Morgunblaðið - 21.03.2019, Blaðsíða 37
37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. MARS 2019
Fyrir mörgum árum
fengum við Árni heitinn
Vilhjálmsson, prófessor
og útgerðarmaður, dr.
Benjamín Eiríksson
bankastjóra til að
snæða með okkur og
rabba við okkur um líf
sitt og starf. Benjamín
lék á als oddi og hafði
frá mörgu að segja.
Þegar liðið var á kvöld,
rifjaði Árni upp gaman-
sögu, sem Ólafur Jónsson, kenndur
við Oddhól, hafði sett á bók. Benja-
mín hafði í bankastjóratíð sinni lánað
Ólafi fyrir andabúi og vildi eitt sinn
skoða framkvæmdirnar. Endur Ólafs
voru talsvert færri en hann hafði gef-
ið upp í áætlunum, og brá hann á það
ráð að eigin sögn að láta þær trítla
nokkra hringi í kringum hús búsins,
svo að þær virtust miklu fleiri en
raun var á, og blekkti með því banka-
stjórann. Árni spurði Benjamín,
hvort eitthvað væri hæft í þessari
sögu. Benjamín brást hinn versti við
og sagði, að hún væri fáránlegur upp-
spuni.
Góð saga, en ekki sönn
Eftir að við höfðum ekið Benjamín
heim til sín, kímdum við Árni yfir því,
að hinn hálærði bankastjóri skyldi
komast í uppnám yfir þessari mein-
lausu gamansögu. Auðvitað var hún
ekki sönn, heldur alþjóðleg flökku-
saga. Okkur fannst Benjamín óþarf-
lega viðkvæmur fyrir henni. Líklega
ætti líka að brosa að gamansögu frá
Helga Magnússyni fjáraflamanni í
nýútkominni ævisögu, sem Björn Jón
Bragason skráði eftir honum: „Ein-
um manni tókst þó að leika á okkur
og sýndi með því „snilli“ sína.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson,
stjórnmálafræðiprófessor, kom til
fundar við okkur Orra Hauksson,
framkvæmdastjóra SI, og kynnti fyr-
ir okkur verkefni sem hann nefndi
„Græna hagkerfið“. Það snerist um
að gera stutta kvikmynd um um-
hverfisvæna atvinnustarfsemi á Ís-
landi. Í fljótu bragði virtist þetta hafa
yfir sér jákvæðan svip fyrir atvinnu-
lífið þannig að við Orri féllumst á að
SI styddi þessa framkvæmd um eina
milljón króna. Nokkrum dögum síðar
sat ég fund í framkvæmdastjórn SA.
Þá segir Vilhjálmur Egilsson okkur
frá því að hann hafi fallist á að styðja
verkefni Hannesar Hólmsteins um
eina milljón króna. Ég hrökk þá við
og sagði að hann hefði fengið eina
milljón frá Samtökum iðnaðarins og
ég hefði haldið að það væri nægilegt.
Þá hrópaði Friðrik Arngrímsson,
framkvæmdastjóri LÍÚ: „Andskot-
inn, hann kom líka við hjá okkur og
náði milljón af LÍÚ með sleipri sölu-
mennsku!“ Ég hef engar spurnir haft
af þessari fyrirhuguðu kvikmynd.“
Sagan er skemmtileg, en eins og
stundum gerist um góðar sögur, er
hún ekki sönn. Í árslok 2009 sneri ég
mér til Friðriks Arngrímssonar,
framkvæmdastjóra LÍÚ (Lands-
sambands íslenskra útvegsmanna),
með hugmynd um sam-
starfsverkefni undir
heitinu „Umhverfis-
vernd, eignaréttindi og
auðlindanýting“. Var
erindið, að LÍU aðstoð-
aði við verkefnið. Frið-
rik leist vel á, en taldi
þurfa atbeina annarra
atvinnurekenda-
samtaka, SI (Samtaka
iðnaðarins) og SA
(Samtaka atvinnulífs-
ins). Átti ég þá fund um
málið með Helga
Magnússyni, formanni
SI, og Jóni Steindóri Valdimarssyni,
framkvæmdastjóra SI. Tóku þeir
mér hið besta, og ákvað SI að taka
þátt í verkefninu. SA varð einnig aðili
að verkefninu, en reiddi af höndum
talsvert minna fé, enda var þáverandi
framkvæmdastjóri SA, minn góði
vinur Vilhjálmur Egilsson, lítt útbær
á fé. Er verkefninu rækilega lýst í
skriflegum greinargerðum, sem ég
sendi til þessara samstarfsaðila. Átti
það að felast í ritgerðum mínum,
málstofum, ráðstefnum, ekki síst al-
þjóðlegum, og bók eftir mig um
„grænan kapítalisma“. Ég tók fram,
að ég myndi reyna að taka upp erindi
á ráðstefnum og vinna úr þeim og
öðru efni heimildarmynd, en auðvitað
að því gefnu, að nægt fé fengist til
framleiðslu og slík mynd yrði tekin til
sýningar í sjónvarpi. SI lagði fram fé
til verkefnisins árin 2010 og 2011.
