dag erum við búin að koma okkur vel
fyrir. Ýmislegt sem virðist sjálfsagt eins og
að muna kennitöluna sína, borga reikningana
í heimabankanum og rata heim til sín gat
verið flókið í fyrstu. Lífið hér er líka í öðrum
takti en við vorum vön á Íslandi og tók það
tíma að finna hann. Hér er til dæmis lokað
í nær öllum verslunum á sunnudögum,
kvöldmaturinn yfirleitt milli kl 16 og17 og
getur tekið upp í sex vikur að fá nettengingu
eða kaupa sófa. Við minniháttar slys er ekki
sjálfsagt að ganga inn á bráðamóttöku að
kvöldi og fá röntgenmynd heldur verður
fólk að koma á dagvinnutíma. Fólk virðist
taka lífinu meira með ró og nýta frítímann í
samveru með fjölskyldunni og dytta að ýmsu
í kring um sig.
Launin hér eru skemmtilega há ef þau
eru reiknuð yfir í íslenskar krónur en slíkur
samanburður er þó óraunhæfur þar sem
öll okkar útgjöld eru í norskum krónum.
Vinnuvikan hér er samt sem áður styttri og
launin drýgri. Niðurstaðan er að í dag höfum
við meiri tíma fyrir fjölskylduna og meiri
pening aflögu en áður en við fluttum.
Grasið er ekki grænna hinum megin bara
aðeins annar tónn af grænum lit ;)
Á eftirfarandi slóð er hægt að skoða fleiri
myndir frá kvennadeildinni á Haukeland:
http://www.helse-bergen.no/omoss/
avdelinger/fodeseksjonen/
Rakel Ásgeirsdóttir,
ljósmóðir á Haukeland sjúkrahúsinu
í Bergen
Rakel i vinnuni