Morgunblaðið - 02.02.2019, Blaðsíða 49

Morgunblaðið - 02.02.2019, Blaðsíða 49
MENNING 49 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. FEBRÚAR 2019 VIÐTAL Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Jakob Frímann Magnússon er einn þeirra manna sem sitja aldrei kyrrir og eru alltaf með eitthvað á prjón- unum. Og nú hefur hann orðið við áskorun áhugasamra vina sinna um að flytja einyrkjaskífu sína Horft í roðann, sem hann gaf út á Þorláks- messu árið 1976, á tónleikum í Bæj- arbíói í Hafnarfirði og það í fyrsta sinn. Platan hefur nefnilega aldrei verið flutt á tónleikum því Jakobi gafst ekki tími fyrir útgáfutónleika á sínum tíma. En nú er lag og tón- leikar hafa verið bókaðir í mars. Síð- búnir útgáfutónleikar, mætti segja. „Nei er ekki nokkurt svar“ „Þessi plata, sökum viðvarandi fjarvista minna, fékk aldrei útgáfu- tónleika og hefur aldrei verið flutt opinberlega,“ segir Jakob en af þekktum lögum á plötunni má nefna „Saurlífisseggur“, „Röndótta mær“, „Umboðsmenn Drottins“ og „Sól í dag“. Hann segist halda að Jóhann Hjörleifsson trommuleikari hafi fyrstur ýtt á hann, fyrir um þremur árum, að flytja plötuna í heild sinni á tónleikum og síðan Bjarni Bragi Kjartansson bassaleikari. Ekki gafst Jakobi tími til slíks tónleikahalds en svo var ýtt í þriðja sinn, árið 2017. Var það Páll Eyjólfsson sem ýtti, sá sem nú sér um rekstur Bæjarbíós í Hafnarfirði þar sem tónleikarnir verða haldnir. Páll nefndi nokkrar dagsetningar við Jakob sem bar við annríki og þá greip Páll til þess ör- þrifaráðs að bóka tónleika 16. mars, að Jakobi forspurðum. „Nei er ekki nokkurt svar,“ sagði Páll við Stuð- manninn og tilkynnti honum hvenær hann ætti að halda tónleikana. „Þá ákvað ég nú að líta á þessa eggjun sem eitthvað sem ég ætti að taka mark á,“ segir Jakob sposkur. Allt er þá þrennt er. Jakob segir að beinast hafi legið við að félagar hans og liðsmenn í djasssveitinni Jack Magnet Quintet flyttu plötuna með honum á tónleik- unum, þeir Eyþór Gunnarsson, Þor- valdur Þór Þorvaldsson, Guð- mundur Pétursson og Róbert Þórhallsson. „Afburðamenn, hver og einn, á sínu sviði,“ segir Jakob um þá félaga og útilokar ekki að leyni- gestur muni læðast aftan að þeim á sviðinu. Líf að lokinni jarðvist „Þetta er mín fyrsta sólóplata, unnin á árunum 1975-6, fyrstu upp- tökur fóru fram í Los Angeles í októ- ber og nóvember ’75 og síðan var hún unnin í Bretlandi og á Íslandi haustið og veturinn ’76,“ segir Jakob þegar hann er spurður út í þessa merku plötu sem hvergi er fáanleg. „Það var mikil lokatörn sem endaði með því að upptökumaðurinn fékk hálfgert taugaáfall af svefnleysi því sessjónirnar byrjuðu klukkan tíu á morgnana og enduðu stundum klukkan fjögur um nótt. Tony Cook, upptökumaður frá Bretlandi, reynd- ist kannski ekki með þann uppsafn- aða vítamínforða sem Íslendingar hafa almennt komið sér upp í gegn- um heilagfiskið,“ segir Jakob og tek- ur fram að upptökumaðurinn hafi sem betur fer ekki farið yfir móðuna miklu, ólíkt sögumanni, honum Ívari frá Breiðafirði. Horft í roðann er konseptplata og er hvergi fáanleg í dag, sem fyrr segir, hvorki í föstu formi né raf- rænu en þó má finna hana í snældu- formi í nokkrum bókasöfnum lands- ins. Spurður út í mögulega endur- útgáfu útilokar Jakob ekkert en verst þó allra yfirlýsinga í þá veru. Platan fjallar um líf að lokinni jarðvist og hefst sagan í sól og blíðu, bjart fram undan en svo brestur á með illviðri. „Báturinn ferst og Ívar þar með og er töluverðan tíma að átta sig á því hvað er að gerast, er í einhvers konar limbói eins og eitt lagið heitir. Hann fer síðan að horfa um öxl og átta sig á lífi og starfi, fyrstu ástinni, öllum þeim freist- ingum sem hann hefur fallið fyrir og því jarðneska brölti og andlega lífi sem hann hefur upplifað,“ útskýrir Jakob. Aðgöngumiði að Warner-bræðrum Jakob segir plötuna blöndu af há- alvarlegu efni og öðru glaðbeittara, blöndu sönglaga og instrúmental ópusa. „Þetta er platan sem varð að- göngumiði minn að þeim hljóm- plötusamningi sem mér bauðst í Bandaríkjunum á því herrans ári 1977. Það var fyrsti hljómplötu- samningur sem gerður var við Ís- lending af stórfyrirtæki í útlöndum,“ segir Jakob en fyrirtækið var sjálft Warner Bros. eða Warner-bræður. Samið var við Jakob um útgáfu tveggja platna og samningurinn þótti einstaklega góður