Eins og segir í verklýsingu rann ekk-
ert af þessu fé í minn vasa, heldur var
það notað í sérfræðiþjónustu, tölvu-
vinnslu, ferðakostnað og annað slíkt
og þætti ekki mikið.
Væri sagan hins vegar sönn, þá
hefði Helgi Magnússon heldur betur
samið af sér fyrir hönd SI og látið
mig leika á sig. Hefur hann þó ósjald-
an gortað af því og það jafnvel alls-
gáður, að hann sé einhver snjallasti
samningamaður Íslands fyrr og síðar
og gæti ætíð hagsmuna sinna og um-
bjóðenda sinna út í ystu æsar. Nú
stendur hann uppi að eigin sögn sem
sannkallaður samningaglópur í við-
skiptum við mig, bragðarefinn. Síðan
held ég að vísu, að ég verðskuldi ekki
að heita styrkjasnillingur, en við hinu
vil ég fúslega gangast, að ég er
styrkjamaður: Ég hef hátt í hálfa öld
lagt mig fram um að styrkja þau
verðmæti, sem Íslendingum hafa
dugað best í harðri lífsbaráttu á
hrjóstrugri eyju langt úti á Ballar-
hafi. Sögnin að styrkja er mín sögn.
Til dæmis skrifaði ég heila bók til
varnar kvótakerfinu, sem þá var að
myndast, þegar Alþingi tók á dag-
skrá endurskoðun kerfisins vorið
1990, en þeirri endurskoðun lauk
með heildstæðri löggjöf, sem reynst
hefur farsæl. Ég barðist líka áratug-
um saman fyrir auknu atvinnufrelsi,
sem gerði Helga Magnússyni og
mörgum öðrum kleift að efnast, án
þess að gróði þeirra yrði annarra tap.
Best kom í ljós í því efnahagslega
fárviðri, sem geisaði um allan heim
árin 2007-2009 og kom illa niður á Ís-
lendingum, hversu traustar undir-
stöður höfðu verið lagðar með um-
bótum í frjálsræðisátt 1991-2004,
sem ég átti vonandi einhvern þátt í að
móta. Við vorum þeirra vegna fljót að
rétta okkur við.
Hvernig var verkefnið
af hendi leyst?
Gamansaga Helga Magnússonar
veitir mér þó tækifæri til að fara að-
eins yfir, hvernig því verkefni var
sinnt, sem SI, LÍÚ og SA áttu aðild
að á sínum tíma og hófst árið 2011:
Í 1. hefti 7. árg. Þjóðmála 2011
skrifaði ég um þokkafull risadýr
(charismatic megafauna) í ljósi
frægrar smásögu Georges Orwells
um, þegar hann skaut fílinn.
Í 2. hefti 7. árg. Þjóðmála 2011
skrifaði ég undir fyrirsögninni
„Raddir vorsins fagna“ um hrakspár
umhverfisöfgamanna og gagnstæðan
dóm reynslunnar.
19. júní 2012 var haldin málstofa
í Rio de Janeiro í tengslum við al-
þjóðlegu umhverfisráðstefnuna
Rio+20, og þar töluðum við Julian
Morris, sérfræðingur Reason
Foundation um eignarrétt og um-
hverfisvernd.
27. ágúst 2012 flutti hinn heims-
kunni rithöfundur Matt Ridley fyrir-
lestur í Reykjavík um endurnýj-
unarmátt kapítalismans, en hann
hafði samið metsölubókina Heimur
batnandi fer (The Rational Optimist).
Í 2. hefti 8. árg. Þjóðmála 2012
skrifaði ég um „göfuga villimenn“, en
sú goðsögn er ein uppistaðan í áróðri
umhverfisöfgamanna.
6. október 2012 var haldin al-
þjóðleg ráðstefna í Reykjavík um
„fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar“,
og á meðal fyrirlesara voru for-
stöðumaður fiskveiðideildar FAO,
Matvæla- og landbúnaðarstofnunar
Sameinuðu þjóðanna, sérfræðingur
OECD, Efnahags- og samvinnu-
stofnunarinnar, í fiskveiðum og sér-
fræðingur Alþjóðabankans um fisk-
veiðar og margir fræðimenn, þar á
meðal prófessorarnir Rögnvaldur
Hannesson, Þráinn Eggertsson og
Ragnar Árnason. Skipulagði ég
ásamt öðrum ráðstefnuna.
26. október 2012 flutti ég erindi
á ráðstefnu Félagsvísindasviðs um
peningalykt í íslenskum sjávar-
þorpum í ljósi kenninga Pigous og
Coases. Kom kaflinn út í ráðstefnu-
riti sviðsins.
Í 3. hefti 9. árg. Þjóðmála 2013
sagði ég frá alþjóðlegri ráðstefnu um
þróunarkenningu Darwins og um-
hverfismál, sem ég sótti á Galapagos-
eyjum vorið 2013.
14. október 2013 var haldin al-
þjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands í
minningu Árna Vilhjálmssonar, og á
meðal fyrirlesara voru einn kunnasti
fiskihagfræðingur heims, prófessor
Ralph Townsend, og prófessor Ragn-
ar Árnason. Skipulagði ég ráðstefn-
una.
Í október 2014 gaf Almenna
bókafélagið út bók Matts Ridleys,
Heimur batnandi fer, og sá ég um út-
gáfuna. Gerði Ridley sér ferð til Ís-
lands og kynnti bókina á málstofu 30.
október 2014.
24. október 2014 var haldin mál-
stofa um auðlindaskatt og auðlegðar-
skatt, þar sem við prófessorarnir
Corbett Grainger og Ragnar Árna-
son fluttum erindi.
8. október 2015 var haldin al-
þjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands
um fræðileg verk prófessors Rögn-
valds Hannessonar, þar á meðal um
bókina Umhverfisöfga (Ecofunda-
mentalism). Rögnvaldur flutti inn-
gangsfyrirlestur, en Julian Morris og
prófessor Bengt Kriström brugðust
við. Skipulagði ég ráðstefnuna.
Árið 2015 gaf Háskólaútgáfan út
eftir mig bókina The Icelandic Fish-
eries: Sustainable and Profitable. Þar
er rætt almennt um skynsamlega og
réttláta auðlindanýtingu, en síðan
sérstaklega um skipan fiskveiða á Ís-
landsmiðum. Er hún aðgengileg á
Netinu.
Í framhaldi af útkomu bókar-
innar flutti ég þrjá fyrirlestra árið
2016 um umhverfisvernd og skipan
fiskveiða: hjá Landssambandi per-
úskra útvegsmanna í Lima 21. jan-
úar, hjá atvinnumálaráðuneyti Perú í
Lima 26. janúar og á málstofu IEA í
Flórens 8. september.
29. ágúst 2016 var haldin al-
þjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands
um sjónarmið við upphaflega út-
hlutun veiðiréttinda. Töluðu þar með-
al annarra prófessorarnir Gary Libe-
cap, Ragnar Árnason og Charles
Plott. Við Ragnar Árnason skipulögð-
um ráðstefnuna.
23. október 2017 gaf Almenna
bókafélagið út bókina Framfarir
(Progress) eftir Johan Norberg, og
gerði höfundur sér ferð til Íslands í
því skyni að kynna bókina sama dag.
Er þar rætt um mörg stef í rannsókn-
arverkefninu.
Þá er komið að því, sem mikil-
vægast er í þessu verkefni: Árið 2017
kom út hjá hugveitunni New Direc-
tion í Brussel rit eftir mig um grænan
kapítalisma, Green Capitalism: How
to Protect the Environment by Def-
ining Private Property Rights. Var
það 69 bls. í stóru broti, væntanlega
um 100 bls. í venjulegu bókarbroti.