því Jakob hlaut 250 þúsund dollara fyrirfram- greiðslu sem var dágóð summa á þeim tíma og gerði Jakobi kleift að lifa og starfa við tónlist í Los Angel- es. Úr urðu plöturnar Special Treat- ment og Jack Magnet og í framhaldi af þeim Timezone sem hét Tvær systur á íslensku. Bullsveittur Collins Úrvalslið hljóðfæraleikara lék með Jakobi á Horft í roðann, þeirra á meðal trymbillinn Phil Collins sem þá hafði gert garðinn frægan með proggrokksveitinni Genesis, Neil Hubbard gítarleikari, trommarinn Preston Heyman og Ray Babb- ington bassaleikari. Þungavigtar- menn. Og bakraddasöngvarar voru ekki af verri endanum heldur, þeirra á meðal Björgvin Halldórsson og Jó- hann Helgason. Jakob segir að á þessum tíma hafi proggrokkið verið að þróast yfir í rafmagnað djassrokk. Weather Re- port og aðrar slíkar sveitir nutu mik- illa vinsælda og hér heima var það Mezzoforte sem gerði garðinn fræg- an. Blaðamanni leikur mest forvitni á að vita hvernig Collins hafi komið Jakobi fyrir sjónir, að öðrum leik- mönnum ólöstuðum, og segist Jakob hafa þekkt hann fyrir úr öðru verk- efni og rifjar svo upp upptökur. „Hann átti stjörnuleik og ég man að þegar við vorum búnir að gera fjórar atlögur að hinu tiltölulega flókna og framsækna lagi „Horft í roðann“ – og þetta var að kvöldlagi – átti eftir að taka upp „Limbo“ sem er síðasta lagið á plötunni. Það er ansi hraður taktur þar og krefjandi og þegar við vorum búnir að spila það þrisvar sinnum var sprottinn fram ansi mik- ill sviti, bæði á enni og í handar- krikum Philips, og hann kom más- andi inn í stúdíó og sagði afsakandi: „Ég held ég sé búinn að segja það sem ég hef að segja í þessu „take-i“ á laginu. Með öðrum orðum: „Ég hef eiginlega ekki þrek í meira,““ segir Jakob og hlær innilega að minning- unni um bullsveittan Collins. Svífandi kona í hvítum klæðum Jakob segir að lokum að ekki megi gleyma þætti Önnu Björnsdóttur við gerð plötunnar, hans þáverandi heit- konu og síðar eiginkonu. Hún tók ríkan þátt í plötugerðinni, hannaði umslagið og ritaði sjálf, með eigin hendi, alla texta og upplýsingar og stýrði líka myndatökunni fyrir um- slagið. Framan á því svífur kona í lausu lofti í hvítum klæðum og fyrir utan herbergið, í myrkvuðum glugga, sést upplýst spurning- armerki. Já, dularfullt er það í meira lagi og forvitnilegt verður að heyra söguna alla í Bæjarbíói. Miðasala á tón- leikana er hafin á midi.is. Morgunblaðið/Eggert Endurlit Jakob Frímann rifjar upp sólóplötuna Horft í roðann í Bæjarbíói 16. mars. Hér sést hann með rjóðan himin að baki sér við sjávarsíðuna í höfuðborginni á frostköldum degi, rúmum 42 árum eftir útgáfu plötunnar. Dulúðugt Umslag hljómplötunnar Horft í roðann frá árinu 1976. Síðbúnir útgáfutónleikar  Horft í roðann, sólóplata Jakobs Frímanns Magnússonar frá árinu 1976, verð- ur flutt í fyrsta sinn í heild á tónleikum í Bæjarbíói 16. mars  Hvergi fáanleg Efnisveitan Net- flix hefur tryggt sér heimssýning- arréttinn á ís- lensku spennu- þáttaröðinni The Valhalla Mur- ders sem er framleidd af ís- lensku fyrirtækj- unum Truenorth og Mystery í samstarfi við RÚV. Samningurinn við Netflix var gerður fyrir milli- göngu RÚV og DR Sales, sölufyr- irtækis danska ríkisútvarpsins, skv. tilkynningu. Netflix hefur áður keypt sýningarrétt á tilbúnum ís- lenskum þáttaröðum en þetta mun vera í fyrsta sinn sem Netflix kem- ur með eins umfangsmiklum hætti að fjármögnun og framleiðslu ís- lenskrar þáttaraðar, segir í tilkynn- ingunni. The Valhalla Murders er sköpunarverk Þórðar Pálssonar sem er jafnframt einn af leikstjór- um þáttanna og með burðarhlut- verk fara Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir. Netflix sýnir Valhalla Murders Nína Dögg Filippusdóttir Sænska popp- stjarnan Zara Larsson og enski popparinn James Bay munu hita upp fyrir Ed Sheeran á tón- leikum hans á Laugardalsvelli í sumar. Bæði njóta þau mikilla vinsælda víða um heim og verður því mikill stjörnufans í Laugardal 10. og 11. ágúst. Lars- son hélt tónleika á Íslandi í októ- ber 2017 en Bay hefur ekki komið fram áður hér á landi. Uppselt er á tónleikana 10. ágúst en enn til miðar á aukatónleikana 11. ágúst, að því er fram kemur í til- kynningu frá skipuleggjendum tón- leikanna. Larsson og Bay á tónleikum Sheeran Zara Larsson James Bay

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.