Þar eru meðal annars kaflar um
hrakspár, mengun, regnskóga, lax-
veiðiár, beitarréttindi til fjalla, afla-
heimildir á Íslandsmiðum og nýtingu
fíla, nashyrninga og hvala. Kynnti ég
ritið á alþjóðlegri ráðstefnu í Brussel
24. maí 2018, en meðal annarra fyr-
irlesara var hinn heimskunni heim-
spekingur Roger Scruton. Hélt ég
þar meðal annars uppi vörnum fyrir
makrílveiðar og hvalveiðar Íslend-
inga. Jafnframt birti ég stuttar grein-
ar í tímaritum í Brüssel til kynningar
efninu.
Ritið er aðgengilegt á netinu
Verkefnið teygði sig yfir lengra
tímabil en ég hafði í upphafi gert ráð
fyrir, og nægir styrkir fengust því
miður ekki til að gera heimildarmynd
um það, eins og ég hafði vonast til.
Ég tel þó, að allir hlutaðeigendur, SI,
LÍÚ og SA, megi vel við una. Hefði
skrásetjari Helga, Björn Jón Braga-
son, að ósekju mátt bera söguna góðu
undir mig, en auðvitað hefði þá komið
í ljós, að hún var ósönn. Ef menn vilja
vera sagnamenn frekar en sagnarit-
arar, þá hafa þeir vitaskuld það, sem
best hljómar, ekki hitt, sem sannara
reynist.
Í annað sinn í uppsláttarfrétt
Netritið Visir.is birti uppsláttar-
frétt um þessa sögu Helga Magnús-
sonar án þess að leita til mín um
sannleiksgildi hennar. Svo ein-
kennilega vill til, að þetta er í annað
skiptið, sem ég rata í fjölmiðla vegna
Helga. Árið 1986 höfðu nokkrir for-
svarsmenn Hafskips, sem orðið hafði
gjaldþrota árið áður, um skeið setið í
gæsluvarðhaldi, þar á meðal Helgi,
sem verið hafði endurskoðandi fé-
lagsins. Ég hafði skrifað í tímarit:
„Stjórnendur eða eigendur gjald-
þrota fyrirtækja eru stundum fórn-
arlömb utanaðkomandi aðstæðna,
sem þeir hafa ekki séð fyrir eða vald-
ið neinu um. Ég hef til dæmis grun
um það, án þess að ég þekki mála-
vöxtu nákvæmlega, að stjórnendur
Hafskips hafi verið óheppnir, þótt
þeir hafi ugglaust líka verið
ógætnir.“ Þessi varfærnislegu orð
þóttu slík ósvinna, að Alþýðublaðið
sló þeim upp á forsíðu blaðs, sem
dreift var í hvert hús í Reykjavík fyr-
ir borgarstjórnarkosningarnar þá
um vorið. Ætlaði Alþýðuflokkurinn í
kosningabaráttunni að gera sér mat
úr Hafskipsmálinu, þótt hann hefði
að vísu ekki erindi sem erfiði. En á
sama hátt og ég mælti fyrir frelsi
Helga og annarra athafnamanna til
að græða, svo framarlega sem þeir
gangi ekki á rétt annarra, barðist ég
einmitt fyrir rétti hans og þeirra líka
til eðlilegrar málsmeðferðar. Ég tel,
að forsvarsmenn Hafskips hafi ekki
notið þessa réttar og fjölmiðlar og
rannsóknaraðilar farið offari gegn
þeim, enda voru þeir að lokum sýkn-
aðir af öllum alvarlegustu ákærunum
á hendur þeim. Ég var vorið 1986
hins vegar nánast einn um að verja
þá opinberlega og kippti mér ekki
upp við það, enda fer ég eftir orðum
hinnar helgu bókar: „Þú skalt ekki
fylgja fjöldanum til illra verka.“ Ef-
laust hefur Helgi gegnt endurskoð-
andaskyldum sínum af samviskusemi
í Hafskipsmálinu og verið þar hafður
fyrir rangri rök, eins og ég gat mér
þá til um. En í mínu máli virðist hann
helst hafa skoðað endur eins og þær,
sem áttu að hafa trítlað nokkra
hringi í kringum hús Ólafs á Oddhóli
og hvergi voru til nema í gaman-
sögum.
(Þeir Friðrik Arngrímsson, Vil-
hjálmur Egilsson og Orri Hauksson
hafa allir staðfest frásögn mína, að
því er snýr að þeim, en Jón Steindór
Valdimarsson svaraði ekki skila-
boðum.)
Eftir Hannes Hólm-
stein Gissurarson » Gamansaga Helga
Magnússonar veitir
mér þó tækifæri til að
fara aðeins yfir, hvernig
því verkefni var sinnt,
sem SI, LÍÚ og
SA áttu aðild að.
Hannes Hólmsteinn
Gissurarson
Höfundur er prófessor í stjórn-
málafræði.
Styrkjasnillingur svarar samningaglóp
Talið er að það kosti
að jafnaði 4 krónur að
fresta eðlilegu viðhaldi
upp á 1 krónu. Það er
því skammgóður vermir
að fresta því að gera við.
Vermir jafnvel enn
skemur en þegar pissað
er í skóinn sinn sér til
hita. Vanrækt viðhald
er ekkert annað en dýrt
lán á vöxtum. Nú hefur
komið fram að skóla-
starf í Fossvogsskóla hefur raskast
og húsið verið rýmt. Rakaskemmdir
og myglu er að finna í mörgum öðr-
um byggingum borgarinnar. Með-
vituð ákvörðun um að
fresta viðhaldi var tekin
fyrir átta árum síðan.
Þessi frestun sparaði
borginni marga millj-
arða, en samkvæmt
þekktri reiknireglu má
segja að þetta sé eitt
dýrasta lán sem hægt
er að taka. Ef þakið lek-
ur og ekki er gert við
það fylgja raka-
skemmdir, fúkki og
mygla ásamt
óskemmtilegum fylgi-
fiskum með tilheyrandi vanlíðan. Á
sama tíma og sparað var í viðhaldi í
skólabyggingum var ákveðið að fjár-
festa í bragganum í Nauthólsvík og
öðrum ólögbundnum gæluverkefnum
á borð við pálmatré í gleri.
Eftir höfðinu dansa limirnir
Sama á við um dótturfélög borgar-
innar. Félagsbústaðir hafa vanmetið
viðhaldsþörf íbúða í eigu félagsins.
Nýlega leiddi úttekt innri endurskoð-
unar Reykjavíkurborgar í ljós að við-
gerðir á íbúðum í Írabakka fóru 330
milljónum fram úr áætlun. Hætta er
á að viðhaldsþörf annarra íbúða í eigu
félagsins sé vanmetin. Frægasta
dæmið er þó aðalstöðvar Orkuveitu
Reykjavíkur, hús sem talið er nær
ónýtt. Enn er óljóst hvað olli þessu
gríðarlega tjóni en viðhaldi kann að
vera um að kenna. Við sjáum dæmi
um vandamál með fráveitu, kalda
vatnið og nú síðast skort á heitu vatni.
Ljóst er að teflt er á tæpasta vað í
endurnýjun innviða og viðhaldi. Það
er akkúrat enginn sparnaður í því að
fresta nauðsynlegu viðhaldi. Þvert á
móti er ámælisvert að trassa það.
Fossvogsskóli er skólabókardæmi
um það. Við það bætist svo vandi for-
eldra, barna og kennara, þegar skóla-
húsið er ekki til staðar, og sá kostn-
aður sem fylgir atvinnutapi þeirra
foreldra sem verða að vera heima
með börnunum vegna þessa. Þörf er á
heildarúttekt á viðhaldi borgarinnar
og höfum við lagt til að hún fari fram.
Fyrst þarf að kanna ástandið á skóla-
húsnæði borgarinnar og svo öllu hús-
næði borgarinnar. Í ljós hefur komið
að fyrirliggjandi úttektir hafa ekki
verið í lagi. Heilbrigðiseftirlitið gaf
húsnæði Fossvogsskóla næsthæstu
einkunn í úttekt sinni í nóvember.
Þremur mánuðum síðar er það talið
óhæft til kennslu. Það kann víðar að
vera mygla í mosanum hjá borginni.
Borgin hefur vanrækt viðhald
Eftir Eyþór Arnalds
Eyþór Arnalds
» Það er akkúrat
enginn sparnaður
í því að fresta nauðsyn-
legu viðhaldi. Þvert á
móti er ámælisvert
að trassa það.
Höfundur er oddviti Sjálfstæðis-
flokksins í Reykjavík.